Einhver titill

Útivist

Skipulagðar göngur Ferðamálafélagsins meira

Spennandi staðir og leiðangrar í Ölfusi

Ölfusið býður upp á margt sem má nýta í skemmtilegum dagsferðum með allri fjölskyldunni. Hér á eftir eru nokkrar tillögur sem hægt er að nota til að byggja á. Margt fleira er vert að skoða og alltaf hægt að fá leiðbeiningar og aðstoð á upplýsingamiðstöðinni á bókasafninu í Þorlákshöfn (s. 480 3830).

1. Hellaferð og sund í kjölfarið

Í Ölfusi eru margir hellar, miserfiðir. Fyrir þá sem vilja leggja í metnaðarfulla hellaferð, er hægt að mæla með Arnarkerinu eða Raufarhólshelli. Gera þarf ráð fyrir góðum tíma ef ætlunin er að fara langt inn í hellana, og nauðsynlegt að vera vel búin ljósum, hlýjum klæðnaði og hjálmi á hausnum (hjólahjálmarnir eru mjög góðir í þetta). Ekki er verra að taka með nesti, annaðhvort til að borða í hellinum (alltaf logn í hellunum) eða þegar komið er út. Munið bara að taka allan pappír og annað drasl með ykkur. Í kjölfarið er ekki úr vegi að hvílast í sundi, þeir sem eiga enn næga orku, geta tekið nokkrar ferðir áður en þeir fara í heita pottinn eða leggjast í gufubaðinu. Yngstu börnin geta leikið sér í innilauginni.

2. Ævintýri í fjörunni, sandkastalagerð og sandhlaup

Það er hægt að eyða mörgum tímum í góðri sandfjöru. Vestan við Þorlákshöfn er svört sandfjara sem lætur lítið yfir sér, en býður upp á margvísleg ævintýri. Best er að komast ofan í fjöruna frá golfvellinum. Í sandinum er ekki úr vegi að búa til sandkastala, efna til stökkkeppni eða keppa í hlaupi. Þegar hlýnar er gaman að hlaupa undan öldunum, en þeir sem eldri eru verða að hafa vit fyrir börnunum, því öldurnar geta verið ansi kraftmiklar þarna við opnu úthafi. Forvitnir geta leitað uppi djúpar lautir í sandinum og ekki ólíklegt að hægt væri að fela sig ef feluleikur er hluti af dagkránni.

3. Kíkt á krúttlegan vita og leitað að fjársjóði í fjörunni

Frá útsýnisstað, sunnan við bryggjuna í Þorlákshöfn, er hægt að ganga út að Hafnarnesvita. Sá viti er ekki stór, en upplýsingaskilti er nálægt vitanum sem segir sögu af vörðu sem þarna var og þeim sjávarháska sem sjómenn geta lent í. Ef haldið er áfram í fjörunni þarf ekki að leita lengi til að finna allskyns drasl og dót sem krökkum þykir yfirleitt ekki leiðinlegt að skoða. Allskyns fallegt grjót, kuðungar, bobbingar, rekaviður og jafnvel flöskuskeyti getur átt það til að finnast í fjörunni. Eins gott að hafa augun opin. Ekki er verra að hafa sterka mömmu og pabba meðferðis sem geta hjálpað að bera drasl í bílinn, eða lítinn poka undir gersemar.


Hér fyrir neðan er listi yfir ýmsa staði sem við mælum með að gestir heimsæki þegar þeir dvelja á svæðinu eða eiga leið um.

Ennfremur má finna margvíslegar upplýsingar í krækjulistanum hér hægra megin.
TungumálÚtlit síðu: