Til bakaPrenta
Fræðslunefnd - 17

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
17.05.2017 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Ágústa Ragnarsdóttir formaður,
Michal Rybinski varaformaður,
Hansína Björgvinsdóttir aðalmaður,
Ólafur Hannesson aðalmaður,
Svanlaug Ósk Ágústsdóttir aðalmaður,
Helena Jóhannsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Lára Hrund Bjargardóttir áheyrnarfulltrúi,
Louisa Christina á Kósini áheyrnarfulltrúi,
Guðrún Jóhannsdóttir skólastjóri, Dagný Erlendsdóttir leikskólastjóri.
Fundargerð ritaði: Ágústa Ragnarsdóttir, formaður fræðslunefndar


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1701008 - Leikskólinn Bergheimar: Skýrslur skólastjóra 2017.
Í byrjun mars kom Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnar- ness, í heimsókn. Hann kenndi starfsmönnum á stjörnukíki sem foreldrafélag skólans gaf síðasta vor. Sama kvöld og Sævar kom voru góð skilyrði til þess að sjá og skoða Venus. Ingibjörg Aðalsteinsdóttir bauð þá börnunum í 1. bekk grunnskólans og nemendum leikskólans ásamt foreldrum að koma í stjörnuskoðun en Ingibjörg hefur verið með þemaverkefnið Geimurinn á Tröllaheimum sl. tvo vetur.

Í byrjun mars kom Marta Dröfn Björnsdóttir höfundur bókarinnar „Amma með biluðu augun“ í heimsókn og las bók sína fyrir börnin á Goðheimum.

14. mars komu gestir frá Félagi eldri borgara og lásu fyrir börnin á Hulduheimum. Þetta er liður í samstarfi leikskólans og Félags eldri borgara.

Í kjölfar tannverndarviku komu tannlæknir og aðstoðarkona hans í heimsókn. Þær fræddu börnin um tannhirðu og leyfðu þeim svo að bursta tennurnar í Dalla dreka sem var með í för. Þá fengu öll börnin tannbursta að gjöf frá leikskólanum.

Í mars kynnti Mentor nýtt kerfi sem aðlagað er leikskólum og þeirra starfsemi. Til stendur að kynna þetta fyrir foreldum og standa væntingar til að notkun á Mentor munu aukast í kjölfarið.

6. apríl var hin árlega íþróttasýning. Börnin voru dugleg að taka þátt í æfingum og sýndu á sér sínar bestu hliðar.

Í apríl kom heimsókn frá tónlistarskólanum en þá mætti gítarkennari ásamt tveimur nemendum sínum. Þau spiluðu nokkur lög og var endað í fjöldasöng.

26. apríl var útskrift sex ára barna. Við það tækifæri bauð foreldrafélagið börnum og kennurum deildarinnar út að borða á Hendur í Höfn. Leikskólinn færði börnunum kveðjugjöf og möppur sem innihalda myndir af börnunum og verkum þeirra í gegnum leikskólagönguna.

3. maí var fundur með foreldrum sex ára barna. Þar þurftu foreldrar t.d. að skila uppsögn á leikskólavistinni, svo hægt sé að skipuleggja aðlögun nýrra nemenda í leikskólann. Fulltrúi frá Frístund mætti og kynnti hvað þar er í boði.

9. maí komu gestir frá Félagi eldri borgara og lásu fyrir börnin á Álfa- og Dvergaheimum.

9. maí var svokallaður skilafundur milli leik- og grunnskóla en þar er farið yfir nemendur sem eru á leið í grunnskólann í haust.

12. maí var starfsdagur og leikskólinn lokaður. Starfsfólk Bergheima fór í heimsóknir í leikskólana Álfaheiði í Kópavogi og Ægisborg á Seltjarnarnesi og skoðaði starfið þar.

Að venju verður farið í hesthúsin í maí til að skoða nýfædd lömb sem og kindur, hesta og fleiri dýr sem þar eru. Hver deild skipuleggur sína ferð og verða valdir dagar þar sem vel viðrar.

Vorskólinn verður 17. og 18. maí. Í Vorskólanum fara elstu nemendurnir yfir í grunnskólann og kynna sér tilvonandi grunnskólanám í 2 tíma hvorn daginn.

20. maí kl. 11:00-13:00 verður vorhátíð foreldrafélagins.

23. maí verður haldinn fundur fyrir þá foreldra sem eiga börn sem fara á Goðheima næsta vetur. Goðheimar verða með aðstöðu í grunnskólanum og verða tvær kennslustofur notaðar vegna stærðar deildarinnar. Nú þegar er vitað um 25 nemendur í árganginum.

Leikskólastjórar og kennarar hafa farið á ýmsar ráðstefnur, námskeið og fundi í vetur. Slíkt gefur mikla innspýtingu í starfið.

Sumarfrí hefst 12. júlí.
2. 1701009 - Leikskólinn Bergheimar: Starfsmannahald 2017.
Einn starfsmaður er að koma til baka úr námsleyfi. Annar starfsmaður hefur óskað eftir launalausu námsleyfi næsta vetur. Þá hefur einn starfsmaður sagt starfi sínu lausu frá og með 19. júní og hefur þegar verið ráðið í starfið. Nokkrir starfsmenn hafa verið með og eru með tímabundna ráðningu vegna forfalla starfsfólks.
3. 1705012 - Leikskólinn Bergheimar: Breytingar á gjaldskrá.
Kynnt erindi sem leikskólastjóri lagði fram við Bæjarráð Ölfuss er varðar breytingar á vistunartíma og gjaldskrá Leikskólans Bergheima. Bæjarráð hefur samþykkti erindið samhljóða og tekur það gildi frá og með hausti 2017.
4. 1705013 - Leikskólinn Bergheimar: Aukning stöðugilda.
Kynnt erindi sem leikskólastjóri lagði fram við Bæjarráð Ölfuss en þar er þess óskað að stöðugildum við Leikskólann Bergheima verði fjölgað um tvö frá og með næsta hausti. Er það vegna fjölgunar nemenda í Goðheimum sem og fjölda nemenda af erlendum uppruna sem þarf að sinna betur. Bæjarráð hefur samþykkti samhljóða að taka til frekari skoðunar þessa tillögu.
5. 1701010 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn: Skýrslur skólastjóra 2017.
Fyrri hluta mars komu ráðgjafar frá Eflingu stéttarfélagi og fræddu nemendur í 10. bekk um réttindi sín og skyldur á vinnumarkaði.

96,2% allra starfsmanna Grunnskólans í Þorlákshöfn fóru saman í náms- og kynnisferð til Birmingham á Educational Show dagana 16. og 17. mars.

22. mars fór lið Grunnskólans í Þorlákshöfn og keppti í Skólahreysti í Reykjanesbæ. Rúta var í boði skólans fyrir 8. ? 10. bekk. Liðinu gekk vel og allir voru skólanum sínum til sóma.

27. mars var starfshópur úr Árnesþingi við vinnu í skólanum vegna námskrár í upplýsingatækni. Sigríður Guðnadóttir kennari var í hópnum fyrir hönd GÞ.

28. mars var gerð úttekt vegna Grænfánaverkefnisins sem GÞ tekur þátt í. Umhverfisnefnd GÞ tók á móti fulltrúum verkefnisins.

28. mars var haldinn fræðslufundur í skólanum þar sem Hjálmur Dór kennari í Heiðarskóla kom og fræddi kennara um betri notkun spjaldtölva í kennslu.

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk var haldin í Sunnulækjarskóla á Selfossi 29. mars. Nemendum GÞ gekk vægast sagt afar vel og voru skólanum til mikils sóma. Sigríður Fjóla Þórarinsdóttir, Birgitta Björt Rúnarsdóttir og Kristófer Logi Benediktsson lásu fyrir hönd skólans. Sigríður Fjóla lenti í 1. sæti og Birgitta í 2. sæti.

Skólaráðsfundur var haldinn 3. apríl og einnig var þann daginn haldin uppskeruhátíð vegna samvinnu leik- og grunnskólans í sal Tónlistarskólans.

4. apríl kom launafulltrúi sveitarfélagsins og fulltrúi frá Vinnuvernd og voru með kynningu fyrir starfsfólk skólans í sal Tónlistarskólans.

Árshátíð unglingastigs fór fram fimtudagskvöldið 27. apríl og heppnaðist í alla staði mjög vel. Nemendur ákváðu að árshátíðin yrði símalaus.

Uppskeruhátíð Litlu upplestrarkeppninnar í 4. bekk fór fram föstudaginn 28. apríl í sal Tónlistarskólans og var gaman að sjá hversu vel undirbúnir nemendur voru fyrir upplesturinn.

Föstudaginn 5. maí var fræðslufundur haldinn fyrir kennara skólans um óhefðbundnar leiðir í stærðfræðikennslu. Þóra Þórðardóttir kennari við Fjölbrautaskóla Vesturlands sá um fræðsluna.

10. maí kom stór hópur evrópskra kennara og stjórnenda sem voru hér á landi á námskeiði á vegum Erasmus verkefnisins í heimsókn í skólann. Síðar þann dag var haldinn kynningarfundur vegna verkefnisins „Að deila er dyggð“ í Kerhólsskóla þar sem kennarar í skólum í Árnesþingi kynntu þróunarverkefni sem hafa í gangi í skólunum í vetur. Ingvar Jónsson kennari kynnti stærðfræðiverkefni GÞ fyrir fundarmönnum.
6. 1705014 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn: Starfsmannahald.
Fjórir sóttu um stöðu umsjónarkennara og íþróttakennara í hlutastarfi sem auglýst var fyrir páska. Ágúst Ólason var ráðinn í stöðu umsjónarkennara og Karl Ágúst Hannibalsson í 65% stöðu íþróttakennara. Þá hefur Guðbjörg Bergsveinsdóttir verið ráðin í stöðu textílkennara. Einn kennari hefur beðið um launalaust leyfi næsta skólaár og annar kemur til baka úr veikindaleyfi. Þá hafa tveir skólaliðar sagt starfi sínu lausu þar af annar sem hefur verið í launalausu leyfi. Tveir starfsmenn eru með tímabundna ráðningu vegna forfalla starfsfólks.
7. 1705015 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn: Valgreinar á efsta stigi.
Valgreinar eru hluti af skyldunámi nemenda í 8.-10. bekk og er ætlað að aðlaga námið sem mest að þörfum einstaklingsins. Fræðslunefnd lýsir yfir ánægju sinni á fjölbreyttum og metnaðarfullum valgreinum í GÞ á næsta skólaári sem og þeim möguleika að flétta þar inn í þátttöku í félagslífi, íþróttum eða skipulögðu starfi utan skóla og einnig nám utan grunnskólans s.s. Í tónlistarskóla.
8. 1705016 - Leikskólinn Bergheimar: Skóladagatal 2017-2018,
Skóladagatal Leikskólans Bergheima fyrir skólaárið 2017-2018 lagt fram til samþykktar.

Fræðslunefnd samþykkti samhljóða skóladagatalið.
9. 1703016 - Grunnsskólinn i Þorlákshöfn: Skóladagatal 2017-2018.
Skóladagatal Grunnskólans í Þorlákshöfn fyrir skólaárið 2017-2018 lagt fram til samþykktar.

Fræðslunefnd samþykkti samhljóða skóladagatalið.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:20 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?