Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarráð Ölfuss - 290

Haldinn í ráðhúsi,
14.07.2017 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Jón Páll Kristófersson formaður,
Þrúður Sigurðardóttir aðalmaður,
Sigurlaug Berglind Gröndal áheyrnarfulltrúi,
Ágústa Ragnarsdóttir varamaður,
Gunnsteinn R. Ómarsson bæjarstjóri, Guðni H. Pétursson bæjarritari.
Fundargerð ritaði: Guðni Pétursson, bæjarritari


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1706005 - Starfsmannamál: Almennt efni um starfsmannamál. Fjarvistarstjórnun
Lagt fram bréf Félags opinberra starfsmanna á Suðurlandi varðandi ábendingar sem félagið hefur fengið um að nýir verkferlar sveitarfélagsins vegna tilkynninga starfsmanna á veikindum sinum séu ekki í samræmi við ákvæði kjarasamninga eða lög um persónuvernd.

Samþykkt samhljóða að óska eftir fundi með forsvarsmönnum FOSS um málið.

2. 1707005 - Húsnæðismál: Félagslegt leiguhúsnæði
Á fundinn var mætt María Kristjánsdóttir félagsmálastjóri og gerði hún grein fyrir stöðu félagslega íbúðakerfisins í sveitarfélaginu og þær tillögur sem fram hafa komið í þeim málaflokki til úrbóta.
Vék hún síðan af fundi

Þá var lagt fram kauptilboð sveitarfélagsins í fasteignina Eyjahraun 6 Þorlákshöfn sem hljóðar upp á 29.5 mkr. en fyrirhugað er að nýta húsnæðið sem félagslegt leiguhúsnæði.

Samþykkt samhljóða.

Kaupin eru ekki á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins en verða tekin inn við gerð viðauka sem unnið er að.
3. 1706029 - Húsnæðismál: Húsnæðisáætlun Sveitarfélagsins Ölfuss
Lagt fram minnisblað frá VSÓ-ráðgjöf dags. 12. júlí s.l. varðandi aðferðarfræði við vinnu við gerð húsnæðisáætlunar fyrir sveitarfélagið ásamt kostnaðaráætlun sem áætlaður er 1.7. milljónir kr.

Samþykkt samhljóða að ganga til samninga við félagið á grunni minnisblaðsins.
Verkið er ekki á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins en verður tekið inn í viðauka sem unnið er að.
4. 1706015 - Fasteignir: Almennt um fasteignir. Erindi Íbúðalánasjóðs til sveitarstjórnar.
Á síðasta fundi bæjarstjórnar var forseta bæjarstjórnar og bæjarstjóra falið að leggja fram tillögu vegna boðs Íbúðalánasjóðs um kaup sveitarfélagsins á fasteignum í eigu sjóðsins. Húsnæðisþörfin fyrir félagslegt leiguhúsnæði var skoðuð með aðkomu félagsmálastjóra og fasteignir skoðaðar.

Tillagan sem lögð er fram er sú að fjárfest verði í einni íbúð í eigu Íbúðalánasjóðs undir félagslegar leiguíbúðir enda er hún í ásættanlegu ástandi, í stærð sem hentar og er ekki í notkun.

Samþykkt samhljóða að fela bæjarstjóra að ganga til samninga við Íbúðalánasjóð um kaup á Norðurbyggð 18b í Þorlákshöfn.

Þá skorar bæjarráð á Íbúðalánasjóð að draga til baka uppsagnir á þeim íbúðum í eigu sjóðsins sem eru í útleigu í sveitarfélaginu.
Almennt ástand á húsnæðismarkaði er með þeim hætti að fjöldi þess fólks sem í þessum leiguíbúðum býr hefur ekki í nein hús að venda.
Æskilegt er að lengri frestur eigi skemmri en 3 ár verði gefinn.
Reikna má með að ástand á húsnæðismarkaði, sérstaklega hvað leigumarkað varðar hafi náð jafnvægi að þeim tima liðnum.
Ný lög um almennar íbúðir tóku gildi um mitt síðasta ár en gera verður ráð fyrir að einhver ár taki að ná markmiðum laganna.

Samþykkt samhljóða.

5. 1706010 - Deiliskipulag norðan Norðurbyggðar
Lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir svæðið norðan við Norðurbyggð.
Innan svæðisins er gert ráð fyrir raðhúsa-, parhúsa- og einbýlishúsalóðum.
Einbýlishúsalóðirnar koma nyrst á svæðinu. Raðhúsalóðirnar liggja samsíða Ölfusbraut.
Að Norðurbyggð og Básahrauni og inn í kjarnanum koma parhúsalóðir.
Svæðið er með 54 íbúðir.
Með að heimila að parhúsalóðum verði breytt í þríbýli gæti hverfið verið fyrir 66 íbúðir.

Skipulagslýsing var í kynningu til 22. júní 2017.
Samþykkt samhljóða að deiliskipulagstillagan fari í lögboðinn auglýsingaferil.
8. 1707002 - Starfsmannamál: Uppsögn forstöðumanns Sambýlis Selvogsbraut 1
Lagt fram bréf Steinunnar Þorsteinsdóttur forstöðuþroskaþjálfa á Selvogsbraut 1 Þorlákshöfn þar sem hún segir upp starfi sínu frá og með 30. júní 2017.

Bæjarráð þakkar Steinunni fyrir störf hennar í þágu sveitarfélagsins á liðnum árum.
Nú þegar hefur verið auglýst eftir nýjum forstöðumanni.
Almenn mál - umsagnir og vísanir
6. 1603023 - Rekstrarleyfi: Umsagnarbeiðnir sýslumanns
Lagt fram erindi Sýslumannsins á Suðurlandi dags. 6. júlí s.l. þar sem óskað er umsagnar sveitarfélagsins á umsókn Ketils Sigurðssonar f.h. Agnus Dei ehf. á umsókn um útgáfu rekstrarleyfis vegna reksturs gististaðar í IV flokki að Hótel Hlíð Króki í Ölfusi.

Samþykkt samhljóða að mæla með útgáfu leyfisins.
7. 1707006 - Umferðar- og samgöngumál: Götulýsing í Þorlákshöfn
Lögð fram tillaga að samningi á milli RARIK og Sveitarfélagsins Ölfuss um yfirtöku á götulýsingarkerfinu í Þorlákshöfn en um er að ræða um 700 götuljósastaura með tilheyrandi ljósabúnaði ásamt strenglögnum og tilheyrandi götuskápum með varnar- og stjórnbúnaði.

Samþykkt samhljóða að vísa málinu til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2018.
Fundargerðir til kynningar
9. 1603005 - Samstarf sveitarfélaga: Fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga
Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 30. júní s.l. lögð fram.

Til kynningar.
Mál til kynningar
10. 1602017 - Fjármál: Fjárhagsupplýsingar Sveitarfélagið Ölfus 2016-2018
Lagt fram rekstraryfirlit sveitarfélagins fyrir mánuðina janúar-maí 2017 ásamt yfirliti yfir stöðu verklegra framkvæmda fyrir sama tíma.
Rekstur sveitarfélagsins er að stærstu leyti í samræmi við gildandi fjárhagsáætlun.
Bæjarstjóri og bæjarritari fóru yfir helstu liði yfirlitanna og svöruðu spurningum nefndarmanna.

Til kynningar.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:45 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?