Fundargerðir

Til bakaPrenta
Fræðslunefnd - 18

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
12.09.2017 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Ágústa Ragnarsdóttir formaður,
Michal Rybinski varaformaður,
Hansína Björgvinsdóttir aðalmaður,
Ólafur Hannesson aðalmaður,
Svanlaug Ósk Ágústsdóttir aðalmaður,
Hrönn Guðfinnsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Ingibjörg Aðalsteinsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Guðrún Jóhannsdóttir skólastjóri, Dagný Erlendsdóttir leikskólastjóri.
Fundargerð ritaði: Ágústa Ragnarsdóttir, formaður fræðslunefndar


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1709008 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn: Sjálfsmatsskýrsla skólaárið 2016-2017.
Endurbótaáætlun skólaárið 2017-2018.
Ólína Þorleifsdóttir aðstoðarskólastjóri mættti á fundinn og fór yfir sjálfsmatsskýrslu GÞ 2016-2017 sem og endurbótaáætlun fyrir nýhafið starfsár 2017-2018.
Sjálfsmatsskýrslan er unnin í samræmi við lög um grunnskóla nr. 91/2008. Sjálfsmatið er ferli sem snýst um að afla upplýsinga um starfsemi skólans og leggja mat á upplýsingarnar. Í framhaldinu er mikilvægt að skoða áframhaldandi skólastarf og hvort einhverjar breytingar þurfi og hvað hægt sé að gera til þess að festa jákvæða þætti enn betur í sessi.
Fimm starfsmenn skólans skipuðu sjálfsmatsteymið.
Skýrsluna og umbótaáætlunina má finna á heimasíðu GÞ.

2. 1701012 - Kjarasamningar grunnskólakennara: Umbótaáætlun Sveitarfélagsins Ölfuss.
Formaður fræðslunefndar fór yfir umbótaáætlun Ölfuss sem unnin var samkv. bókun 1 úr kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands vegna Félags grunnskólakennara sem samþykktur var 29. nóvember 2016. Þar var samstarfsnefnd samningsaðila falið að leggja fram vegvísi að aðgerðaráætlun til sveitarfélaga um nánari greiningu á því ástandi sem kennarar og stjórnendur hafa lýst að ríki í starfsumhverfi grunnskóla frá kjarasamningunum 2014 og jafnframt kallað eftir úrbótum á. Sjö aðilar skipuðu starfshóp Ölfuss, tveir frá sveitarfélaginu og fimm frá GÞ og skiluðu þeir vinnu sinni í júní sl.
3. 1602028 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn: Skýrslur skólastjóra.
Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri og deildarstjóri stoðþjónustu mættu til starfa í vikunni fyrir verslunarmannahelgi. Húsvörður kom til starfa 8. ágúst og ritari 14. ágúst. Kennarar og aðrir starfsmenn mættu þriðjudaginn 15. ágúst samkvæmt útsendri dagskrá frá skólastjórnendum fyrir starfsdagana. Á dagskrá var auk almenns undirbúnings, Mentorfræðsla í tengslum við breytt námsmat, fræðsluferð á Eyrarbakka og fræðslufundur um almennar brunavarnir og flóttaleiðir frá Brunavörnum Árnesinga.

Fjölmargir kennarar fóru á ráðstefnu í Rimaskóla 14. september um lykilhæfni sem bar heitið: Lykilhæfni - leiðir og leiðsögn.

Grunnskólinn var settur 22. ágúst að viðstöddu fjölmenni.

Í sumar var unnið að ýmsu viðhaldi á skólahúsnæði grunnskólans og var sem dæmi skipt um gólfdúk á matsal sem og fyrir framan hann. Eins var einni kennslustofu skipt í tvö minni rými, annað fyrir náms- og starfsráðgjafa og hitt fyrir sérkennslu.

Gúmmíkurli á gervigrasvelli var skipt út fyrir minna skaðlegt efni.

Við upphaf skólaársins eru 222 nemendur skráðir. Það er fjölgun frá því á sama tíma í fyrra þegar 214 nemendur voru skráðir í skólann.

Innkaup og dreifing námsgagna gekk mjög vel og eru skólaritara færðar sérstakar þakkir fyrir sína aðkomu.

Búið er að skipa í nefndir og ráð á vegum skólans.

Sjálfsmatsnefnd skólans hefur fundað og ákveðið að þetta skólaár verði lagðar fyrir nemendakannanir í október og mars og starfsmannakönnun í mars.

Haustferðir eru á dagskrá við upphaf skólaársins og hafa fræðsluferðir á söfn í bland við útivist í fallegu umhverfi verið efstar á baugi að þessu sinni.

Nemendur í íþrótta- og útivistarvali hafa verið að fara í skemmtilegar ferðir s.s. út í Selvog, á Esjuna og í Reykjadal.

Í vikunni 28. ágúst ? 1. september var aðstoðarskólastjóri frá Þýskalandi í heimsókn í skólanum.

5. september kom Sigga Dögg kynfræðingur í grunnskólann og var með áhugavert fræðsluerindi fyrir 6. ? 10. bekk, allt starfsfólk skólans á fundartíma og síðan foreldra seinnipartinn.
4. 1602029 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn: Starfsmannahald.
Samtals eru 54 starfsmenn starfandi við grunnskólann í samtals 47,17 stöðugildum í upphafi skólaárs. Þetta skiptist þannig:
Skólastjórnendur eru þrír; skólastjóri, aðstoðarskólastjóri og deildarstjóri stoðþjónustu - allir í 100% stöðuhlutfalli. Einn sérkennari er í 49,9% stöðu verkefnisstjóra 1.
Kennarar eru 25: 18 í 100% stöðuhlutfalli og átta í skertu hlutfalli. Leiðbeinandi er einn, hann er í 50% stöðuhlutfalli. Þroskaþjálfar eru tveir, báðir í 100% stöðugildum.
Stuðningsfulltrúar eru sjö í 5 stöðugildum. Skólaliðar eru fimm, tveir í fullri stöðu og þrír í 80% stöðuhlutfalli. Húsvörður er í fullu starfi, skólaritari er í 80% stöðu og bókavörður í 92% stöðu.
Starfsmenn í mötuneyti eru tveir í 100% starfi hvor, en heyra nú undir verkstjórn matreiðslumanns mötuneytis. Starfsmenn í frístund eru 4 talsins í 2,25 stöðugildum.
5. 1602030 - Leikskólinn Bergheimar: Skýrslur skólastjóra.
Aðlögun nýrra barna hófst að loknu sumarleyfi. Verið er að aðlaga börn á flestar deildir. Ekki skiluðu öll innrituð börn sér svo yngri börn (17-18 mán.) komast að í vetur. Leiksskólinn þarf að aðlaga sig fyrir þann aldur t.d. með annars konar búnaði sem hentar þeim aldurshópi.
Fyrsti tíminn í íþróttahúsinu er 14. sept. Börn fædd 2015 og 2016 fara ekki í íþróttahúsið heldur eru í hreyfistund í leikskólanum.
Talmeinafræðingur verður með áframhaldandi samning við leikskólann í vetur. Hann kemur tvisvar í mánuði og hittir þau börn sem þurfa á þessari aðstoð að halda. Einnig veitir talmeinafræðingurinn sérkennslustjóra ráðgjöf um áframhaldandi vinnu með hverju barni fyrir sig og vinnur með kennurum inni á deildum.
Sérkennslustjóri leikskólans ásamt öðrum starfsmanni leikskólans sinnir sérkennslu en um 40 börn njóta stuðnings þeirra en mismikið.
Í vetur verður 31 barn á leiksskólanum sem á foreldra þar sem annað eða bæði eru af erlendu bergi brotin. Þessum börnum þarf að sinna mjög vel upp á þeirra framtíð að gera. Löndin sem börnin koma frá auk Íslands eru Pólland, Rúmenía, Búlgaría, Slóvakía, Bandaríkin, Kenya, Tæland og Argentína.
Námskeiðið Gaman saman verður haldið í vetur á vegum leikskólans ef næg þátttaka verður. Aðstoðarleiksskólastjóri ásamt leiksskólakennara sjá um námskeiðið. Markmið námskeiðsins er að tengja betur saman erlenda foreldra og samfélagið sem þeir búa í núna.
Svokallaðir Litadagar verða á sínum stað í vetur en þeir eru fyrsta föstudag í mánuði. Þá mæta nemendur og starfsfólk í einhverju eða með eitthvað í sama lit og litadagurinn gefur til kynna.
Söngstundir verða áfram i vetur en þó með aðeins öðru sniði þar sem salurinn verður ekki aðgengilegur vegna endurbóta.
Í vor voru settar niður kartöflur og fræ og verður uppskera fljótlega. Að setja niður í matjurtagarðinn kemur inn á hina ýmsu námsþætti t.d. náttúru og vísindi. Það að sjá eina kartöflu verða að mörgum er spennandi, eins að sjá eitt lítil fræ verða að káli. Nemendur hafa einnig verið að týna ber af trjánum í leikskólagarðinum en þar vaxa rifsber og sólber sem þau hafa verið að gæða sér á.
Áframhaldandi samstarf verður við ýmsa aðila í samfélaginu s.s. Tónlistarskólann, eldri borgara og grunnskólann. Nemendur úr tónlistarskólanum spila reglulega fyrir leikskólanemendur, eldri borgara lesa fyrir börnin, elstu börnin kíkja reglulega í heimsókn í 1. bekk og svo sú nýjung sem er svokallað leikskólaval fyrir 8.-10. bekk. Þaðan koma sex nemendur í allan vetur og inna af hendi ákveðin verkefni í leikskólanum.
12. sept. kemur iðjuþjálfi frá HSu og ætlar að meta pennagrip hjá öllum elstu nemendunum.
13. sept. er aðalfundur foreldrafélagsins þar sem kosin verður ný stjórn.
16. sept. er Dagur íslenskrar náttúru. Það verða allir úti að venju!
19. sept. fara allir deildarstjórar á samráðsfund deildarstjóra á vegum Skóla- og velferðaþjónustu Árnesþings.
20. sept. fara skólastjórar á fund leikskólastjóra á vegum Skóla- og velferðaþjónustu Árnesþings.
Foreldrafundir verða á öllum deildum á þriðjudögum frá 27. sept.- 25. okt.
Umhverfisnefnd skólans hittist annan föstudag í mánuði. Fulltrúar foreldra mæta annan hvern mánuð. Næsta markmið Grænfánans er lýðheilsa og stefnt er að því að sækja um þann fána nú í haust.
Haustþing leikskóla á Suðurlandi er 13. október á Selfossi. Þangað fer allt starfsfólk.

6. 1602031 - Leikskólinn Bergheimar: Starfsmannahald.
Eftir sumarfrí hafa orðið tilfærslur á starfsfólki á milli deilda. Tveir nýir starfsmenn hafa slegist hópinn; leikskólakennari og iðjuþjálfi. Einn starfsmaður verður í námsleyfi í vetur, tveir eru í fæðingarorlofi og aðrir tveir á leið í fæðingarorlof.
Mál til kynningar
7. 1706003 - Leikskólinn Bergheimar: Endurnýjun elstu byggingar leikskólans
Framkvæmdir eru hafnar á endurbótum elsta hluta leikskólans. Tvær nýjar deildir verða gerðar, salurinn endurbættur o.fl.
Verklok eru áætluð í apríl 2018.
8. 1708005 - Fræðslumál: Kostnaður vegna námsgagna
Bæjarráð Ölfuss samþykkti í ágúst sl. að grunnskólanemendur í Sveitarfélaginu Ölfusi fái öll nauðsynleg námsgögn án endurgjalds. Fram til þessa hefur grunnskólinn séð um innkaup á námsgögnum fyrir nemendur gegn hóflegu gjaldi. Fræðslunefnd fagnar þessu framtaki.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:15 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?