Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarstjórn Ölfuss - 255

Haldinn í ráðhúsi,
31.05.2018 og hófst hann kl. 16:30
Fundinn sátu: Sveinn Samúel Steinarsson forseti bæjarstjórnar,
Anna Björg Níelsdóttir 1. varaforseti,
Jón Páll Kristófersson bæjarfulltrúi,
Ágústa Ragnarsdóttir bæjarfulltrúi,
Þrúður Sigurðardóttir bæjarfulltrúi,
Guðmundur Oddgeirsson bæjarfulltrúi,
Ólafur Hannesson 4. varamaður,
Gunnsteinn R. Ómarsson bæjarstjóri, Guðni H. Pétursson bæjarritari.
Fundargerð ritaði: Guðni Pétursson, bæjarritari


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1802019 - Aðalskipulag: Síld og fiskur ehf. - fyrirhuguð uppbygging á svínabúi
Undanfarna mánuði hefur staðið yfir vinna með fyrirtækinu Síld og fisk, Matfugl, vegna hugmynda um uppbyggingu mannvirkja fyrir eldi svína. Fyrirhuguð lóð er innan iðnaðarsvæðisins I20 og getur verið um 15 ha. Rætt hefur verið um að fyrirtækið fái úthlutað lóðunum Víkursandur 7 (17623 m2) og 9 (21552 m2). Norðan við þær verði skilgreind lóð fyrir fyrirtækið sem gæti verið allt að 15 ha til viðbótar við lóðirnar nr. 7 og 9.

Gert er m.a. ráð fyrir uppbyggingu t.d. á þauleldi svína- og alifugla, sem krefst viðveru stóran hluta sólahringsins og verður gert ráð fyrir íbúðum fyrir starfsfólk innan iðnaðarsvæðisins. Þær íbúðir skulu ávallt vera í sérstökum húsum og eftir því sem kostur er skal staðsetja þau hús sem næst jaðri svæðisins. Skv. reglugerð um eldishús alifugla, loðdýra og svína 520/2015, 6. gr. gilda fjarlægðarmörk ekki um mannabústaði eða vinnustaði sem tengjast búrekstrinum. Í tillögu að aðalskipulagsbreytingu verður gerð breyting á umfjöllun í töflu í kafla 3.2.3 um iðnaðarsvæði í greinargerð Aðalskipulags Sveitarfélagsins Ölfuss, 2010-2022.

Núverandi bæjarstjórn styður af heilum hug áform fyrirtækisins um uppbyggingu í sveitarfélaginu.
2. 1605026 - Vatnsveita: Berglind forðaöflun
Lögð fram tilboð í vatnslögn frá dæluhúsi Berglindar vatnsveitu ofan við Ölfusborgir að Þjóðvegi 1.
Þrjú tilboð bárust:

1. Garpar ehf. 33.667.300.
2 Aðalleið ehf. 34.345.600.
3. Smávélar ehf. 26.348.150.

Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á kr. 37.827.000.

Samþykkt samhljóða að taka tilboði Smávéla ehf. í verkið.
3. 1805013 - Deiliskipulag: Gljúfurárholt austan Hvammsvegar
Lögð fram deiliskipulagstillaga fyrir eftirfarandi lönd úr landi Gljúfurárholts þ.e. Gljúfurárholt landnúmer 171707 og Gljúfurárholt land nr. 9.
Sýnd er tillaga að deiliskipulagi er tekur yfir bæði löndin. Skipulagslýsing skal vera í samræmi við gildandi aðalskipulag.
Um tvö lönd er að ræða.
Tillagan fyrir Gljúfurárholt landnr. 171707 aðgreinir byggingarreiti um þau mannvirki sem eru á landinu.
Tillagan fyrir Gljúfurárholt land 9 tekur til þriggja byggingarreita fyrir íbúðarhús, hvert allt að 400 m2 á einni til tveimur hæðum.
Einnig er byggingarreitur fyrir gistihús, smáhýsi, F1 fyrir 4 smáhýsi hvert allt að 60 m2. Byggingarreitur fyrir A2 fyrir gistihús allt að 1000 m2. Byggingarreitur gistihús á A1 fyrir hesthús og reiðskemmu allt að 1800 m2.

Samþykkt samhljóða að skipulagslýsing fari í lögboðinn feril.
4. 1804024 - Aðalskipulag: Samningur við Vatnaskil
Lagður fram samningur á milli Sveitarfélagsins Ölfuss sem verkkaupa og Vatnaskils ehf. sem verksala um eftirfarandi verkefni sem er tvískipt.

a. uppfærsla grunnvatnslíkan og mat á færslu vatnsbóls fyrir Þorlákshöfn.
b. útvíkkun líkans og mat á afkastagetu strandsvæðis fyrir vatnstöku fiskeldisfyrirtækja.

Í 3. gr. er kostnaður við verkið eins og Vatnaskil mun vinna að því.
Í 5. gr. kemur fram að verkkaupi er milligönguaðili við rekstraraðila á svæðinu og söfnun og öflun gagna sem sækja þarf.
Þessi öflun getur verið að fá gögn hjá fyrirtækjunum sem fyrir eru um hvað mikið vatn þau eru núna að taka upp og hvað margar borholur eru hjá þeim.
Einnig frá ISOR og Orkustofnun um e.t.v. rannsóknarholur á svæðinu norðan við Þorlákshöfn.
Einnig frá vatnsverksmiðjunni að Hlíðarenda um hvað mikið vatn er verið þar að taka úr lind sem fyrirtækið notar.
Eigendur að landinu eu sveitarfélagið fyrir jörðina Þorlákshöfn og Landgræðsla ríkisins fyrir landið þar fyrir norðan.
Vinna á verkið á tímabilinu júní 2018 til október 2018.

Bæjarstjórn fjallaði um málið á fundi sínum 27. apríl s.l. og var þar samþykkt að taka tilboði frá Vatnaskil ehf. í verkið.

Til kynningar.
5. 1805038 - Skipulagsmál: Lóðarleigusamningar vegna vikurstarfsemi
2. maí s.l. barst sveitarfélaginu fyrirspurn frá forsvarsmönnum Frostfisks sem er eigandi fasteigna á Hafnarskeiði 6 í Þorlákshöfn.
Í erindinu er óskað eftir upplýsingum um lóðarleigusamninga nærliggjandi lóða en fram kemur m.a. að nágrannar hafi haft verulega neikvæð áhrif á reksturinn á Hafnarskeiði 6 og nú á sölumöguleika fasteignanna.

Við skoðun á lóðarleigusamningunum hefur eftirfarandi komið í ljós. Sérstaklega er fjallað um lóðarleigusamning fyrir Hafnarskeið 8 í erindinu hér að neðan undir málsnr. 1805034.

31. desember 1998 var gerður lóðarleigusamningur við Vikurvörur ehf. um lóðina Nesbraut 5 til 20 ára. Núverandi handhafi lóðarréttindanna er BM Vallá. Lóðin var leigð til vikur- og gjallvinnslu.
Þessi samningur rennur út í lok þessa árs, þ.e. 31. desember 2018 og hefur ekki verið óskað með formlegum hætti eftir framlengingu hans.

Á haustmánuðum 2009 var útbúinn lóðarleigusamningur um lóðina Nesbraut 1 í Þorlákshöfn og er leigutaki Jarðefnaiðnaður hf. Tilgreint er að lóðin sé iðnaðar- og athafnalóð. Samningurinn er gefinn út í nafni byggingarfulltrúa sveitarfélagsins fyrir hönd bæjarstjórnar og undirritaður af þáverandi bæjarstjóra með fyrirvara um afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar og samþykki bæjarstjórnar.
Upphaflega er samningurinn undirritaður 10. september 2009 með 50 ára leigutíma. Með handritun á samninginn er undirritun hans breytt í 20. desember 2009 og leigutími lengdur í 60 ár.
Hvorki fæst séð að samningurinn hafi verið tekinn fyrir hjá skipulags- og byggingarnefnd sveitarfélagsins né að hann hafi verið staðfestur af bæjarstjórn. Þrátt fyrir það var samningurinn móttekinn hjá sýslumanni til þinglýsingar 29. janúar 2010 og færður til þinglýsingar 1. febrúar 2010.

Umkvartanir atvinnustarfsemi í nágrenni við vikurstarfsemina í Þorlákshöfn eru ekki þær einu sem sveitarfélaginu hafa borist á síðustu árum.
Í ágústmánuði árið 2016 bárust kvartanir frá íbúum á Sunnu- og Mánabraut þar sem lýst var þungum áhyggjum yfir þeim aðstæðum sem íbúum er búin vegna nálægðar við fyrirtæki sem starfa í jarðiðnaði og staðsett eru við Nesbraut.
Forsvarsmenn sveitarfélagsins funduðu með forsvarsmönnum fyrirtækjanna í kjölfar þess og ræddu leiðir til að lágmarka truflun starfseminnar á nærumhverfið. Í erindi dags. 8. nóvember 2016 var óskað eftir greinargerð frá fyrirtækjunum þar sem fram kæmi hvernig brugðist hafi verið við fok- og hávaðaáhrifum eða hvernig áformað væri að bregðast við þeim. Slík greinargerð hefur ekki borist.

Það er mikil ábyrgð sem fylgir því að reka verulega umfangsmikla jarðefnavinnslu í návígi við íbúðabyggð og matvælastarfsemi.
Það er því mikilvægt að fullt tillit sé á öllum tíma tekið til nærumhverfisins og það á í raun skv. starfsleyfi fyrirtækjanna að vera truflunarlaust.

Áratugalangur lóðarleigusamningur um áhrifamikla athafnastarfsemi sem þessa ætti ekki að sjást.
Slík starfsemi á að vera víkjandi og það eina rétta fyrir jákvæða þróun samfélagsins er að slíkri starfsemi sé fundin staðsetning fjarri íbúðabyggð og fjarri atvinnustarfsemi sem fyrir truflun verður, s.s. matvælastarfsemi.

Bæjarstjórn lítur svo á að lóðarleigusamningurinn við Jarðefnaiðnað sem gerður var síðari hluta árs 2009 hafi ekki lögformlegt gildi.
Eldri samningar um athafnasvæðið renna út um mitt ár 2019.
Því er ljóst að komandi bæjarstjórn þarf að endurskoða samninga í ljósi áhrifa núverandi starfsemi á nærumhverfi sitt.
6. 1805034 - Byggingarmál: Beiðni um endurnýjun lóðaleigusamnings Hafnarskeiðs 8 a,b,c.
Aquaomnis ehf. óskar í erindi dags. 17. maí 2018 eftir endurnýjun lóðarleigusamnings fyrir Hafnarskeið 8 a,b,c.
Í rökstuðningi með erindinu kemur m.a. fram: „Þar sem Aquaomnis hefur í hyggju mögulega endurbyggingu eða nýbyggingu á lóðunum er hér með farið fram á það við sveitarfélagið Ölfus að það framlengi lóðarleigusamningnum um tilgreindar fasteignir eða geri nýjan samning til 75 ára eða a.m.k. til ársins 2046 eins og gert var í tilviki Hafnarskeiðs 6.“

Lóðarleigusamningar vegna Hafnarskeiðs 8 eru tveir, annars vegar fyrir Hafnarskeið 8a fyrir bræðslu- og fiskimjölsverksmiðju og hins vegar fyrir Hafnarskeið 8b fyrir mjölgeymsluhús.
Báðir samningar voru gerðir til 25 ára frá 10. desember 1996 og renna því út árið 2021.

Fasteignirnar á lóðinni hafa ekki verið í hafnsækinni starfsemi í mjög langan tíma.
Fasteignirnar hafa verið í eigu núverandi eigenda mörg undangengin ár og hefur viðhaldi þeirra verið áfátt sem truflað hefur nágranna.

Erindinu er vísað til nýrrar bæjarstjórnar til afgreiðslu.
7. 1610036 - Skógrækt: Þorláksskógar
Eins og öllum má vera ljóst hafa Sveitarfélagið Ölfus, Landgræðslan og Skógræktin tekið höndum saman um verkefnið Þorláksskóga þar sem ætlunin er á næstu tveimur áratugum að rækta skóg á um 4.600 ha. landsvæði á Hafnarsandi ofan og vestan Þorlákshafnar.

Það er mikilvægt að forsvarsmenn sveitarfélagsins séu virkir þátttakendur í verkefninu og veiti því stuðning með skipan fulltrúa í stjórn verkefnisins eða félags sem stofnað verður um það og einnig með beinum fjármagnsgreiðslum.
Því hefur bæjarstjórn Ölfuss ákveðið að veita verkefninu fjárstuðning að fjárhæð þrjár milljónir króna til að verkefnið geti hafist á næsta ári og verður fjárhæðin greidd í upphafi árs 2019.

Samþykkt með sex atkvæðum.
Ólafur Hannesson á móti en lýsti yfir mikilli ánægju með verkefnið og óskaði því velgengni.
En þar sem í fundargögnum vantaði upplýsingar um þetta mál taldi hann það óábyrgt að samþykkja fjárveitingar úr sveitarsjóði án þess að hafa fengið tækifæri til að kynna sér málið fyrir fundinn.
8. 1805039 - Aðalfundur Háskólafélags Suðurlands ehf.
Boðað er til aðalfundar Háskólafélags Suðurlands 12. júní n.k.

Lagt fram til kynningar.
9. 1805040 - Heilbrigðismál: Umsögn vegna breytinga á lögum um verslun með áfengi og tóbak
Lögð fram umsögn IOGT á Íslandi dags. 22. mars s.l. um "frumvarp um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald af áfengi og tóbaki með síðari breytingum".

IOGT á Íslandi leggst eindregið gegn umræddu frumvarpi og telur að samþykkt þess muni leiða til aukinnar áfengisneyslu í landinu.

Til kynningar.
10. 1805036 - Menningarmál: Hátíðarhöld og viðburðir. Aðrir menningarviðburðir. Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands
Lagt fram bréf frá afmælisnefnd um 100 ára afmæli fullveldis Íslands frá í maí 2018 þar sem nefndin fer þess á leit við sveitarfélög landsins að þau taki virkan þátt í afmælisárinu.

Samþykkt samhljóða að vísa erindinu til markaðs- og menningarnefndar til umfjöllunar og útfærslu.
11. 1803009 - Starfsmannamál: Skipulags- og byggingarsvið
Starf skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins hefur verið auglýst með formlegum hætti í samstarfi við Capacent og rennur umsóknarfrestur út 4. júní n.k.

Til kynningar.
12. 1804040 - Starfsmannamál: Starfslok forstöðumanns skólaeldhúss
Lagt fram bréf forstöðumanns skólaeldhúss sveitarfélagsins dags. 13. april þar sem hann segir upp starfi sínu.
Viðkomandi starfsmanni eru þökkuð vel unnin störf og óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Starf forstöðumanns skólaeldhúss var auglýst með formlegum hætti í samstarfi við Capacent og rann umsóknarfrestur út 28. maí s.l.
Sex umsóknir bárust um starfið og er ráðningarferli í gangi.

Til kynningar.

13. 1804041 - Starfsmannamál: Starfslok skólastjóra Grunnskólans í Þorlákshöfn
Lagt fram bréf frá skólastjóra Grunnskólans i Þorlákshöfn dags. 18. april þar sem viðkomandi segir upp starfi sínu.
Viðkomandi starfsmanni eru þökkuð vel unnin störf og óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Starf skólastjóra Grunnskólans í Þorlákshöfn var auglýst með formlegum hætti í samstarfi við Capacent og rann umsóknarfrestur út 21. maí s.l.
Fjórar umsóknir bárust um starfið og er ráðningarferli í gangi.

Til kynningar.
14. 1805035 - Fjármál: Tekjur. Framlög Jöfnunarsjóðs
Lagt fram bréf Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga dags. 18. maí s.l. þar sem kynnt er ný reglugerð um starfsemi Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Til kynningar.
15. 1708022 - Fjármál: Fjárhags- og framkvæmdaáætlun Sveitarfélagsins Ölfuss 2018-2021
Lagður fram viðauki nr. 1 við fjárhags- og framkvæmdaáætlun Sveitarfélagins Ölfuss fyrir árið 2018 sem einnig var til umræðu á síðasta fundi bæjarstjórnar.
Útgjaldaauki í rekstri er 26.5. millj. kr. og hækkun tekna um 22.7 millj. kr. og er nettó lækkun á reksrarniðurstöðu um 3.8 millj.kr. og eru helstu breytingar vegna aukinna tekna úr Jöfnunarsjóði 22,7 millj. kr. uppgjörs lífeyrisskuldbindinga við Brú lífeyrissjóð 8.6 mkr. Vaxtakostnaður langtímalána vegna nýs láns sem tekið var á árinu að upphæð 240 millj. kr. til að gera upp áðurnefndar lífeyrisskuldbindingar 4.5. milljkr., nýrra laga um persónuvernd 3 millj. kr. og aukinna framlaga til bygginga- og skipulagsmála 9.5 millj. kr.
Afborganir langtímalána hækka um 12.1 millj. kr. vegna áðurnefnds láns.
Fjárfestingar eru hækkaðar um 39.5 millj. kr. í A-hluta að stærstum hluta vegna íþróttamannvirkja og endurbóta á lóð leikskólans.
Fjárfestingar í B-hluta er lækkaðar um 10 millj. króna.
Um er að ræða breytingu á framkvæmdaáætlun Hafnarsjóðs Þorlákshafnar.
Handbært fé í ársbyrjun er 41.2 mkr. hærra en gert var ráð fyrir í upprunalegri áætlun vegna aukinna tekna umfram áætlun á árinu 2017.
Farið yfir helstu liði viðaukans.

Viðaukinn siðan samþykktur samhljóða.
Fundargerð
16. 1805001F - Bæjarráð Ölfuss - 299
Fundargerð bæjarráðs frá 17. maí s.l. lögð fram.

Fundargerðin staðfest samhljóða.
17. 1805003F - Skipulags-, bygginga- og umhverfisnefnd - 93
Fundargerð skipulags- bygginga- og umhverfisnefndar frá 17. maí s.l. lögð fram.

Fundargerðin staðfest samhljóða.
18. 1805004F - Fræðslunefnd - 22
Fundargerð fræðslunefndar frá 23. maí s.l. lögð fram.

Fundargerðin staðfest samhljóða.
19. 1805006F - Fræðslunefnd - 23
Fundargerð fræðslunefndar frá 31. maí s.l. lögð fram.

Fundargerðin staðfest samhljóða.
Fundargerðir til kynningar
20. 1603005 - Samstarf sveitarfélaga: Fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga
Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 27. apríl og 18. maí s.l. lagðar fram.

Til kynningar.
21. 1701026 - Brunamál: Fundargerðir stjórnar Brunavarna Árnessýslu.
Fundargerð stjórnar Brunavarna Árnessýslu frá 4. maí s.l. lögð fram.

Til kynningar.
22. 1607014 - Skóla og velferðarmál: Fundargerðir skólaþjónustu og velferðarnefndar Árnesþings.
Fundargerð skólaþjónustu- og velferðarnefndar Árnesþings frá 7. maí s.l. lögð fram.
Þá var einnig lögð fram skýrsla um niðurstöður í Hljóm-2 athugun á hljóð og málvitund leikskólabarna í Árnesþingi 2013-2107.

Til kynningar.
23. 1602011 - Heilbrigðismál: Fundargerðir Heilbrigðisnefndar Suðurlands.
Fundargerð Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 6. maí s.l. lögð fram.

Til kynningar.
24. 1805041 - Menningarmál: Fundargerðir stjórnar Byggðasafns Árnesinga
Fundargerð stjórnar Byggðasafns Árnesinga frá 23. apríl s.l ásamt ársskýrslu safnsins fyrir árin 2017 og 2016 lögð fram.

Til kynningar.
25. 1601020 - Hreinlætismál: Fundargerðir stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands.
Fundargerð stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands frá 24. apríl s.l. lögð fram.

Til kynningar.
Mál til kynningar
26. 1805042 - Hreinlætismál: Viljayfirlýsing um samstarf í hreinlætismálum
Lögð fram viljayfirlýsing um úrgangsmál dags. 26. apríl. 2018 sem Sorpa bs., Sorpeyðingarstöð Suðurnesja sf., Sorpstöð Suðurlands bs., og Sorpurðun Vesturlands hf. hafa undirritað sameiginlega um úrgangsmál.

Til kynningar.
Forseti bæjarstjórnar þakkaði síðan bæjarstjórnarmönnum, bæjarstjóra og öðru starfsfólki sveitarfélagsins fyrir gott samstarf á kjörtímabilinu og sleit siðan þessum síðasta fundi bæjarstjórnar Ölfuss kjörtimabilið 2014-2018.


Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:50 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?