Til bakaPrenta
Bæjarstjórn Ölfuss - 257

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
28.06.2018 og hófst hann kl. 16:30
Fundinn sátu: Gestur Þór Kristjánsson forseti bæjarstjórnar,
Rakel Sveinsdóttir 1. varaforseti,
Steinar Lúðvíksson bæjarfulltrúi,
Grétar Ingi Erlendsson bæjarfulltrúi,
Þrúður Sigurðardóttir bæjarfulltrúi,
Guðmundur Oddgeirsson bæjarfulltrúi,
Vilhjálmur Baldur Guðmundsson 1. varamaður,
Guðni H. Pétursson bæjarritari.
Fundargerð ritaði: Guðni Pétursson, bæjarritari
Í upphafi fundar bauð forseti Baldur Guðmundsson velkominn til síns fyrsta fundar í bæjarstjórn Ölfuss.
Gekk hann síðan til dagskrár.


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1805037 - Samstarf sveitarfélaga: Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Boðað er til landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga dagana 26-28 september n.k. á Akureyri.

Samþykkt samhljóða að fulltrúar sveitarfélagsins á þinginu verði Gestur Þór Kristjánsson og Jón Páll Kristófersson og til vara Rakel Sveinsdóttir og Þrúður Sigurðardóttir.
Þá mun bæjarstjóri sveitarfélagins einnig sækja þingið.
2. 1805042 - Hreinlætismál: Samstarf um urðunarstað á Nessandi.
Lagt fram erindi frá Sorpsstöð Suðurlands dagsett 29. maí síðastliðinn þar sem óskað er eftir því að bæjarstjórn Ölfuss taki afstöðu til þeirrar hugmyndar að Nessandur verði gerður að mögulegum urðunarsstað.
Vísað var til viljayfirlýsingar um aukið samstarf Sorpstöðvar Suðurlands bs, Sorpu bs, Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf og Sorpurðunar Vesturlands hf og hugmyndavinnu síðustu ára um slíkt samstarf.
Forseti bæjarstjórnar hefur þegar óskað eftir frekari kynningu á ofangreindu verkefni og tilkynnt forsvarsmönnum Sorpstöðvar Suðurlands að ekki verði tekin afstaða til verkefnisins fyrr en nýjir bæjarfulltrúar meiri- og minnihlutans telji sig hafa nægilegar upplýsingar um verkefnið þannig að hægt sé að taka til þess afstöðu.


Málinu frestað.

3. 1806018 - Heilbrigðismál: Endurnýjun starfsleyfis Lýsis hf. v/fiskþurrkunar Unubakka 24-26 og pökkunar Óseyrarbraut 22 Þorlákshöfn
Lögð fram eftirfarandi umsögn bæjarstjórnar til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands um endurnýjun starfsleyfisins til 12 mánaða. Í umsögn bæjarstjórnar er lagt til að starfsleyfi verði að hámarki veitt til 28.febrúar nk. Því til rökstuðnings lagði bæjarstjórn fram til Heilbrigðiseftirlitsins afrit af framkvæmdaráætlun Lýsis, þar sem fram kemur að vinnsla félagsins ætti að geta flust í nýtt húsnæði að Sandi 1 innan 6 mánaða, sem þýðir að verksmiðja Lýsis að Unubakka ætti endanlega að loka í janúar/febrúar 2019. Í framkvæmdaráætlun liggja fyrir skýringar á töfum, m.a. vegna veðurs í 45 daga. Þá er sá fyrirvari gerður af hálfu Lýsis að framkvæmdir vegna heita/kalda vatnsins og rafmagns verði kláraðar af hálfu sveitarfélagsins, fyrir 1.júlí nk, en tafir á þeim framkvæmdum hafa tafið framkvæmdir vegna húsnæðis.
Í umsögn bæjarstjórnar er lögð áhersla á að í framlengdu starfsleyfi verði skerpt betur á því ákvæði að loka vegna veðurs og vindáttar, þannig að lyktmengun verði sem minnst á umræddu starfstímabili. Með þessu verði hægt að koma til móts við íbúa og önnur fyrirtæki á svæðinu, sem ítrekað hafa kvartað undan lyktmengun síðastliðin ár.
Í umsögn bendir bæjarstjórn einnig á nýtt skipulag bæjarstjórnar um sérstakt svæði utan þéttbýlis, fyrir lyktmengandi starfssemi. Þar leggur bæjarstjórn áherslu á að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands endurnýi ekki eða gefi út ný starfsleyfi fyrir lyktmengandi starfssemi í þéttbýli, nema fyrirliggi staðfesting frá vinnsluaðila um fyrirhugaðan flutning. Í umsögn er sérstaklega tekið fram að bæjarstjórn hafi úthlutað þessu svæði utan þéttbýlis til þess að áfram verði hægt að byggja upp blómlegt atvinnulíf í sveitarfélaginu, þ.á.m. starfssemi sem þessa. Að atvinnuuppbyggingu þarf þó alltaf að miða við að starfssemin fari fram í almennri sátt við íbúa og samfélag.
Þá voru lögð fram gögn Lýsis til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, dagsett 25.júní 2018, þar sem fram koma áhyggjur af tilgreindu lokunartímabili í júlí og ágúst, samkvæmt auglýstu starfsleyfi. Í gögnum kemur fram að þeirra skilningur hafi verið sá að munnlegt samkomulag hafi verið við fyrrum bæjarstjóra og starfsmann Heilbrigðiseftirlits, að lokunin þyrfti aðeins að vara yfir landsmót UMFÍ í Þorlákshöfn sumarið 2018. Beinir bæjarstjórn því í umsögn sinni að Heilbrigðiseftirlitið afgreiða þetta erindi Lýsis eins fljótt og auðið er.

"Bæjarstjórn Ölfuss gerir hér með eftirfarandi athugasemdir við auglýst starfsleyfi til handa Lýsi hf., sem ætlað er að gilda í 12 mánuði, frá birtingu starfsleyfisins að telja. Umsögn þessari er skilað að veittum viðbótarfresti vegna tímasetningar bæjarstjórnarfundar.
Til áréttingar skal tekið fram að bæjarstjórn Ölfuss gerir ráð fyrir því að tafir á framkvæmdum við nýja hausþurrkunarverksmiðju Lýsis að Sandi 1, séu fyrirtækinu mjög kostnaðarsamar og því má gera ráð fyrir að fyrirtækið flýti framkvæmdum eins og því er frekast kostur. Forseti bæjarstjórnar hefur þegar átt fund með forsvarsmönnum Lýsis og þar lagt áherslu á að öll frekari vinnsla fyrirtækisins miðist við að koma sem mest til móts við þarfir og hagsmuni bæjarbúa og annarra fyrirtækja á svæðinu, enda mikilvægt að ljúka starfsemi félagsins á núverandi stað í sátt við íbúa og samfélag. Þá skal áréttað hér, að forseta bæjarstjórnar barst afrit af erindi Lýsis til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, dagsettu 25.júní sl., þar sem fram koma áhyggjur fyrirtækisins af mögulegri lokun í júlí/ágúst 2018, eins og kveðið er á um í auglýstu starfsleyfi. Gert er ráð fyrir að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands taki það erindi til afgreiðslu eins fljótt og auðið er.
Athugasemdir vegna auglýsts starfsleyfis eru eftirfarandi:
Hjálagt er framkvæmdaráætlun Lýsis sem bæjarstjórn fékk að beiðni forseta bæjarstjórnar.
Áætlunin er dagsett 20.júní síðastliðinn og þar kemur fram að vinnslu hausþurrkunarverksmiðju Lýsis í Unubakka ætti að vera hægt að loka frá og með janúar/febrúar 2019 að því gefnu að búið sé að klára framkvæmdir vegna heita/kalda vatnsins og rafmagns fyrir 1.júlí nk.".

Í ljósi þessara upplýsinga, telur bæjarstjórn Ölfuss að auglýstu starfsleyfi sé markaður of langur tími og mælir því með að gildistími starfsleyfis verði að hámarki til 28.febrúar 2019.

Þá telur bæjarstjórn Ölfuss nauðsynlegt að hafa lið 1.6. í hinu auglýsta starfsleyfi ítarlegri, þ.e. varðandi mengun vegna ólyktar. Þannig mætti t.a.m. kveða sérstaklega á um að starfsleyfishafi skuli forðast vinnslu í þeim vindáttum sem helst bera lyktarmengun með sér yfir þéttbýli Ölfus. Í ljósi fjölda þeirra kvartana sem borist hafa undanfarin ár frá íbúum Þorlákshafnar vegna þeirra lyktarmengunar sem stafað hefur af vinnslunni, telur bæjarstjórn eðlilegt að eftir því að vinnslu sé hagað eftir vindátt hverju sinni eins og auðið er. Eðlilegt sé að sýna bæjarbúum, gestum og fyrirtækjum þá sjálfsögðu tillitssemi að halda vinnslu í algjöru lágmarki þegar vindur stendur beint yfir bæinn með tilheyrandi lyktarmengun. Þessa kröfu sé eðlilegt að gera m.a. með vísan til þess markmiðs laga nr. 7/1998 að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi.
Í tengslum við útgáfu starfsleyfa fyrir lyktmengandi starfssemi almennt, vill bæjarstjórn Ölfuss síðan benda á mikilvægi þess að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands endurnýji ekki eða veiti ný starfsleyfi fyrir sambærilega vinnslu með álíka lyktarmengun í þéttbýli, nema fyrirliggi staðfesting vinnsluaðila á flutningi. Þannig liggur það fyrir að eina ástæða þess að bæjarstjórn samþykkir framlengingu á starfssemi Lýsis í Unubakka, er að fyrirliggur að fyrirtækið mun flytja þessa starfssemi í nýtt húsnæði eins fljótt og kostur er. Með sérúthutuðu svæði fyrir lyktmengandi starfssemi vill bæjarstjórn áfram stuðla að blómlegri atvinnuuppbyggingu innan sveitarfélagsins, en um leið tryggja að slík uppbygging fari aðeins fram í sátt og samlyndi við íbúa og önnur fyrirtæki á svæðinu. Mikilvægt er í þessu sem öðru, að starfsleyfi séu því aðeins veitt í samræmi við þarfir, vilja og hagsmuni íbúa og annarra fyrirtækja á svæðinu".

Samþykkt samhljóða.

Guðmundur Oddgeirsson lagði fram eftirfarandi bókun:

"Ég samþykki ofangreinda bókun en minni á að þvi miður hefur Lýsi hf. sýnt það á síðasta áratug að ekki er hægt að treysta á hvað sagt er eða skrifað undir. Fylgja á því ákvæði starfsleyfisskilyrða 1.5 að engin vinnsla sé í júlí og ágúst"

4. 1806025 - Starfsmannamál: Ráðning skipulags- og byggingafulltrúa.
Lagðar fram umsóknir um starf skipulags- og bygginafulltrúa en um mat þeirra sá ráðningastofan Capacent.
Eftirtaldar umsóknir bárust:

Björn Guðmundsson
Gunnlaugur Jónasson
Sigmar Árnason

Samþykkt samhljóða að ráða Sigmar Árnason í starfið.
5. 1804040 - Starfsmannamál: Ráðning matráðs skólaeldhúsi.
Lagðar fram umsóknir um starf matráðs en um mat þeirra sá ráðningastofan Capacent.
Eftirtaldar umsóknir bárust:

Ásgeir Kristján Guðmundsson
Ásgeir Halldórsson
Elín María Jóhannsdóttir
Sesselja Sólveig Pétursdóttir

Samþykkt samhljóða að ráða Ásgeir Kristján Guðmundsson í starfið.
6. 1806026 - Umhverfis og skipulagsmál: Merkingar og skilti fyrir ferðamenn.
Eftirfarandi tillaga lögð fram:

"Bæjarstjórn vísar því verkefni til markaðs- og menningarnefndar að gert verði stöðumat á merkingum og upplýsingaskiltum fyrir ferðamenn um sveitarfélagið og kortlagt hvort og þá hvernig, gera mætti sveitarfélaginu betur skil með tilliti til allra þeirra áhugaverða staða, fyrirtækja og/eða einstöku náttúruperla sem fyrirfinnast á svæðinu.
Markmiðið er að fyrir liggi áætlun sem styðjast má við til framkvæmda- og fjárhagsáætlanargerðar fyrir sumarið 2019.
Þá óskar bæjarstjórn eftir því að umhverfisstjóri og markaðs- og menningarfulltrúi yfirfari allar fyrirliggjandi merkingar og leiðrétti þær ef þess þarf sérstaklega með tilliti til þess að nú er almennur ferðamannatími framundan og fjölmennt landsmót".

Tillagan samþykkt samhljóða.
7. 1806029 - Atvinnumál. Erindi frá Hafnarnes-Ver ehf.
Lagt fram erindi frá Hafnarnes VER hf þar sem fyrirtækið gerir grein fyrir þeim áformum ríkisvalds að breyta reglugerð um veiðar á sæbjúgum. Breytingarnar fela það meðal annars í sér að fyrirtækið sér ekki fram á að geta staðið lengur að heilsársvinnu við sæbjúgur, enda er ætlun ráðuneytis að tilraunaveiðileyfi þurfi til að veiða sæbjúgu utan hólfa, án þess að kvóti sé aukinn. Í erindi Hafnarnes VER kemur fram að með breytingunum sé líklegt að fleiri aðilar munu koma inn á sama markað og að fyrirséð sé að rekstrargrundvelli þeirra sé verulega ógnað. Þetta þýðir að um 50-60 störf í Þorlákshöfn geta verið í hættu.
Hafnarnes VER óskar eftir stuðningi bæjarstjórnar í málinu í því formi að bæjarstjórn sendi ráðuneytinu umsögn fyrir 29.júní nk. þar sem fyrirhugaðri breytingu á reglugerð um veiðar á sæbjúgum verði mótmælt.
Lagt er til að bæjarstjórn verði við þessum óskum og skili inn umsögn með vísan til þess að í Ölfusi starfi tvö fyrirtæki við veiðar og vinnslu á sæbjúgum þ.e. Hafnarnes VER hf. og Völ ehf.
Ljóst sé að með fyrirhuguðum breytingum á reglugerð séu störf tuga íbúa í hættu.

Eftirfarandi bókun lögð fram:

"Bæjarstjórn Ölfuss gerir athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á reglugerð um veiðar á sæbjúgum og telur að þær geti haft veruleg áhrif á rekstur þeirra fyrirtækja sem starfa við veiðar og vinnslu.
Fyrirtækin hafa unnið mikið frumkvöðlastarf sem hefur stuðlað að aukinni atvinnuuppbyggingu og skapað störf sem að öðrum kosti hefðu ekki orðið til.
Í ljósi þeirrar staðreyndar að tugir starfa hafa tapast í sveitarfélaginu í fiskveiðum og fiskvinnslu á umliðnum árum telur bæjarstjórn eðlilegast að halda sig við núverandi fyrirkomulag um sinn, læra af því og betrumbæta með samvinnu við þau fyrirtæki sem starfa við þessar veiðar og vinnslu."

Samþykkt samhljóða.
8. 1806027 - Fjármál: Aukafjárveiting vegna landsmóts UMFÍ 2018.
Undirbúningsnefnd landsmóts UMFÍ hefur lagt fram fjárhagsáætlun sem sýnir að kostnaðaráætlun landsmótsins mun fara fram úr upphaflegri kostnaðaráætlun.
Þar er gert ráð fyrir að kostnaðarhlutdeild sveitarfélagsins vegna mótsins verði 15 milljónir króna auk styrkja.
Lögð fram gögn um að áætlun miðist nú við að kostnaður verði um 18,9 milljónir króna.

Eftirfarandi bókun lögð fram:

"Bæjarstjórn vísar því til bæjarráðs að skoða hvort og þá hvernig megi komi til móts við ósk landsmótsnefndar um aukið fjármagn þannig að sveitarfélagið standi sem best að mótinu er varðar sitt ábyrgðarhlutverk og kostnaðarhlutdeild.
Í þeim efnum má gera ráð fyrir að kostnaður vegna annarra fyrirhugaðra verkefna á þessu ári þurfi að lækka sem nemur því umframfjármagni sem hér um ræðir.
Bæjarstjórn felur bæjarráði að taka endanlega ákvörðun um kostnaðarhlutdeild og viðbótarfjárframlag.

Samþykkt samhljóða.
9. 1806028 - Skipulagsmál: Endurskoðun á aðalskipulagi Ölfuss 2018-2030.
Drög að verk- og kostnaðaráætlun vegna vinnu við endurskoðun aðalskipulags Sveitarfélagsins Ölfuss 2018-2030 lögð fram.
Drögin voru unnin af Steinsholti nú Eflu.
Drögin gera m.a. ráð fyrir að heildarendurskoðun fari fram á tveggja ára tímabili, 2018-2020.

Bæjarstjórn leggur til að farið verði í vinnu við endurskoðun samkvæmt fyrirliggjandi drögum Steinsolts/Eflu en þar kemur fram áhersla á samráðs- og kynningarferli.
Í tillögum um verklag segir m.a.:

a. Áherslur. Sveitarstjórn skilgreini sínar áherslur við þessa endurskoðun aðalskipulags. Þó að allir þættir landnotkunar séu til skoðunar er eðlilegt að við hverja endurskoðun sé skýrt hvar megináherslur liggja.
b. Sýnileiki. Vinnan verði vel sýnileg í samfélaginu. Ákveðið verði á hverjum tíma hvaða gögn verði aðgengileg á heimasíðu sveitarfélags og skipulagsráðgjafa.
c. Þemafundir. Á fundum stýrihóps aðalskipulags (sem getur t.d. verið skipulagsnefnd og skipulagsfulltrúi) verði tekin fyrir ákveðin þemu hverju sinni, t.d. 1-2 landnotkunarflokkar. Fyrir fundi eru vinnudrög send stýrihópi.
d. Félög og áhugamannasamtök. Virkjaðir verði áhugamannahópar og/eða félög á mismunandi sviðum. Dæmi um slíka hópa eru félög hestamanna, búnaðarsambönd, útivistarfélög o.fl. Þá getur einnig verið áhugavert að virkja nemendur grunnskóla (eins og gert er í tengslum við aðalskipulag Bláskógabyggðar).

Kostnaðaráætlun verkefnis miðast nú við 28 milljónir króna en gert er ráð fyrir að sú áætlun geti breyst. Hluti kostnaðar hefur þegar verið greiddur af sveitarfélaginu.
Lagt er til að bæjarstjórn myndi þverpólitískan vinnuhóp með þremur fulltrúum frá meirihluta og tveimur frá minnihluta.
Tilnefningar fulltrúa færu fram áður en fyrstu fundir vinnuhóps hæfust í ágúst.
Í kjölfarið yrði frekari kostnaðaráætlun unnin og umsókn um 50% mótframlag frá Skipulagsstofnun send inn með haustinu.
Verkefnið yrði síðan fylgt eftir miðað við ofangreinda áhersluliði um sýnileika og þátttöku íbúa og hópa.
Þá er lagt til að ábending Eflu um mögulegan styrk vegna verndunaráætlunar fyrir Selvoginn verði fylgt eftir.
Slíkt verkefni gæti skilað 8-10 milljóna króna styrk frá Menntamálaráðuneytinu miðað við umsókn um styrk næstkomandi haust.
Niðurstaða þeirrar umsóknar ætti að liggja fyrir í ársbyrjun 2019 og myndi verkefni þá aðlagað að þeim styrk sem veittur yrði.


Samþykkt samhljóða.

Fundargerðir til kynningar
10. 1602011 - Heilbrigðismál: Fundargerðir Heilbrigðisnefndar Suðurlands.
Fundargerð Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 31. maí s.l. lögð fram.
Þá var einnig lögð fram ársskýrsla Heilbrigðiseftirlits Suðurlands fyrir árið 2017.

Til kynningar.
11. 1701032 - Fræðslumál: Fundagerðir fagráðs Tónlistarskóla Árnesinga
Lögð fram ný og endurskoðuð kostnaðarskipting sveitarfélaga vegna framlaga til Tónlistarskóla Árnesinga fyrir árið 2018 og er framlag Sveitarfélagsins Ölfuss samkvæmt því kr. 37.862.760.

Til kynningar.
12. 1602012 - Samstarf sveitarfélaga: Fundargerðir stjórnar SASS.
Fundargerð stjórnar SASSS frá 1. júní s.l. lögð fram.

Til kynningar.
13. 1605028 - Samstarf sveitarfélaga: Fundargerðir Héraðsnefndar Árnesinga.
Fundargerð Héraðsnefndar Árnesinga frá 30. apríl. s.l. lögð fram.

Til kynningar.
14. 1603010 - Málefni fatlaðs fólks: Fundargerðir stjórnar Bergrisans.
Fundargerð stjórnar Bergrisans bs. frá 18. júní s.l. lögð fram.
Þá var fundargerð aukaaðalfundar Bergrisans frá 18. júní s.l. einnig lögð fram.

Til kynningar.
15. 1602036 - Æskulýðsmál: Fundargerðir framkvæmdanefndar Unglingalandsmóts 2018
Fundargerðir framkvæmdanefndar Unglingalandsmóts UMFÍ 2018 frá 6. júní og 21. júní s.l. lagðar fram.

Til kynningar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:15 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?