Fundargerðir

Til bakaPrenta
Fræðslunefnd - 25

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
24.10.2018 og hófst hann kl. 15:00
Fundinn sátu: Sigríður Vilhjálmsdóttir formaður,
Guðbergur Kristjánsson varaformaður,
Erla Sif Markúsdóttir 2. varamaður,
Hjörtur S. Ragnarsson aðalmaður,
Hólmfríður F. Zoega Smáradóttir áheyrnarfulltrúi,
Ingibjörg Aðalsteinsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Hildur María H. Jónsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Dagný Erlendsdóttir leikskólastjóri, Ólína Þorleifsdóttir skólastjóri.
Fundargerð ritaði: Sigríður Vilhjálmsdóttir, formaður fræðslunefndar
Harpa Þ.Böðvarsdóttir aðalmaður boðaði forföll og tók varamaður ekki sæti í hennar stað.
Jafnframt boðaði fulltrúi foreldrafélags leikskólans Vigdís Lea Kjartansdóttir forföll.


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1602030 - Leikskólinn Bergheimar: Skýrsla skólastjóra.
Dagný Erlendsdóttir leikskólastjóri greindi frá starfi leikskólans frá síðasta fundi.
Fyrsti tíminn í íþróttahúsinu var fimmtudaginn 13. sept. Í íþróttahúsinu eru stöðvar á hverri stöð er mismunandi færni þjálfuð. Börnin á Ásheimum og hluti barna á Dvergaheimum munu vera í íþróttum í sal leikskólans.

16. september var Dagur náttúrunnar og var hann tileinkaður útiveru eins og undanfarin ár.

Í vor var ýmislegt sett í matjurtagarðinn og má þar nefna kartöflur, rófur og gulrætur ásamt kryddjurtum og rabarbara. Það grænmeti sem kom upp var notað í hádegismatinn í vikunni sem tekið var upp og í eftirrétt eitt hádegið var boðið upp á rabarbaragraut. Gaman að geta notað þetta fyrir börnin í leikskólanum og grænmetið var að sjálfsöguð sérstaklega gott því þetta var þeirra eigið.

Föstudaginn 5. október var haustþing leikskóla á suðurlandi og fór allt starfsfólk á Bergheimum þangað. Haustþing er þannig byggt upp að það kemur starfsfólk af öllum leikskólum á suðurlandi frá Kirkjubæjarklaustri að Þorlákshöfn og fer á ýmis námskeið eða fyrirlestra á þessum degi. Boðið var uppá marga góða fyrirlestra og þegar vinnutíma lauk fór starfsfólkið saman í óvissuferð sem er gott fyrir starfsmannahóp sem þennan að gera annað slagið.

Við tökum þátt í Bleikum október og þetta árið var hann 12. október hvöttum við starfsfólk, börn og foreldra til þess að að sýna samstöðu og klæðast bleiku og hafa bleikt í fyrirrúmi.

Endurbótum á elsta hluta leikskólans átti að ljúka í byrjun sumar en við erum enn að fást við það að allt sé klárað. Í byrjun október kom í ljós að loftræstikerfið var ekki alveg fullklárað. Lóðarvinna átti á klárast í ágúst en enn er verið að bíða eftir hluta af leiktækjum og að kláruð verði vinna við lóðina. Aðalframkvæmdin í lóðinni var að girða af hluta lóðarinnar og gera sér leiksvæði fyrir yngstu börnin. Innan girðingar eru leiktæki við þeirra hæfi og öryggi þeirra betur tryggt með því að hafa þau á þessu svæði fyrst um sinn. Lautin var líka löguð í sumar þ.e. komið í veg fyrir vatnssöfnun þar en það hefur verið vandamál síðustu ár. Tvær körfuboltakörfur voru settar upp, rólum fjölgað og fótboltamörk verða sett í lautina.
Eftir þessar framkvæmdir er lóðin orðin mjög fín og bíður upp á fjölbreytta leiki og gefur börnunum tækifæri til að efla hreyfiþroska sinn.

Því miður hafa skemmdarverk verið tíð í sumar á leiktækjunum og gróðri hjá okkur. Skemmdir voru unnar á vinnuvélum frá verktökum sem voru að vinna við lóðina í ágúst og var það töluvert tjón. Í október var fólk á göngu að kvöldlagi og þurfti að fara inn á lóðin og slökkva eld sem búið var að kveikja á lóðinni. Það var greinilega ásetningur að kveikja eld því búið var að setja pappír og eldfimt efni á milli steina og kveikt síðan í. Huga þarf að því að setja upp eftirlitsmyndavélar svo hægt sé að fylgjast betur með lóðinni utan opnunartíma.

Umhverfisnefnd þetta skólaárið skipa: Hallfríður, Margrét Björg, Rannveig, Hrafnhildur Hlín og Svava auk þeirra er fulltrúi frá foreldrum og nemendum. Næsta markmið Grænfánans er Átthagar og stefnt er að því að sækja um þann fána á þessu skólaári.

Aðalfundur foreldrafélagsins var haldin 18. september og var mæting prýðileg. Kosnir voru tveir nýir fulltrúar í stjórn þær Hanna Guðrún Gestsdóttir og Vigdís Lea Kjartansdóttir en þrír úr eldri stjórninni halda áfram. Stjórnina skipa: Helga Jóna Gylfadóttir, Arndís Lára Sigtryggsdóttir, Ingólfur Arnarson, Hanna Guðrún Gestsdóttir og Vigdís Lea Kjartansdóttir þau skipta með sér verkum á fyrsta fundi stjórnar. Þær Sigríður Vilhjálmsdóttir og Erla Sif Markúsdóttir viku úr stjórn eftir tveggja ára setu og þökkum við þeim kærlega fyrir þeirra störf.

Í september kom Sigurður Garðarsson fyrir hönd Lions á Íslandi færandi henni með gjafa-pakka með læsis¬hvetj¬andi náms¬efni sem allir leikskólar fá. Það er Mennta¬mála¬stofn¬un í sam¬starfi við Li¬ons hreyf¬ing¬una sem gef¬ur pakk¬ana. Þessi gjöf er einn liður í Þjóðarsátt-mála um læsi og styður við und¬ir¬stöðuþætti læsis.

Kristín Björg Aradóttir nemi í leikskólakennarafræðum við Háskólann á Akureyri kom til okkar í lok september, hún var hjá okkur í tvo daga og fór á allar deildir og fylgdist með starfinu. Hún hrósaði leikskólanum og hafði sérstaklega orð á því að við værum að framkvæma það sem kæmi fram í skólanámskrá og í skipulagi.
Eins og framkom í septemberskýrslunni voru veikindaleyfi framundan og fór það svo og þau urðu flest á sama tíma þannig að starfsmannahald hefur verið með þyngra móti í lok september og í október en allt hefst þetta með góðri samvinnu.

Fræðslunefnd þakkar leikskólastjóra upplýsingarnar og vísar athugasemdum varðandi skemmdarverk á lóð bæði leikskóla og skóla, og þörf á eftirlitsmyndavélum til umfjöllunar bæjarráðs vegna fjárhagsáætlunar næsta árs.
2. 1703013 - Leikskólinn Bergheimar: Fyrirkomulag sumarleyfa.
Með hliðsjón af fundargerð fræðslunefndar frá 23. maí 2018, 8. tl. dagskrár og fundargerð bæjarstjórnar, 22. mars 2018, 7. tl. leggur formaður til að fræðslunefnd skipi starfshóp til að kanna afstöðu og óskir foreldra varðandi fyrirkomulag sumarleyfa.
Lagt er til að starfshópnum verði falið að móta spurningar til að leggja fyrir foreldra í skólapúlsi sem lagður verður fyrir foreldra á vormánuðum. Markmiðið væri að kanna afstöðu og óskir foreldra til sumarleyfa á leikskólanum.
Starfshópurinn hafi Skólastefnu Ölfuss, lög um leikskóla og aðalnámskrá leikskóla til hliðsjónar og óski eftir aðkomu Skóla-og velferðarþjónustunnar reynist þörf á slíku.
Foreldrafélag leikskólans leggur til að Ingólfur Arnarson taki sæti í starfshópnum fyrir hönd foreldra. Leikskólastjóri leggur til að hún taki sæti fyrir hönd leikskólans. Sigríður Vilhjálmsdóttir tekur sæti í hópnum fyrir hönd sveitarfélagsins.

Fræðslunefnd samþykkir skipan starfshópsins einhljóða.

3. 1602028 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn: Skýrsla skólastjóra.
Ólína Þorleifsdóttir skólastjóri greindi frá starfi grunnskólans frá síðasta fundi fræðslunefndar.

Nú eru komin í gagnið tvö tölvuver í skólanum auk tveggja vinnustöðva með 4-6 tölvum á göngum skólans. Skólinn hlaut í byrjun árs styrk frá sjóðnum Forritarar framtíðarinnar. Í styrknum fólst að skólanum voru gefnar 21 tölva. Tölvurnar voru allar endurnýttar úr t.d. bönkum en afar öflugar og góðar. Auk þess hefur hópur kennarar farið á námskeið í forritunarkennslu og fyrirhugað er að hefja forritunarkennslu í öllum árgöngum.

Endurfyrirlögn samræmdra prófa í 10. bekk var 11. og 12. sept. Endurfyrirlögnin var vegna tæknilegra mistaka sem urðu við fyrirlögn í vor í 9. bekk. Nemendum bauðst að endurtaka próf í íslensku og ensku. Þrír nemendur endurtóku íslensku og sjö ensku. Fyrirlögnin tókst vel.

Signý talmeinafræðingur kom og hélt fræðsluerindi fyrir kennara um málþroska og málþroskaraskanir.

Nemendur á yngsta- og miðstigi fóru í haustferðir. Farið var á Hvolsvöll á Lava Center, á Úlfljótsvatn og í Ljósafossvirkjun á sýningu um rafmagn. Ferðirnar tókust vel og voru hin besta skemmtun í bland við fræðslu.

Frá því í haust hafa kennarar unnið að endurskoðun þau hæfniviðmiða sem legið hafa til grundvallar nýju námsmati. Þeirri vinnu er nú lokið og tilbúin endurskoðuð hæfnikort í öllum námsgreinum og öllum árgöngum. Foreldrum verður kynnt námsmatið á næstu dögum og einnig á foreldraviðtalsdegi í byrjun nóbember.

Starfshópur um lykilhæfni hefur verið að störfum og er búinn að skila inn til stjórnenda fyrstu drögum að fyrirkomulagi mats á lykilhæfni sem framkvæmd verður í febrúar.

Fyrsta sameiginlega söngstund vetrarins var 25. september og hún heppnaðist afar vel en allir nemendur skólans komu saman og sungu nokkur vel valin lög.

Mánudaginn 1. október var nemendum í 1. bekk og elsta árgangi leikskólans boðið á leiksýningu Þjóðleikhússins sem haldin var hér í Versölum. Nemendum úr Hveragerði var einnig boðið. Eftir sýningu var öllum boðið í pylsupartý.

Samræmd próf voru haldin í 4. og 7. bekk eftir miðjan september. Prófað var í íslensku og ensku og fyrirlögnin tókst vel.

Haustþing kennara var föstudaginn 5. október á Flúðum. Aðrir starfsmenn tóku þátt í námskeiði sem Skólaþjónusta Árnesþings hélt hér hjá okkur. Starfsmenn annarra skóla á svæði Skólaþjónustunnar komu einnig á námskeiðið sem fjallaði um vinnuumhverfið í grunnskólum og nemendur með sérþarfir í skólum. Samtals voru um 50 manns á námskeiðinu.

Jónína Magnúsdóttir nýr aðstoðarskólastjóri hóf störf 2. okt. Stjórnendur nýttu starfsdaginn 5. okt. til að stilla saman strengi, fara yfir starfslýsingar og verkefnin framundan. Samstarfið fer afar vel af stað.

Stjórnendur vinna nú að gerð forvarnaráætlun fyrir skólann en sú vinna er komin í gang undir forystu aðstoðarskólastjóra.

Kiwanismenn komu til fundar við skólastjórnendur í byrjun október. Þeir vildu koma af stað samstarfsverkefni til heilla fyrir nemendur. Ætlunin er að gera eitthvað forvarnartengt og uppbyggjandi á hverju skólaári með nemendum í unglingadeild og láta ágóða af verkefninu Jólaskókassinn renna í þetta nemendaverkefni. Lagt verður upp með að fara í leikhúsferð eða menningarferð annaðhvort ár og í Þórsmörk í ævintýra/útivistarferð hitt árið. Kiwanismenn koma til með að greiða alfarið fyrir verkefnið og taka þátt í skipulagningu og koma með í ferðirnar. Fyrsti hluti verkefnisins fór af stað 23. okt. þegar nemendum í 9. og 10. bekk var boðið í bíó að sjá myndina Lof mér að falla. Í kjölfarið komu framleiðendur myndarinnar og ræddu við nemendur. Eftir myndina er fyrirhugað að vinna áfram að verkefnum í skólanum sem tengjast forvörnum gegn fíkniefnum.

Þriðjudaginn 23. okt. hélt persónuverndarfulltrúi sveitarfélagsins kynningarfund fyrir starfsfólk skólans. Á fundinum er fyrirhugað að fara yfir hvernig ný persónuverndarlög sem samþykkt voru í sumar hafa áhrif á starf skólans.

Læsisstefna Leikskólans Bergheima og Grunnskólans í Þorlákshöfn er nú tilbúin. Stefnan verður sett á heimasíðu skólanna í þessari viku. Kynningarfundur fyrir foreldra er fyrirhugaður auk kynningar fyrir fræðslunefnd. Lestrarnám og málörvun barna er eitt viðamesta samvinnuverkefni heimilis og skóla. Læsisstefnan er metnaðarfull en leitast er við að samfella sé í læsisnámi barna frá 1-16 ára.

Þá liggur fyrir að ytra mat verður framkvæmt 26.-28. nóvember næstkomandi.

Fræðslunefnd þakkar skólastjóra upplýsingarnar.

4. 1701015 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn. Starfsáætlun.
Starfsáætlun Grunnskólans í Þorlákshöfn fyrir skólaárið 2018-2019 lögð fram til kynningar.
Skólastjóri kynnti helstu nýmæli, s.s. rýmingaráætlun skólans og símenntunaráætlun.

Fræðslunefnd þakkar kynninguna.
5. 1811018 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn. Sjálfsmatsskýrsla.
Ólína Þorleifsdóttir skólastjóri fór yfir sjálfsmatsskýrslu Grunnskólans 2017-2018.
Sjálfsmatsskýslan er unnin í samræmi við lög um grunnskóla nr. 91/2008. Sjálfsmatið er ferli sem snýst um að afla upplýsinga um starfsemi skólans og leggja mat á upplýsingarnar. Í framhaldinu er mikilvægt að skoða áframhaldandi skólastarf og hvort einhverjar breytingar þurfi og hvað hægt sé að gera til að festa jákvæða þætti enn betur í sessi. Í þessu skyni hefur verið unnin umbótaáætlun í nokkrum liðum.

Fræðslunefnd þakkar kynninguna.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 15:45 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?