Fundargerðir

Til bakaPrenta
Fræðslunefnd - 27

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
17.01.2019 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Sigríður Vilhjálmsdóttir formaður,
Guðbergur Kristjánsson varaformaður,
Halldóra Björk Guðmundsdóttir aðalmaður,
Harpa Þuríður Böðvarsdóttir aðalmaður,
Hjörtur S. Ragnarsson aðalmaður,
Hólmfríður F. Zoega Smáradóttir áheyrnarfulltrúi,
Dagný Erlendsdóttir leikskólastjóri, Ólína Þorleifsdóttir skólastjóri.
Fundargerð ritaði: Sigríður Vilhjálmsdóttir, formaður fræðslunefndar


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1602028 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn: Skýrsla skólastjóra.
Í desember var mikið um að vera í skólanum að venju. Sú nýbreytni var nú á unglingastigi að í stað hefðbundinnar jólakvöldvöku var jólasamvera með foreldrum. Þá mættu foreldrar með börnum sínum og tóku þátt í hópefli, leikjum og þrautum. Eftir það var hátíðarkvöldverður nemenda og ball. Þetta heppnaðist vel og er komið til að vera. Aðrir bekkir héldu sínar hefðbundnu jólakvöldvökur og tókust þær einnig vel.
Nemendur dönsuðu í kringum jólatré við undirleik jólasveinahljómsveitar um miðjan desember. Þetta jólaball á skólatíma er orðið árlegur viðburður og er hátíðlegt og skemmtilegt.
Annað árið í röð gerðu allir bekkir rafrænar jólakveðjur sem voru sýndar á kertadag. Þetta var skemmtilegt verkefni og sköpunargleðin og húmorinn skein í gegn.
Dans er hluti af námsgreinum í skólanum í 1. -7. bekk. Á aðventunni kenndi danskennari öllum jóladans. Við komum síðan saman á sal skólans og allir dönsuðu saman. Einnig sýndi dansval á unglingastigi öðrum nemendum dans við þetta tækifæri.
Jólaleyfi nemenda var frá 20. desember 2018 ? 2. janúar 2019.
Skólastarfið fer vel af stað á nýju ári. Framundan er mat á lykilhæfni sem skilgreind er í aðalnámskrá. Kennarar og nemendur sjálfir meta lykilhæfni eins og samvinnu, ábyrgð á námi, þrautseigju og skapandi hugsun. Matið verður afhent og rætt í foreldraviðtölum í lok janúar.
Í síðustu viku kom til okkar kennsluráðgjafinn Bergþóra Þórhallsdóttir deildarstjóri í Kópavogsskóla. Hún var með góða kynningu á notkun Osmo og Seesaw appanna í kennslu. Fræðslan var einkum fyrir kennara á yngra- og miðstigi. Fræðslufundurinn var afar góður og mikill áhugi hjá kennurum að þróa kennsluna í þá átt að nýta gagnvirka miðla til að gera nám nemenda áhugaverðara og markvissara. Bergþóra mun koma aftur til okkar í vor en hennar innlegg er hluti af þeirri vegferð að auka fjölbreytni kennsluhátta og nýta tæknina enn betur í kennslunni. Einnig styður þetta við verkefnið um forritunarkennslu en skólinn fékk styrk úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar til á síðasta ári.
Skólastjóri og bæjarstjóri hafa nú fengið drög að skýrslu vegna ytra mats Menntamálastofnunar á starfi Grunnskólans í Þorlákshöfn. Gefin var vika til yfirlestrar og athugasemda. Í kjölfar niðurstaðna og umræðna um þær verður unnin umbótaáætlun. Gert er ráð fyrir að þremur mánuðum eftir úttekt verði skýrslan gerð opinber.
Nefndin þakkar upplýsingarnar.
2. 1602030 - Leikskólinn Bergheimar: Skýrsla skólastjóra.
Við fengum heimsókn frá Kvenfélagi Þorlákshafnar en færðu gestirnir leikskólanum veglega peningagjöf í tilefni af opnun eftir endurbætur á elsta hluta leikskólans. Var gjöfinni varið til kaupa á leikföng fyrir yngstu börnin og námskefni í Vináttu sem er nýkomið út fyrir yngstu börnin. En tveir kennarar fara á námskeið í byrjun febrúar og fá þá þetta nýja námsefni.
Uppskeruhátíð milli 1. bekkjar og elstu barnanna í Bergheimum var um miðjan desember var það skemmtileg stund en 1. bekkur, bauð til sín og las Ólína sögu, boðið var upp á veitingar svo máttu börnin leika sér.
Um miðjan desember var jólaball haldið í Ráðhúsinu, það tókst mjög vel en það var með öðru sniði en venjulega en það var kl. 15-16 í stað kl. 10-11 og var mæting góð. Starfsfólk og þeir foreldrar sem ég hef heyrt í voru ánægðir með þetta nýja fyrirkomulag. Hljómsveitin stóð sig vel eins og alltaf undir stjórn Gests. Tveir jólasveinar komu í heimsókn og færðu börnunum jólagjöf og dönsuðu með okkur í kringum jólatréð. Jólagjöfin er gjöf frá foreldrafélaginu og var bók að þessu sinni.
Einn morgun rétt fyrir jólin gerði Ásgeir kokkur heitt súkkulaði sem við drukkum úti og fengum piparkökur með. Þetta var mjög hugguleg stund í sólarupprásinni að sitja úti í kuldanum og hlýja sér á heitu súkkulaði. Gerðum við þetta í fyrsta skiptið í fyrra og var þetta það vel heppnað að ákveðið var að gera þetta aftur í ár og verður örugglega að föstum lið hér eftir.
Rétt fyrir jólin fórum við í kirkjuna og hittum Sr. Baldur og Guðmund djákna sem tóku vel á móti okkur. Við hittum líka refinn Rebba sem býr í kirkjunni. Börnin sungu nokkur jólalög og stóðu sig mjög vel.
Í byrjun janúar var fjólublár litadagur þá komu allir í einhverju fjólubláu.

Í janúar er búið að vera aðeins um tilfærslur á milli deilda, barn að færast á elstu deild og önnur á mið deild og ný börn á yngri deildir og á mið deildina. Ef öll börn skila sér sem eru væntanleg verða 93 börn hjá okkur 1. febrúar. Aðeins er um að börn séu að flytja hingað núna sl. mánuði.

Allt starfsfólk ásamt starfandi dagmæðrum í Þorlákshöfn var á 4 stunda skyndihjálparnámskeiði í byrjun janúar.

Starfsmannahald
Einn starfsmaður kom til baka út fæðingarorlofi í desember og hafa þá allir skilað sér sem voru í leyfum sl. ár. Vegna sérstuðnings var einn starfsmaður ráðin tímabundið frá 15. jan - 15. maí. Einnig hefur einn starfsmaður í eldhúsið sagt upp og er auglýsing í gangi og verður ráðið í þá stöðu kringum 25. janúar.

Nefndin þakkar upplýsingarnar.
3. 1711035 - Leikskólinn Bergheimar: Verklagsreglur
Leikskólastjóri fór yfir fyrirliggjandi verklagsreglur og breytingar sem gerðar hafa verið á þeim, m.a. varðandi gjaldskrárbreytingar frá 1. janúar, og varðandi inntöku barna m.t.t. aldurs í stað umsóknardags.

Nefndin samþykkir verklagsreglurnar samhljóða.
Jafnframt beinir nefndin því sérstaklega til bæjarráðs að taka til umfjöllunar, sem fyrst eða eigi síðar við næstu uppfærslu gjaldskrár, að uppfæra gjaldskránna í samræmi við tillögur til breytinga á verklagsreglum varðandi námsmenn.
4. 1901023 - Leikskólinn Bergheimar. Jafnréttisáætlun
Leikskólastjóri kynnti jafnréttisáætlun leikskólans sem miðar m.a. að því að tryggja jafnrétti meðal starfsmanna leikskólans. Þá er áréttað í áætluninni að kynferðisleg áreitni og kynbundin mismunin verði ekki liðin á vinnustaðnum.

Nefndin þakkar kynninguna og tekur undir mikilvægi þess að hugað sé vel að jafnréttismálum í víðum skilningi í öllu skólastarfi. Þá telur nefndin mikilvægt að hvetja á allan hátt til þess að karlmenn komi í auknum mæli að skólastarfi á öllum stigum, m.a. með kynningu og framsetningu auglýsinga.

Hjörtur yfirgaf fundinn undir þessum dagskrárlið
5. 1901024 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn. Gerð fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins
Formaður óskaði eftir því við skólastjórnendur að þeir gerðu stuttlega grein fyrir ferli við gerð fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins. Fóru skólastjórnendur yfir ferlið eins og það snýr að þeirra stofnunum.

Nefndin þakkar upplýsingarnar og leggur til við bæjarstjórn og bæjarráð að við gerð næstu fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins verði leitað leiða til að auka samráð við fagnefndir, s.s. með aukinni upplýsingagjöf. Jafnframt leggur nefndin til að næsta haust fjalli fræðslunefnd sérstaklega um fjárhagsáætlanagerð með skólastjórnendum, þá sérstaklega þá liði eða verkefni sem snúa að faglegu starfi.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:00 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?