Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarráð Ölfuss - 313

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
18.07.2019 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Grétar Ingi Erlendsson formaður,
Þrúður Sigurðardóttir aðalmaður,
Rakel Sveinsdóttir 2. varamaður,
Elliði Vignisson bæjarstjóri, Sandra Dís Hafþórsdóttir .
Fundargerð ritaði: Sandra Dís Hafþórsdóttir, Sviðsstjóri
Í upphafi fundar óskaði formaður eftir heimild fundarins til þess að taka á dagskrá með afbrigðum mál nr. 1907021 ,,Ályktun um starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum"

Samþykkt samhljóða


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1906023 - Vatnsveita Grásteinn
Fyrir bæjarráði lá erindi frá vatnsveitu Grásteins í dreifbýli Ölfuss. Þar kemur fram að vatnsveitan anni ekki þjónustu við íbúa og þess óskað að sveitarfélagið hafi aðkomu að úrbótum.

Bæjarráð lýsir yfir vilja til að hafa aðkomu að úrbótum á vatnsveitu í dreifbýli Ölfuss. Í því samhengi er afar mikilvægt að unnið sé eftir samræmdum og fyrirfram skilgreindum verkferlum og þess gætt að jafnræði gildi í rekstri vatnsveita.

Bæjarráð samþykkir því að fela bæjarstjóra að láta útbúa verklagsreglur um aðkomu sveitarfélagsins að einkareknum vatnsveitum þar sem m.a. verði tryggt að stofngjöld mæti kostnaði sveitarfélagsins af tengingu og afnotagjöld standi undir rekstrarkostnaði.
2. 1906024 - Fjarlægð íbúðarhúsa frá alifuglabúum
Fyrir bæjarráði lá erindi frá íbúum að Bjarnastöðum þar sem óskað var eftir því að sveitarfélagið greiði lögfræðikostnað sem til féll við málarekstur þeirra vegna hagsmunagæslu er varðar fjarlægðamörk alifuglahúss frá íbúðarhúsnæði að Bjarnastöðum.

Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu þar sem kostnaður við málarekstur einstakra aðila er að öllu jöfnu greiddur af þeim sjálfum.
3. 1907003 - Kaup á teikningaskanna
Fyrir bæjarráði lá erindi frá sviðsstjóra Umhverfis- og framkvæmdasviðs þar sem óskað var eftir heimild til að kaupa teikningaskanna að verðmæti 600.000 kr. Með kaupunum verður sviðinu mögulegt að annast sjálft stafræna vinnslu á teikningum sem hingað til hefur verið aðkeypt. Tækið mun borga sig upp á innan við ári.

Bæjarráð samþykkir erindið og felur bæjarstjóra að láta vinna viðauka við fjárhagsáætlun vegna þessa kostnaðar.
4. 1906026 - Breyting á sveitarfélagamörkum
Fyrir bæjarráði lá erindi frá íbúum við Brúarhvammsveg í Ölfusi þar sem óskað er eftir því að sveitarfélagamörkum sveitarfélagsins Ölfuss verði breytt þannig að hús þeirra, lóðir og annað sem þeim fylgir tiheyri framvegis sveitarfélaginu Hveragerði. Tilgreint er að beiðni þessi sé tilkomin af þeirri ástæðu að bréfritarar og fjölskyldur þeirra sæki í dag nær- og grunnþjónustu í Hveragerði. Til að mynda sæki börn þeirra leik- og grunnskóla í Hveragerði.

Bæjarráði Ölfuss er það ánægja að tilkynna bréfriturum að gott samstarf hefur ætíð verið milli sveitarfélagana Ölfuss og Hveragerðis þegar kemur að þjónustu við íbúa í Ölfusi sem velja að sækja þjónustu í Hveragerði vegna nábýlis. Sú nærþjónusta í Hveragerði sem nefnd er í bréfinu svo sem rekstur grunnskóla, leikskóla, félagsþjónusta o.fl. er veitt af sveitarfélögunum í sameiningu. Ekki einungis tekur sveitarfélagið Ölfus fullan þátt í rekstri þessara eininga heldur á það einnig beina eignaraðild að fasteignum o.fl. Það er því sveitarfélagið Ölfus, í samstarfi við sveitarfélagið Hveragerðisbæ, sem veitir þá góðu þjónustu sem um er rætt í erindinu.

Bæjarráð hafnar því erindinu.
5. 1907010 - Ályktun um heimavist við FSu Selfossi
Fyrir bæjarráði lá drög að ályktun um heimavist við Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem þess er krafist að starfrækt verði heimavist við skólann.

Bæjarráð tekur undir ályktunina. Ennfremur vill bæjarráð vekja athygli á mikilvægi þess að almenningssamgöngur verði bættar milli Þorlákshafnar og Selfoss með það fyrir augum að fjölga ferðum og auka þar með aðgengi nemenda í Þorlákshöfn að skólanum.
6. 1903046 - Viðræður um breytt sveitarfélagamörk
Fyrir bæjarráði lá erindi frá Hveragerðisbæ þar sem enn á ný var óskað eftir viðræðum um breytt sveitarfélagamörk.

Í fullri vinsemd vísar bæjarráð til fyrri afgreiðslu á samhljóða erindum.
7. 1810058 - Tilkynning um niðurfellingu af vegaskrá
Fyrir bæjarráði lá tilkynning Vegagerðarinnar um niðurfellingu héraðsvegar 3935-01 að bænum Krossi af vegaskrá. Sú skýring er gefin að ekki sé lengur fyrir hendi föst búseta að bænum.

Bæjarráð gerir alvarlegaar athugasemdir við þessa ákvörðun Vegagerðarinnar og hvetur til þess að hún verði dregin til baka.
Búseta á jörðum hefur verið í þróun á síðastliðnum árum. Sveitarfélagið hefur fundið fyrir vaxandi áhuga ungs fólks að taka upp búsetu í dreifbýlinu og stunda þar blöndu af búskap og annarri atvinnu. Í slíkri gerjun gerist það oft tímabundið að ekki verði um fasta búsetu að ræða á jörðum. Ákvarðanir Vegagerðarinnar og annarra ríkisstofnana mega ekki verða til þess að slíkt tímabundið ástand sé nýtt til að skerða möguleika fólks til að setjast þar að.

Bæjarráð vísar enn fremur til þess að íbúðarhúsið að Krossi er mjög nýlegt. Íbúar þar féllu nýverið frá og húsið því tímabundið ekki í notkun. Það verður að teljast í hæsta máta óeðlilegt að Vegagerðin grípi til þess að fella héraðsveg að bænum niður í því millibilsástandi sem myndast hefur þar til íbúar flytja að nýju inn í hið nýja glæsilega húsnæði að Krossi.

Samþykkt samhljóða.
8. 1602017 - Fjármál Fjárhagsupplýsingar Sveitarfélagið Ölfus 2019
Fyrir bæjarráði lá afrit af rekstraryfirliti frá 01.01.2019 til 31.05. 2019.
Samanburður við sama tímabil 2018 sýnir að skatttekjur hækka á milli ára um 8% eða rétt rúmlega 60 milljónir.
Gjöld vegna félagsþjónustu hækka á milli ára um 12% og fara úr 106 milljónum í 118 milljónir, fræðslu- og uppeldismál hækka um 3% og fara úr 380 milljónum í 393 milljónir og æskulýðs- og íþróttamál hækka um 12% og fara úr 90 milljónum í 101 milljón.

Fyrir bæjarráði lá einnig afrit af fjárhags- og framkvæmdaáætlun Sveitarfélagsins Ölfuss og yfirlit yfir fjárfestingar það sem af er árs. Þar kemur fram að fjárfestingar vegna verklegra framkvæmda það sem af er ári nema tæplega 23 milljónum en áætlað er að framkvæma fyrir 314 milljónir á árinu.
9. 1902035 - Fjárhags- og framkvæmdaáætlun Ölfuss 2019-2022. Viðauki
Fyrir bæjarráði lá erindi frá skrifstofu sveitarfélaga og byggðamála þar sem minnt var á bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.

Í bréfi nefndarinnar kemur fram að óskað sé eftir yfirliti um stöðu einstakra verkefna í árslok 2019 (hlutfallsleg staða gagnvart verkáætlun), samanlögðum útlögðum kostnaði, gildandi fjárheimildum og breytingum á þeim á árinu og mat á stöðu verkefna, bæði loknum og áætluðum óloknum, gagnvart gildandi fjárheimildum. Jafnframt segir að í þessu samhengi verði horft til verkefna sem unnið er að á árinu 2019 hvort sem þau eiga upphaf á árinu 2019 eða fyrr. Óskað verður eftir að framangreint yfirlit sýni framangreinda þætti fyrir hvern ársfjórðung ársins og verður það nánar tilgreint undir lok ársins.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að láta svara erindinu.
10. 1907015 - Merking sveitarfélagamarka
Fyrir bæjarráði lá erindi frá Markaðs- og menningarnefnd þar nefndin vísaði fjármögnun vegna merkingar sveitarfélagamarka til bæjarráðs. Í erindinu kemur fram að áætlaður kostnaður vegna merkingarinnar sé um 7,7 milljónir við hverja merkingu. Gert er ráð fyrir verkefninu í fjárhagsáætlun ársins 2019. Fyrirhugað er að byrja að merkja aðkomuna við þjóðveg 1 að vestanverðu og í framhaldi af því að merkja á sama hátt aðkomuna að austanverðu.

Bæjarráð samþykkir erindið.
11. 1907009 - Staðan í kjaramálum Eflingar stéttarfélags
Fyrir bæjarráði lá erindi frá Eflingu þar sem óskað var eftir því að Sveitarfélagið Ölfus myndi greiða starfsfólki sínu sem aðild á að Eflingu innágreiðslu vegna yfirstandandi samninga upp á kr.105.000. Fram kom að formaður samninganefndar sveitarfélaga hafi þegar neitað slíku þar sem búið væri að vísa deilunni til sáttasemjara.

Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu enda fer samninganefnd sveitarfélaga alfarið með samningsumboð fyrir hönd sveitarfélagsins.
12. 1907011 - Fjárhags- og framkvæmdaáætlun Ölfuss 2020-2023
Fyrir bæjarráði lá minnisblað frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna forsenda vinnslu fjárheimilda ársins 2020 og fjárhagsáætlana til þriggja ára.

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og vísar þeim til gerðar fjárhagsáætlunar.
13. 1711005 - Umsókn um styrk vegna Strandarkirkju
Umsókn frá Strandarkirkju um styrk kr.3.000.000.

Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu þar sem það rúmast ekki innan fjárhagsáætlunar.
14. 1804042 - Framkvæmdaleyfi Veitur gufulögn
Veitur ohf. sækja um viðbót við áður útgefið framkvæmdarleyfi vegna borholu HV-02 Í Gufudal.
Framkvæmdin felst í að hleypa holunni upp og meðan á þeirri aðgerð stendur er nauðsynlegt að farga vatni í Varmá. Kælikar verður sett upp tímabundið á meðan á framkvæmdum stendur. Gert er ráð fyrir að framkvæmdin taki allt að 12 tíma og mun hún fara fram um miðjan ágúst, að því gefnu að veðuraðstæður og aðstæður Varmár leyfi.
Fyrir liggja umsagnir landeiganda ásamt umsögnum Umhverfistofnunar, veiðifélags Varmár og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.

Samþykkt að veita framkvæmdarleyfi með þeim fyrirvara að Fiskistofa veiti heimild fyrir framkvæmdinni.
15. 1907021 - Ályktun um starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum
Starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum Ölfusi. Mótun stefnu.
Mótun stefnu starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum Ölfusi.

Bæjarráð gerir athugasemd við að mótuð hafi verið stefna um starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands og hún þegar verið kynnt, án samráðs við Sveitarfélagið Ölfus sem þó er það sveitarfélag sem hýsir hina mikilvægu garðyrkjudeild skólans.

Vart þarf að taka fram að hagsmunir Sveitarfélagsins Ölfus eru afar ríkir og velvilji gagnvart skólanum einlægur. Öllum má ljóst vera að starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands í Ölfusi er samfélaginu á Suðurlandi afar mikilvæg og tengslin við atvinnulífið rík. Breytingar á rekstrarumhverfi skólans skipta eðli málsins samkvæmt miklu.

Bæjarráð beinir því til Háskólaráðs LBHÍ að staðinn verði áframhaldandi vörður um það mikilvæga nám sem fram fer á Reykjum í Ölfusi. Til að slíkt sé mögulegt er hvatt til samvinnu við sveitarfélögin á svæðinu sem og aðra hagaðila.

Með ofangreint í huga beinir bæjarráð því til Háskólaráðs að engar ákvarðanir um nýja stefnu verði teknar nema með víðtæku samráði við sveitarfélögin og aðra þá aðila sem um málið fjalla og hagsmuna eiga að gæta.

Bæjarráð lýsir sig hér með tilbúið til slíks samráðs enda slíkt forsenda árangurs og uppbyggingar.
Almenn mál - umsagnir og vísanir
16. 1904026 - Umsókn um tækifærisleyfi Hamingjan við hafið
Umsókn um tækifærisleyfi 6.-11.ágúst í skrúðgarði og á bryggjusvæði.

Bæjarráð veitir jákvæða umsögn um tækifærisleyfið svo fremi sem aðrir sem um málið fjalla geri það einnig. Umsögn þessi er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi samkomustaðarins á kostnað umsóknaraðila ef þörf krefur.
17. 1907013 - Skipulagsmál - Breyting á aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025
Hafnarfjarðarkaupstaður kynnir til umsagnar skipulagstillögu að breyttum sveitarfélagsmörkum.
Breyting á aðalskipulagi felst í því að sveitarfélagsmörk og þar með skipulagsmörk aðalskipulagsins breytast á þann hátt að 2.966 ha svæði verður innan Hafnarfjarðarkaupstaðar og er svæðið að mestu skilgreint með landnotkunarflokknum óbyggð svæði (ÓB). Meginhluti svæðisins fellur einnig undir grann- eða fjarsvæði vatnsverndar (VG og VF) auk þess að vera friðlýst svæði (FS), Reykjanesfólkvangur.
Ferli er í samræmi við skipulagslög 40. gr., nr. 123/2010 og gr. 4.2.2 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Sveitarfélagið Ölfus gerir ekki athugasemdir við innsend gögn.
18. 1807016 - Framkvæmdaleyfi, vetnisstöð við Hellisheiðavirkjun
Sveitarfélaginu barst ósk um umsögn frá skipulagsstofnun vegna framkvæmda við vetnisstöð á Hellisheiði skv. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og 12. gr. reglugerðar nr. 66/2015.
Ölfus skal veita umsögn um á hvaða forsendum framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum.
Verkefnið snýr að því að nýta raforkuna sem framleidd er í Hellisheiðarvirkjun þegar notkun er í lágmarki. ON mun setja upp og reka stöð í Tæknigörðum við Hellisheiðarvirkjun sem framleiðir vetni með rafgreiningu.
Gögn eru unnin af verkfræðistofunum Verkís og Mannvit.

Bæjarráð telur að nægilega sé gert grein fyrir framkvæmdinni í innsendum gögnum og að framkvæmdin sé almennt í samræmi við þær áætlanir sem sveitarfélaginu hafa áður verið kynntar. Einnig telur sveitarfélagið umsóknaraðila almennt gera vel grein fyrir hættu sem stafar af framleiðslunni og vöktun hennar.
Framkvæmdarleyfi munu á síðari stigum vera á höndum sveitarfélagsins.
Mál til kynningar
19. 1510019 - Skipulagsmál: Skipulag á landi við Skíðaskálann í Hveradölum.
Skipulagsstofnun óskar umsagnar við tillögu að matsáætlun vegna framkvæmda í Hveradal, sbr. innsend gögn, skv. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 og 17. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum.
Hveradalur ehf. áforma uppbyggingu ferða- og útivistarþjónustu í Hveradölum á grunni áratuga þjónustuhlutverks Skíðaskálans í Hveradölum og nálægðar við jarðhitasvæði.
Gögn eru unnin af verkfræðistofunni Verkís fyrir Hveradali.

Bæjarráð gerir ekki athugasemdir við unna tillögu að matsáætlun. Áætlun og afmörkun eru í samræmi við önnur gögn og aðalskipulagsbreytingar.
Bæjarráð vill taka fram mikilvægi grunnvatns á svæðinu við vinnslu umhverfismats. Huga þarf að áhrifum neysluvatns og mengunar við förgun á vatni ekki síður vegna nálægra vatnsverndarsvæða.
Framkvæmdar- og byggingarleyfi munu á síðari stigum vera á höndum sveitarfélagsins.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:30 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?