Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarráð Ölfuss - 314

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
15.08.2019 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Grétar Ingi Erlendsson formaður,
Steinar Lúðvíksson varaformaður,
Þrúður Sigurðardóttir aðalmaður,
Elliði Vignisson bæjarstjóri, Sandra Dís Hafþórsdóttir embættismaður.
Fundargerð ritaði: Sandra Dís Hafþórsdóttir, sviðsstjóri
Formaður leitaði samþykkis fundarins til að taka mál nr.1908015 ,,Stígur við Suðurstrandarveg"
Samþykkt samhljóða


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1602017 - Fjármál Fjárhagsupplýsingar Sveitarfélagið Ölfus 2019.
Fyrir bæjarráði lá afrit af rekstraryfirliti frá 01.01.2019 til 31.05. 2019.
Samanburður við sama tímabil 2018 sýnir að skatttekjur hækka á milli ára um 5,2% eða rétt tæplega 50 milljónir.

Gjöld vegna félagsþjónustu hækka á milli ára um 13% og fara úr 126 milljónum í 142 milljónir, fræðslu- og uppeldismál hækka um 3% og fara úr 458 milljónum í 471 milljón og æskulýðs- og íþróttamál hækka um 7% og fara úr 118 milljónum í 126 milljónir.

Fyrir bæjarráði lá einnig afrit af fjárhags- og framkvæmdaáætlun Sveitarfélagsins Ölfuss og yfirlit yfir fjárfestingar það sem af er árs. Áætlað er að framkvæma fyrir 314 milljónir á árinu og hefur nú þegar verið ráðist í framkvæmdir við gatnagerð o.fl. en reikningar ekki enn borist. Útgjöld vegna fjárfestinga vegna verklegra framkvæmda það sem af er ári nema rúmlega 23 milljónum en áætlað er að framkvæma fyrir 314 milljónir á árinu.
2. 1907022 - Kaup á bílalyftu
Fyrir liggur ósk frá forstöðumanni umhverfis- framkvæmda- og veitusviðs um kaup á bílalyftu. Fyrir stuttu var seldur tankbíll frá sviðinu að andvirði kr. 744.000 og óskað er eftir að hluti söluverðsins verði notaður til að kaupa bílalyftu inn í áhaldahúsið. Kostnaður við kaup á lyftu er kr. 494.990 með vsk.

Bæjarráð samþykkir erindið
3. 1904008 - Gatnagerð. Hraunshverfi
Fyrir bæjarráði lá niðurstaða opnunar og yfirferðar tilboða í verkið "Hraunshverfi 1.áfangi-gatnagerð og lagnir" ásamt minnisblaði Tækniþjónustu SÁ ehf.

Í minnisblaðinu kemur fram að ein reikningsskekkja hafi komið fram við yfirferð tilboða og hækkað eitt tilboða um 100.000 kr. Önnur tilboð voru rétt. Reikningsskekkjan breytti ekki röð bjóðenda í útboðinu.

Niðurstaða opnunar og yfirferðar tilboða:

1. Jón og Margeir ehf 134.992.718 89,4%
2. GG Sigurðsson ehf. 142.777.720 94,6%
3. Aðalleið ehf. 145.130.210 96,1%
4. Háfell ehf. 163.967.020 108,6%

Kostnaðaráætlun: 150.971.571


Bæjarráð samþykkir að fela sviðsstjóra að ganga til samninga við lægstbjóðanda svo fremi sem ekkert óvænt komi í ljós við áframvinnslu málsins.
4. 1908004 - Samráð- Stefna í úrgangsmálum
Fyrir bæjarráði lágu drög að stefnu Umhverfis- og auðlindaráðherra í úrgangsmálum. Óskað var eftir umsögnum sveitarfélagsins.

Í ljósi þess að Sveitarfélagið Ölfus á í víðtæku samstarfi við nágranna sveitarfélög á vettvangi Sorpstöðvar Suðurlands (SOS) hvað úrgangsmál varðar beinir bæjarráð erindinu til stjórnar SOS.
5. 1908012 - Hljóðkerfi í íþróttahús og fimleikasal
Fyrir bæjarráði lá minnisblað frá Ragnari M. Sigurðssyni, íþrótta- og æskulýðsfulltrúa.

Þar kom m.a. fram að hljóðkerfið í íþróttasal þróttamiðstöðvarinnar sé komið að fótum fram enda orðið u.þ.b. þrjátíu ára gamalt. Brýnt sé að fara í endurnýjun á því, auk þess að setja þurfi upp hljóðkerfi í viðbyggingunni sem mun hýsa fimleikaaðstöðu.

Hljóðkerfið í íþróttasalnum er mikið notað í kennslu og á leikjum í Dominosdeildinni í körfuknattleik. Fimleikadeildin notar einnig mikið hljóðkerfið á öllum sínum æfingum. Auk þess eru ýmsar aðrar uppákomur í íþróttasalnum sem þurfa á hljóðkerfi að halda.

Í minnisblaðinu kemur fram að leitað hafi verið tilboða og niðurstaða þess hafi verið sem hér segir:

Tilboð:

Exton kr. 5.600.000,-
Origo kr. 4.500.000,-
Feris kr. 4.938.241,-

Ennfremur lá fyrir tilboð í vinnu vegna uppsetningar frá Fast ehf. að upphæð 2.703.000-

Í minnisblaðinu kemur fram eftir yfirferð tilboða að lagt sé til að tekið verðí tilboði frá Feris ehf. Það tilboð passar mjög vel við þær forsendur sem lagt var upp með, er einfaldast í uppsetningu og býður upp á mikinn sveigjanleika.

Samtals er því áætlaður kostnaður: 7.641.241 kr.

Bæjarráð samþykkir tilgreinda fjárfestingu og felur starfsmönnum að ganga frá viðauka þar að lútandi.

6. 1907029 - Ósk um stöðvun á vinnu Jarðaefnaiðnaðar
Bréf frá íbúum á Sunnubraut og Mánabraut þar sem þess er óskað að bæjarstjórn Ölfuss hlutist til um að ekki sé starfsemi hjá Jarðefnaiðnaði ehf.frá kl.23:00-08:00. Samkvæmt erindinu berst mikill hávaði frá fyrirtækinu á þessum tíma og af því hlýst töluvert ónæði fyrir íbúana.

Bæjarráð tekur undir áhyggjur íbúa og lítur á það sem óásættanlegt að starfsemi fyrirtækja í námunda við íbúabyggð valdi truflunum sem þeim sem lýst er í erindinu.

Eftirlit með starfsleyfi hvað hávaðamengun varðar er hins vegar ekki á verksviði sveitarfélagsins heldur Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Bæjarráð vísar því erindinu til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.
7. 1907028 - Bréf frá Örnefnanefnd
Erindi frá Örnefnanefnd, dags. 26. júní, þar sem Örnefnanefnd beinir þeim tilmælum til sveitarfélaga að hafa frumkvæði að því að senda umsagnir um ensk heiti á stöðum í nærumhverfi.

Bæjarráð vísar erindinu til starfsmanna Framkvæmda- og skipulagssviðs.
9. 1908015 - Stígur við Suðurstrandarveg
Tilboð í verkið 'Malbikun stígs 2019' voru opnuð mánudaginn 12. ágúst 2019.
Fjögur tilboð bárust.
Lægstbjóðandi, Aðalleið ehf. er metinn hæfur til að framkvæma verkið og er lagt til að gengið verði til samninga við fyrirtækið.
Veita þarf fjárveitingu uppá 28,5 milljónir sem tekur mið af framlagi sem fengist hefur í verkið.

Samþykkt samhljóða.
Mál til kynningar
8. 1908013 - Stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga 2019-2033-þingslályktunartillaga
Þingsályktunartillaga, stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033.

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:15 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?