Fundargerðir

Til bakaPrenta
Bæjarráð Ölfuss - 320

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
16.01.2020 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Grétar Ingi Erlendsson formaður,
Þrúður Sigurðardóttir aðalmaður,
Kristín Magnúsdóttir 1. varamaður,
Sandra Dís Hafþórsdóttir sviðsstjóri.
Fundargerð ritaði: Sandra Dís Hafþórsdóttir, sviðsstjóri


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2001019 - FOOD 2030
Kynning á verkefninu Ásgarður-FOOD 2030
Fyrir bæjarráði lá minnisblað um verkefnið FOOD 2030 og tækifæri Ölfuss hvað það varðar.

Þar kemur m.a. fram að vegna frumkvæðis Sveitarfélagsins Ölfuss í umræðu um umhverfisvæna matvælaframleiðslu hafi því nú verið boðin þátttaka í alþjóðlegu verkefni sem fengið hefur vinnuheitið „ÁSGARÐUR“ og er innan verkefnisins FOOD 2030.

Grunnhugmyndin að verkefninu er að auka viðbragðsþolhæfni, sjálfbærni og matvælaöryggi með betri samtengingu landbúnaðar og fæðuframleiðslu í evrópskum borgum/bæjum og nærsamfélagi þeirra. Þá er þar horft til orkuvinnslu í tengslum við matvælaframleiðslu og nýtingu auðlinda í nærumhverfi.

Um fjölmarga samstarfsaðila er að ræða, bæði innlenda og erlenda. Fram kemur að sótt verði um styrk að fjárhæð 1,6 milljarður og þar af sé áætlað að til Íslands komi 500 til 600 milljónir.

Afgreiðsla:
Bæjarráð fagnar því að vera boðin þátttaka í þessu metnaðarfulla verkefni og telur það í anda þeirrar stefnu sem sveitarfélagið hefur verið að marka í auðlindanýtingu og áherslu á umhverfisvæna matvælaframleiðslu.

Bæjarráð samþykkir þátttöku í umsókninni enda felast ekki í því fjárhagslegar skuldbindingar.
2. 1912042 - Yfirlýsing um að nýta ekki forkaupsrétt Unnur Ben ÁR 1998
Erindi frá Skipasölunni Bátar og búnaður dags. 27. des s.l. þar sem Sveitarfélaginu Ölfusi er boðinn forkaupsréttur að Unni Ben ÁR 1998 með vísan til 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Í erindinu kemur fram að ef verði af sölu skipisins verði það selt án aflahlutdeilda.
Afgreiðsla:
Bæjarráð þakkar seljanda fyrir að virða hinn lögbundna rétt sveitarfélagsins um forkaupsrétt sem kveðið er á um í lögum um stjórn fiskveiða. Þar sem skipið er selt án aflahlutdeilda telur bæjarráð hinsvegar ekki forsendur fyrir því að nýta forkaupsréttinn í þessu tilviki og fellur því frá honum.
3. 1911010 - Byggðakvóti 2019-2020
Skipting úthlutunar byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2019/2020.

Fyrir bæjarráði lá svar við umsókn um byggðakvóta fiskveiðiársins 2019/2020.

Niðurstaðan er að Sveitarfélagið Ölfus fær hámarksúthlutun eða 300 þorskígildislestir.

Reglur samkvæmt reglugerð um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa eru almennar og gilda um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa í öllum byggðarlögum nema frá þeim sé vikið.

Megintilgangur þeirra er að tryggja að fiskiskip sem gerð eru út frá tilteknum byggðarlögum og landað hafa afla þar fái hlut í byggðakvótanum sem landað er til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi.

Afgreiðsla:
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og samþykkir að leggja til við ráðuneytið að byggðakvóta Ölfuss verði úthlutað skv. viðeigandi reglum ráðuneytisins.
4. 1908018 - Vatnsveitur, bændaveitur í dreifbýlinu
Drög að samkomulagi um lagningu vatnsveitu að landi Valla og Saurbæjar.



Fyrir bæjarráði lágu drög að samkomulagi um lagningu vatnsveitu að landi Valla og Saurbæjar. Samningarnir gera heilt yfir ráð fyrir að fasteignaeigendur greiði alla þá verkþætti er snúa að jarðvinnu svo sem skurðsnið, þverun, gröft frá lögnum, gröft meðfram lögnum, fleygun, frágang yfirborðs, sáningu o.fl.. Þar undir fellur framkvæmd verkliða og allur kostnaður vegna þeirra. Verkið verður unnið að forskrift Ölfuss og í samráði við byggingafulltrúa.

Ölfus mun hinsvegar annast og greiða fyrir lagnavinnu og efni.

Eftir að tengingu við vatnsveitu sveitarfélagsins verður lokið munu fasteignaeigendur greiða vatnsgjöld samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins. Fyrir íbúðarhúsnæði greiðist fast gjald en rekstraraðilar greiða samkvæmt rennslismæli.

Samningurinn við landeigendur Valla felur einnig í sér frágang á eldra samkomulagi um uppgjör vegna gatnagerðar og kaup á þeim lögnum sem lagðar voru við nýframkvæmdir þar að lútandi. Sveitarfélagið Ölfus verður því eigandi að allri veitunni með öllum þeim réttindum og skyldum er slíkri eign fylgja, þar með talið notkunargjöld, tengigjöld nýrra eigna og annað sem almennt á við um rekstur og þjónustu vatnsveitna. Fram kemur að verðmat veitunnar er kr. 2.655.000 kr. Eldri skuld vegna gatnagerðar er kr.896.404, eða samtals 3.551.404 kr. Ógreidd tengigjöld eru 1.980.000 kr. Við undirritun samkomulags þessa mun Sveitarfélagið Ölfus því greiða eigendum veitunnar 1.571.404 kr. sem fullnaðar uppgjör vegna kaupa á vatnsveitu og kostnaðarþáttöku í gatnagerð.

Afgreiðsla:
Bæjarráð samþykkir samningana fyrir sitt leyti.



5. 1901002 - Samningur um gámastöð Hrísmýri
Samningur við Íslenska Gámafélagið ehf. um aðgang að gáma- og sorpmóttökusvæði.
Fyrir bæjarráði lágu drög að samningi við Íslenska Gámafélagið ehf. Samningurinn kveður á um rétt íbúa, rekstraraðila og sumarhúsaeigenda í sveitarfélaginu Ölfusi til aðgangs að gáma- og sorpmóttökusvæði Íslenska Gámafélagsins ehf. að Hellislandi og skyldu Ölfuss til greiðslu mánaðarlegrar þóknunar með verðbreytingum fyrir aðgengið. Heildargreiðslur verkkaupa til verktaka vegna samnings þessa á mánuði skulu vera kr. 200.000 auk virðisaukaskatts og verðbóta skv. 10. gr. samnings þessa.

Afgreiðsla:
Bæjarráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti.



6. 1912026 - Styrkumsókn Félag lesblindra
Fyrir fundinum lá erindi um styrkbeiðni frá Félagi lesblindra á Íslandi.
Afgreiðsla:
Styrkbeiðnin rúmast ekki innan fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins fyrir árið 2020 og er henni því hafnað.
Bæjarráð bendir á að styrkbeiðnir til sveitarfélagsins þurfa að berast fyrir fjárhagsáætlunargerð að hausti.

Mál til kynningar
7. 2001014 - Fjölmiðlaskýrsla Sveitarfélagins Ölfuss
Fjölmiðlaskýrslur Sveitarfélagsins Ölfuss frá Creditinfo fyrir árin 2017, 2018 og 2019.
Fyrir bæjarráði lágu Fjölmiðlaskýrslur Creditinfo fyrir árin 2017, 2018 og 2019.

Þar kemur m.a. fram að umfjöllun um sveitarfélagið hefur vaxið um 230% frá 2016. Þá hefur svokallað „Fréttaskor" hækkað verulega og farið úr 3 í 3,4. Þetta „Fréttaskor" gefur raunsæja mynd af því hversu mikið vægi fréttin hefur fyrir ímynd fyrirtækisins. Það segir til um hvort fréttin sé virkilega um fyrirtækið eða hvort umfjöllunin sé um annað en fyrirtækið og hversu mikla athygli fréttin fær. Af þeim fyrirtækjum og stofnunum sem eru mæld eru hefur Ölfus færst upp um 108 sæti eða úr 294 í 186.

Afgreiðsla:
Bæjarráð þakkar þessar upplýsingar og fagnar því hversu mikil og jákvæð umfjöllun fjölmiðla er um sveitarfélagið.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:45 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?