Fundargerðir

Til bakaPrenta
Fjölskyldu- og fræðslunefnd - 40

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
23.09.2020 og hófst hann kl. 08:00
Fundinn sátu: Sigríður Vilhjálmsdóttir formaður,
Guðbergur Kristjánsson varaformaður,
Halldóra Björk Guðmundsdóttir aðalmaður,
Hjörtur S. Ragnarsson aðalmaður,
Ágústa Ragnarsdóttir aðalmaður,
Vigdís Lea Kjartansdóttir áheyrnarfulltrúi,
Ása Berglind Hjálmarsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Hallfríður Snorradóttir áheyrnarfulltrúi,
Guðlaug Einarsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Ólína Þorleifsdóttir skólastjóri, Elsa Þorgilsdóttir leikskólastjóri.
Fundargerð ritaði: Sigríður Vilhjálmsdóttir, formaður fræðslunefndar


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 1602030 - Leikskólinn Bergheimar: Skýrsla skólastjóra.
Skólastjóri fór yfir helstu þætti skólastarfsins frá síðasta fundi s.s. fasta liði í starfinu eins og aðlögun nýrra barna.
Þá greindi leikskólastjóri frá þeim breytingum sem framundan eru í innleiðingarfasa á aðferðum Hjallastefnunnar.
Starfsfólk er nú að fá fræðslu og þjálfunarprógramm um aðferðir Hjallastefnunnar og er starfsfólk mjög áhugasamt um að byrja að nota þær aðferðir.
Þann 1. október næstkomandi verður mikilvægur þáttur í innleiðingunni þegar Karen Viðarsdóttir tekur við sem leikskólastjóri.
Nefndin þakkar upplýsingarnar.

2. 1908043 - Leikskólinn Bergheimar, Breyting starfsdaga.
Vegna breytinga á rekstrarformi leikskólans óskar leikskólastjóri eftir því að færa starfsdag sem fyrirhugaður var þann 9. október 2020 samkvæmt skóladagatali fram til 16. október.
Miðast breytingin að því að gera starfsfólki Bergheima kleift að taka þátt í haustráðstefnu Hjallastefnunnar þann 16. október.

Nefndin samþykkir breytinguna samhljóða.
3. 1602028 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn: Skýrsla skólastjóra.
Skólastjóri greindi frá helstu þáttum í starfi skólans frá síðasta fundi m.a. frá starfsdegi og því að valgreinastarf á unglingastigi sé að fara vel af stað og greindi skólastjóri frá hinu fjölbreytta vali sem er í boði á unglingastigi í fjölmörgum smiðjum.
Má þar nefna fjallgöngur, fjármál, umferðarfræðslu, Zumba, raftónlist, skyndihjálp, spænsku, spinning, styrktarþjálfun, kvikmyndarýni, nýsköpun og ljósmyndun.
Nú eru skráðir nemendur við skólann 249 og er jafnframt von á fleiri nýjum nemendum í nóvember.
Þá upplýsti skólastjóri um vel heppnaða ferð nemenda í 8. og 9. bekk sem heimsóttu Landmannalaugar í ævintýra- og útivistarferð á vegum Kiwanisklúbbsins Ölvers.
Þá tóku allir nemendur þátt í Ólympíuhlaupi ÍSÍ í september og nemendur í 1.-5. bekk fengu að njóta tónleika nýstofnaðrar Sinfoníuhljómsveitar Suðurlands sem hélt sína fyrstu tónleika í Þorlákskirkju.
Þrátt fyrir ýmsar takmarkanir vegna sóttvarna þá snúa takmarkanir við skólann einkum að fullorðnum og er þess vænst að nemendur finni litlar eða engar breytingar á eiginlegu skólastarfi.
4. 1910057 - Grunnskólinn í Þorlákshöfn. Starfsáætlun.
Skólastjóri kynnti nýja starfsáætlun grunnskólans fyrir skólaárið og fór yfir helstu breytingar á áætluninni frá fyrra skólaári, meðal annars breytingar sem gerðar voru í framhaldi af ytra mati.

Nefndin samþykkir starfsáætlunina samhljóða eins og hún liggur fyrir.
5. 2008056 - Áhættuhegðun unglinga.
Þessum dagskrárlið var frestað á síðasta fundi en fyrirhugað var að ræða hvort að aukin áhættuhegðun hefði gert vart við sig hjá afmörkuðum hópi barna eða unglinga í sveitarfélaginu m.a. í kjölfar fyrstu bylgju Covid.
Víða hefur reyndin verið sú að tilkynningum til barnaverndar hefur fjölgað verulega og félagslegur vandi af ýmsu tagi hefur aukist m.a. áhættuhegðun barna og unglinga.
Formaður fór í aðdraganda fundarins yfir málið með starfsmanni félagsþjónustu og mun starfsmaður félagsþjónustu fjalla almennt um málefnið á næsta fundi nefndarinnar.
Formaður foreldrafélagsins greinir frá niðurstöðum tenglafundar og fyrirætlunum um fyrirkomulag á foreldrarölti í sveitarfélaginu.
Vonir standa til þess að vel gangi að tvinna saman starf foreldra, skóla, félagsþjónustu og lögreglu til að lágmarka vandann. Þá ræddu nefndarmenn ýmsar leiðir að því markmiði og verður málefnið áfram til skoðunar hjá nefndinni.

Nefndin þakkar upplýsingarnar.



Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:00 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?