Fjöldi viðburða, fjölgun gesta og spennandi verkefni

Það er engin kreppa á bókasafninu í Þorlákshöfn ef skoðaðar eru útlánatölur og fjölgun gesta sem komið hafa á safnið undanfarna mánuði. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu menningarsviðs Ölfuss fyrir árið 2009, en skýrslan verður kynnt á íbúafundi í Ráðhúskaffi klukkan 17 í dag, á sama tíma og kynnt verður stefna sveitarfélagsins í ferðamálum. Það er Rögnavldur Guðmundsson, ferðamálafræðingur sem hefur unnið með nefndinni að gerð stefnu í ferðmálum og var við upphaf verkefnisins efnt til íbúafunda og gerðar kannanir meðal íbúa og ferðamanna í Ölfusi. Það sem kom skemmtilega á óvart þegar farið var að vinna úr þessum könnunum, var hve íbúar bæði í Þorlákshöfn og í dreifbýlinu hafa mikla trú á framtíð ferðaþjónustu á svæðinu og telja samstarf við nágranna á sviði ferðaþjónustu mikilvægt. Þetta kemur fram í fyrri hluta skýrslunnar ásamt fleiri niðurstöðum þessara kannana. Í seinni hlutanum er gert stöðumat á ýmsum mikilvægum þáttum er tengjast ferðaþjónustu á svæðinu, eins og markaðssetningu, upplýsingagjöf, þjónustu, samgöngur, merkingar og fleira. Skýrslunni lýkur með því að nefndir eru til nýsköpunarmöguleika á svæðinu. Þar er stuðst við margvíslegar hugmyndir sem hafa verið til skoðunar hjá menningarnefnd og hjá vinnuhópi sem skipaður var árið 2004 og falið að skoða möguleika í uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. Einnig eru taldar til hugmyndir sem komu fram á íbúafundum sem mörkuðu upphaf vinnu við gerð þessarar stefnu. Fundirnir voru tveir annarsvegar í Þorlákshöfn og hinsvegar í Básnum. Allar niðurstöður og hugmyndir er fram komu á fundunum eru birtar heild sinni í lok skýrslunnar. Allir þeir sem hafa áhuga á menningar- og ferðamálum eru hvattir til að mæta á fundinn og ekki síst þeir sem starfa að þjónustu í sveitarfélaginu. Hugmyndin er að skýrslan nýtist sem flestum, og unnið verði áfram að þeim góðu hugmyndum sem þar koma fram. Menningarnefnd þakkar öllum þeim sem komu að gerð stefnunnar fyrir gott samstarf.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?