Innleiðing á Jafnlaunastaðli hafin hjá Sveitarfélaginu Ölfusi

Innleiðing á Jafnlaunastaðli ÍST85

Sveitarfélagið Ölfus hefur hafið innleiðingu á Jafnlaunastaðli ÍST85. Grunnmarkmið innleiðingarinnar er að koma upp ferlum sem tryggja að málsmeðferð og ákvarðanataka í launamálum feli ekki í sér beina né óbeina kynbundna mismunun. Jafnlaunastaðallinn var fyrst gefinn út árið 2012 sem afurð samstarfs stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Með breytingum á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008 sem tóku í gildi 1. janúar 2018 var staðallinn lögbundinn og tekur til fyrirtækja og stofnana með 25 starfsmenn eða fleiri að jafnaði á ársgrundvelli. Nánari upplýsingar og svör við algengum spurningum má finna á heimasíðu Stjórnarráðsins. Skipaður hefur verið vinnuhópur hjá Sveitarfélaginu Ölfusi sem mun á næstu mánuðum innleiða gæðakerfi í launamyndun í samræmi við kröfur Jafnlaunastaðals.

Helstu verkefni framundan

Innleiðing á Jafnlaunastaðli felur í sér að setja skýra stefnu í jafnréttismálum og leggja áherslu á þá ferla sem snúa að launaákvörðunum. Verkáætlun fyrir innleiðingu felur í sér að byggja upp kerfi sem tryggir stöðugar umbætur og uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til að hljóta jafnlaunavottun. Þetta mun fela í sér samræmingu á starfslýsingum og starfsmati, skýra ábyrgðaskiptingu og rýni stjórnenda auk reglulegra úttekta á stjórnun kerfisins.

Sveitarfélög hafa frest til lok árs 2019

Lög um jafnlaunavottun tóku gildi 1. janúar 2018 og var sveitarfélögum settur frestur til loka ársins 2019 til að hljóta vottun. Sveitarfélagið Ölfus hóf skipulagningu síðla árs 2018 og vinnur nú samkvæmt verkáætlun í samstarfi við reynda ráðgjafa á sviði jafnlauna- og mannauðsmála.

Samstarf um innleiðingu

Sveitarfélagið hefur fengið til samstarfs öflugt teymi ráðgjafa frá Ráði og Vexti ráðgjöf. Þeir búa að víðtækri reynslu af öllum þáttum sem snúa að innleiðingunni en nánari upplýsingar um starfsemi þeirra má finna á heimasíðum Ráðar og Vaxtar. Stefnt er á að ferlinu ljúki með vottun á haustmánuðum.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?