Kynjahlutfall eldri borgara eins jafnt og mögulegt er

Róbert Karl, Anna Lúthersdóttir og Barbara Guðnadóttir, menningarfulltrúi
Róbert Karl, Anna Lúthersdóttir og Barbara Guðnadóttir, menningarfulltrúi

Fjölmargt er framundan á árinu til að vekja athygli á 20 ára afmæli Félags eldri borgara í Ölfusi. 

Í vikunni leit Anna Lúthersdóttir inn til menningarfulltrúa til að segja frá ýmsum þeim viðburðum sem Félag eldri borgara mun standa fyrir á árinu.  Tilefnið er tuttugu ára afmæli félagsins og er ætlunin að vekja mikla athygli á afmælinu og hvetja til þátttöku á viðburðum.  Einn þeirra viðburða sem í boði verður er handverkssýning þar sem allir þeir sem einhverntíma hafa leiðbeint í félagsstarfi aldraðra í Ölfusi munu sýna margvíslegt handverk.  Sýningin verður opnuð um Hafnardagahelgina.

Rétt í því að Anna segir menningarfullltrúa frá sýningunni kemur Róbert Karl Ingimundarson að hitta menningarfulltrúa og verður heldur betur ánægður með að heyra af handverkssýningunni, en hann eins og flestir vita, er framkvæmdastjóri Hafnardaga.

Ýmislegt var rætt á skrifstofunni og nefndi Anna, að stutt væri frá því að hún fékk upplýsingar um fjölda eldri borgara í Ölfusi, en þeir eru 212 talsins (þ.e. 67 ára og eldri).  Hún greindi einnig frá því að nákvæmlega helmingur þeirra væru karlar og helmingur konur eða 106 konur á móti 106 körlum.  Þetta er sérlega skemmtilegt þegar hugsað er til þeirra viðburða sem framundan eru, m.a. árshátíðar og balls.  Það ætti að vera auðvelt að fyrir herrana að finna dömu að dansa við og öfugt.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?