Nýr samningur við Markaðsstofu Suðurlands undirritaður

Davíð Samúelsson og Ólafur Örn Ólafsson við undirritun nýs samnings
Davíð Samúelsson og Ólafur Örn Ólafsson við undirritun nýs samnings
Sveitarfélagið Ölfus og Markaðsstofa Suðurlands hafa gert með sér nýjan samning til þriggja ára.

Í dag var undirritaður nýr samningur við Markaðsstofu Suðurlands til næstu þriggja ára. Markaðsstofa Suðurlands hefur unnið mikið markaðs- og kynningarstarf fyrir Suðurlandið, bæði innanlands og utan, með sérstakri áherslu á að auka atvinnustarfsemi og gjaldeyristekjur með auknum fjölda gesta og íbúa á Suðurlandi.  Sömuleiðis leitast Markaðsstofan við að efla samstarf og upplýsingamiðlun atvinnulífs, sveitarfélaga og ríkisvalds, bæta ímynd svæðisins og auka eftirspurn eftir vörum og þjónustu sem eru í boði á Suðurlandi.  Það er því mikill ávinningur fyrir sveitarfélögin að vera aðilar að Markaðsstofunni.

Með samningi til þriggja ára er hægt að vinna að markvissri kynningu og markaðssetningu á Ölfusinu, þar sem þekking og reynsla Markaðsstofunnar nýtist í samstarfi við þekkingu og reynslu heimafólks.

Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri og Davíð Samúelsson, framkvæmdastjóri Markaðsstofunnar undirrituðu samninginn rétt eftir hádegi í dag.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?