Um skólann

Grunnskólinn í Þorlákshöfn er heildstæður grunnskóli með nemendur frá 1. – 10. bekk. Skólinn er staðsettur í hentugu skólahúsnæði við Egilsbraut 35 í Þorlákshöfn. Skólinn er einsetinn með 20-29 nemendur í hverjum árgangi. Skólahúsnæðið hefur stækkað með árunum en skólinn hefur verið byggður í sjö áföngum eins og rakið er hér að neðan.

Ölfushreppur byggði á sínum tíma heimavist fyrir skólabörn sem var staðsett í Hveragerði en þar áttu börn héðan að stunda sitt skyldunám vegna þess að enginn skóli var á staðnum. En sumarið 1956 voru hér 9 skólaskyld börn og um haustið var sett hér á stofn útibú frá skólanum í Hveragerði og Kristján Einarsson skáld frá Djúpalæk ráðinn til kennslunnar og var hann fyrsti barnaskólakennari í þéttbýli í Þorlákshöfn.

Kennt var fram að jólum í sjóbúð. Í janúar var flutt í skúr sem var heldur óhrjálegur. Var hann staðsettur að Egilsbraut 14, byggður af Sigurþór Runólfssyni. Við kennslu í skúrnum komu við sögu þeir Árni Benediktsson og Gunnar Markússon, síðar skólastjóri. Guðbjörg Thorarensen kenndi þarna í alllangan tíma en skólastjórn var í höndum Valgarðs Runólfssonar í Hveragerði. Síðar flutti skólinn í íbúð sem útibústjóra KÁ hafði verið ætluð. Á ýmsu gekk næstu árin. Kennt var þar sem hægt var að fá inni fyrir nemendur og kennara. Í upphafi ársins 1962 var flutt í sérstakt skólahúsnæði. Bygging þess var þó ekki lengra komin en svo að mótatimbur klætt tjörupappa þjónaði sem útihurð og rúðugler. Útbúnaður þessi hélt vindi og vatni að mestu utan veggja en rafmagn og olía gáfu húsinu birtu og yl. Þetta vor luku 37 börn prófi hér. Þá var Þorlákshöfn gerð að sérstöku skólahéraði og Gunnar Markússon ráðinn fyrsti skólastjórinn. Þess ber að geta að í húsnæði skólans starfar með blóma deild úr Tónlistaskóla Árnessýslu. Hún var stofnuð árið 1966 og er nú staðsett í norðari væng skólans, sem reistur var í 1. áfanga að viðbyggingu árið 1969. 2. áfangi fór í framkvæmd árið 1978, en þá var skólinn stækkaður verulega. Mat- og hátíðarsalur Grunnskólans var reistur í 3. áfanga árið 1986. Í 4. áfanga var norðari turninn, Norðurvör, reistur árið 1994 og syðri turninn, Suðurvör, í 5. áfanga árið 2006. 6. áfangi hófst svo árið 2008 með lagfæringu á stjórnunarálmu og byggingu nýs anddyris.

Árið 2013 var unnið að hönnun vegna endurbóta á tónlistarálmu skólans. Það var 7. áfangi breytinga við skólann. Vinnan við breytingarnar hófst í maí 2014. Um haustið 2014 var tónlistarálman tekin í notkun og lauk framkvæmdum þar í byrjun árs 2015. Samhliða þeim framkvæmdum var skólalóðin einnig endurbætt. Halldór Sigurðsson var skólastjóri í Grunnskólanum í Þorlákshöfn í 27 ár en hann lét af störfum vorið 2015. Þá tók Guðrún Jóhannsdóttir við starfi skólastjóra og gegndi því í þrjú ár eða fram á vor 2018. Núverandi skólastjóri er Ólína Þorleifsdóttir og eru nemendur nú 252.

Stefna skólans

Leitast skal við, eins og hægt er, að samræma leiðir í samskiptum en góð samskipti eru undirstaða vellíðan á vinnustað nemenda og starfsfólks. Skólinn er vinnustaður og býr ungt fólk undir framtíð sem er í örri þróun.   Einkunnarorð skólans endurspegla þá stefnu sem er höfð að leiðarljósi í skólanum en þau eru vinátta, virðing og velgengni.

Haustið 2018 hófst innleiðing uppeldsstefnunnar Uppeldi til ábyrgðar. Meginatriði stefnunnar er að kenna börnum og unglingum sjálfsaga, sjálfstjórn og ýta undir sjálfstraust. Uppeldi til ábyrgðar – Uppbygging sjálfsaga (Restitution – Self Discipline) er eins og nafnið bendir til, aðferð við að kenna börnum og unglingum sjálfsstjórn og sjálfsaga. Fundin er leið til að láta skólastarf ganga betur með þá vitneskju að leiðarljósi að hver og einn geti aðeins stjórnað sjálfum sér og ekki öðrum. Nemendur fá tækifæri og þjálfun í að líta inn á við, skoða eigið gildismat og láta það stýra framkomu sinni og hegðun allri. Áhersla er á efla félags- og siðgæðisvitund, á virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfinu. Til að tryggja öryggi eru skýr mörk skilgreind um óásættanlega hegðun.

Grunnskólinn í Þorlákshöfn hefur sett sér stefnu um fjölbreytta kennsluhætti, einstaklingsmiðað nám og fjölbreytt námsmat. Lögð áhersla á að koma til móts við ólókar þarfir nemenda og fjölbreytt námsumhverfi, bæði í framkvæmd kennslunnar og í skólaþróun. Að leiðarljósi eru fjölbreyttir og skapandi starfshættir þar sem nemendur eru hvattir til að sýna frumkvæði, sjálfstæði í námi og að bæta árangur sinn. Fjölbreyttar kennsluaðferðir koma til móts við nemendur á þann veg að sterkar hliðar hvers nemanda nýtast og fjölbreytt námsumhverfi gefur færi á að nemendur njóti sín í umhverfi sem hentar mismunandi námsstíl.

Kennslan byggist á þeirri stefnu að allir nemendur geti tekið framförum með viðeigandi náms- og kennsluaðferðum. Það gerir kröfur um að bæði kennari og nemandi leggi sig fram um að kynnast hvor öðrum, meti stöðu námsins og hafi foreldra/forráðamenn með í ráðum um þau markmið sem stefnt skal að hverju sinni. Stefnt er að því að nemendur geti sjálfir haft áhrif á nám sitt t.d. í gegnum virkt leiðsagnarmat.

Nám í grunnskóla tekur mið af þroska, persónugerð, hæfileikum, getu og áhugasviði hvers og eins. Hafa skal í huga lykilhæfni og hæfniviðmið við skipulag skólastarfs, auka hæfni nemenda sem felur í sér yfirsýn og getu til að hagnýta þekkingu og leikni. Grunnþættir menntunar skipa veglegan sess í námi og starfsháttum skólans. Við allt skipulag skólastarfs og kennslu ber að leggja þessi atriði til grundvallar. 

Lögð er áhersla á að auðga upplýsinga- og tæknimennt sem er samþætt öllum námsgreinum. Mikilvægt er að nemendur kynnist tækni og aðferðum við öflun, úrvinnslu, sköpun og miðlun upplýsinga á þverfaglegan hátt.

Mikil áhersla er lögð á að nemendur kynnist mismunandi vinnulagi á skólagöngu sinni, læri að tjá sig við mismunandi aðstæður og nota til þess gagnrýna og skapandi hugsun. Lögð er áhersla á að nemendur séu virkir í náminu, noti samræður, sýni frumkvæði og fái tækifæri til að meta námsstöðu sína og framfarir. Til þess að svo megi verða þurfa nemendur að kunna að vinna saman, nýta upplýsingar á fjölbreyttan hátt og miðla þeim til annarra. Þannig öðlast þeir reynslu og ættu því að geta gert sér betri grein fyrir því hvaða aðferðir henta þeim hverju sinni.