Um skólann

Grunnskólinn í Þorlákshöfn er heildstæður grunnskóli með nemendur frá 1. – 10. bekk. Skólinn er staðsettur í hentugu skólahúsnæði við Egilsbraut 35 í Þorlákshöfn. Skólinn er einsetinn með 14-29 nemendur í hverjum árgangi. Skólahúsnæðið hefur stækkað með árunum en skólinn hefur verið byggður í sjö áföngum eins og rakið er hér að neðan. Ölfushreppur byggði á sínum tíma heimavist fyrir skólabörn sem var staðsett í Hveragerði en þar áttu börn úr Þorlákshöfn að stunda sitt skyldunám vegna þess að enginn skóli var á staðnum. En sumarið 1956 voru hér 9 skólaskyld börn og um haustið var sett hér á stofn útibú frá skólanum í Hveragerði og Kristján Einarsson skáld frá Djúpalæk ráðinn til kennslunnar og var hann fyrsti barnaskólakennari í þéttbýli í Þorlákshöfn. Kennt var fram að jólum í sjóbúð. Í janúar var flutt í skúr sem var heldur óhrjálegur. Var hann staðsettur að Egilsbraut 14, byggður af Sigurþór Runólfssyni. Við kennslu í skúrnum komu við sögu þeir Árni Benediktsson og Gunnar Markússon, síðar skólastjóri. Guðbjörg Thorarensen kenndi þarna í alllangan tíma en skólastjórn var í höndum Valgarðs Runólfssonar í Hveragerði. Síðar flutti skólinn í íbúð sem útibústjóra KÁ hafði verið ætluð. Á ýmsu gekk næstu árin. Kennt var þar sem hægt var að fá inni fyrir nemendur og kennara. Í upphafi ársins 1962 var flutt í sérstakt skólahúsnæði. Bygging þess var þó ekki lengra komin en svo að mótatimbur klætt tjörupappa þjónaði sem útihurð og rúðugler. Útbúnaður þessi hélt vindi og vatni að mestu utan veggja en rafmagn og olía gáfu húsinu birtu og yl. Þetta vor luku 37 börn prófi hér. Þá var Þorlákshöfn gerð að sérstöku skólahéraði og Gunnar Markússon ráðinn fyrsti skólastjórinn. Þess ber að geta að í húsnæði skólans starfar með blóma deild úr Tónlistaskóla Árnessýslu. Hún var stofnuð árið 1966 og er nú staðsett í nyrðri væng skólans, sem reistur var í 1. áfanga að viðbyggingu árið 1969. 2. áfangi fór í framkvæmd árið 1978, en þá var skólinn stækkaður verulega. Í dag hýsir sú bygging stjórnunarálmu, bókasafn og tölvuver. Mat- og hátíðarsalur Grunnskólans var reistur í 3. áfanga árið 1986. Í 4. áfanga var nyrðri turninn, Norðurvör, reistur árið 1994 og syðri turninn, Suðurvör, í 5. áfanga árið 2006. 6. áfangi hófst svo árið 2008 með lagfæringu á stjórnunarálmu og byggingu nýs anddyris. Árið 2013 var unnið að hönnun vegna endurbóta á tónlistarálmu skólans. Það var 7. áfangi breytinga við skólann. Vinnan við breytingarnar hófst í maí 2014. Um haustið 2014 var hægt að byrja að nýta tónlistarálmuna og var framkvæmdum að mestu lokið um áramótin 2014 og að fullu í byrjun árs 2015. Samhliða þeim framkvæmdum var skólalóðin einnig endurbætt. Halldór Sigurðsson hefur lengst af verið skólastjóri í Grunnskólanum í Þorlákshöfn en hann lét af störfum vorið 2015 eftir 27 ára farsælt starf, þá tók Guðrún Jóhannsdóttir við starfi skólastjóra og gegndi því í þrjú ár eða fram á vor 2018. Núverandi skólastjóri er Ólína Þorleifsdóttir og eru nemendur nú 222