Nemendaverndarráð

 

Starfsreglur nemendaverndarráðs við Grunnskólann í Þorlákshöfn

Í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 587/2010

Reglurnar taka gildi frá og með 12. september 2019

1. Hlutverk nemendaverndarráðs:

Meginhlutverk nemendaverndarráðs er að gæta hagsmuna barna í skólanum, vernda þau og styðja.

Nemendaverndarráð:

 • Tekur við öllum tilvísunum vegna nemenda sem þurfa sérstakan stuðning eða aðstoð vegna líkamlegra, félagslegra og/eða sálrænna erfiðleika.
 • Metur þörf nemenda fyrir greiningu sérfræðinga (sálfræðinga, talmeinafræðinga, sérkennara o.s.frv.).
 • Ræðir málefni nemenda sem þarfnast sértækra úrræða eins og sjúkrakennslu eða tilvísanir til sérfræðinga.
 • Vísar málefnum einstakra nemenda til viðeigandi úrlausnar s.s. teymis gegn eineltis, nemendateymis, námsráðgjafa eða annarra úrræða sem skóli og sveitarfélag hefur.
 • Fjallar um og afgreiðir tilkynningar og aðrar upplýsingar til barnaverndaryfirvalda í samræmi við skyldur vegna barnalaga og barnaverndarlaga.
 • Er til samráðs vegna einstakra nemenda við aðila utan skólans, s.s. félagsþjónustu, heilsugæslu, BUGL o.fl.
 • Hefur yfirsýn með og fylgir eftir starfsemi nemendateyma sem ráðið vísar málum til og fara yfir stöðu málefna barna þar sem nemendateymi er starfandi.
 • Er samráðsaðili við gerð forvarnaráætlunar skólans.

2. Seta í nemendaverndarráði:

Í nemendaverndarráði sitja fulltrúar skólans, skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, deildarstjóri stoðþjónustu og námsráðgjafi. Skólahjúkrunarfræðingur er fulltrúi heilsugæslu og skólasálfræðingur er fulltrúi sérfræðiþjónustu skólans. Félagsráðgjafi sveitarfélagsins er fulltrúi barnaverndaryfirvalda. Fundarfært er í nemendaverndarráði ef 5 af sjö fulltrúum sitja fundinn. Heimilt er að kalla aðra inn á fundi ráðsins til að ræða einstök mál, s.s. umsjónarkennara, utanaðkomandi sérfræðinga og foreldra.

 

3. Um nemendaverndarráðsfundi:

Nemendaverndarráð hefur fastan fundartíma og fundað er að jafnaði einu sinni í mánuði. Fundartími skólaárið 2023-2024 er fyrsti fimmtudagur í mánuði kl. 10:20.

Skipulag funda:

 • Fundir skólaársins eru boðaðir í upphafi skólaárs. Ef tveir fulltrúar óska eftir breytinga á fundartíma er heimilt að gera slíkt í samráði við aðra aðila í ráðinu.
 • Skólastjóri, eða fulltrúi hans, undirbýr fundi nemendaverndarráðs og ákveður dagskrá.
 • Skólastjóri, eða fulltrúi hans, ákveður hver stýrir fundum ráðsins.
 • Námsráðgjafi skráir fundargerð og þar með öll mál sem berast ráðinu. Einnig eru skráðar í fundargerð allar ákvarðanir og ábyrgð með framkvæmd þeirra. Fundargerð er varðveitt sem trúnaðargagn á ábyrgð skólastjóra.
 • Á hverjum fundi skal fara yfir fundargerð síðasta fundar.

 

4. Vísan mála:

Nemendaverndarráð fjallar um mál nemenda skólans sem þurfa aðstoð vegna fötlunar, sjúkdóms eða námslegra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika og vísað er til ráðsins.

 • Fjallað er um málefni þeirra barna þar sem nemendateymi eru starfandi eftir atvikum enda er slíkt tilkynnt á eyðublöðum teymisfundargerðar.
 • Málum einstakra nemenda er hægt að vísa til umfjöllunar í nemendaverndarráði á sérstökum eyðublöðum sem hægt er að nálgast hjá skólaritara eða deildarstjóra stoðþjónustu.
 • Starfsfólk skóla og foreldrar geta óskað eftir því við fulltrúa í nemendaverndarráði að mál nemenda eða nemendahópa séu tekin fyrir.
 • Foreldrar skulu upplýstir bréflega, með tölvupósti eða bréfpósti um að málefni barns þeirra hafi verið vísað til ráðsins. Foreldrar barna þar sem nemendateymi er starfandi eru upplýstir um að fjallað er um málefni þeirra barns á fundum nemendaverndarráðs.

 

5. Afgreiðsla mála:

Við afgreiðslu mála í ráðinu er hagur barna hafður að leiðarljósi, jafnræðis og meðalhófs gætt í samræmi við lög.

 • Nemendaverndarráð skal taka fyrir mál sem vísað er til þess eins fljótt og unnt er eigi síðar en á næsta fundi.
 • Nemendaverndarráð ákveður hvort leita þurfi frekari gagna, hvort máli er vísað til sérfræðiþjónustu sveitarfélags eða hvaða aðrar leiðir skuli fara við úrlausn máls. Ráðið felur einum aðila úr ráðinu að fylgja eftir úrlausn hvers máls.
 • Fulltrúar í nemendaverndarráði eru bundnir þagnarskyldu um allt er varðar persónu-upplýsingar um skjólstæðinga ráðsins. Þagnarskylda nær ekki til atvika sem ber að tilkynna lögum samkvæmt og eru rétthærri en þagnarskylduákvæði.
 • Tilkynna skal þeim er vísar máli til nemendaverndarráðs, og eftir atvikum foreldrum, um afgreiðslu þess.