Móttökuáætlanir

1.     bekkur

Öflugt samstarf er á hverju skólaári við leikskólann Bergheima. Umsjónakennari 1. bekkjar og deildarstjóri á elstu deild funda að hausti með stjórnendum og gera áætlun varðandi samstarf vetrarins. Reglulegar heimsóknir eru milli nemenda þar sem nemendur leikskólans koma í grunnskólann og nemendur grunnskólans koma í leikskólann. Einnig vinna nemendur að ýmsum verkefnum saman og taka þátt í uppákomum (sjá nánar í námskrá, samstarf leik- og grunnskóla). Skilafundir eru milli leik-og grunnskóla þar sem kennarar fara yfir ræða styrk- og veikleika allra nemenda, stuðning og námsáætlanir.  Markmiðið með samstarfinu er að auka samfellu í námi nemenda frá leik- og grunnskóla og auka faglegt samstarf leik- og grunnskólakennara.

Á skólasetningadag og fyrsta skóladag eru nemendur og foreldrar í 1. bekk boðaðir í viðtal til umsjónarkennara. Í viðtalinu er rætt um væntingar foreldra og nemenda til skólans. Farið er yfir hvort nemendur hafa einhverjar sérþarfir. En auk þess er foreldrum kynnt starfsemi skólans, aðgangur að Mentor, skólamáltíðir, bekkjarfélaga, stundaskrá, heimasíðu skólans og annað sem kemur upp í umræðunni.

Í  september er kynningafundur fyrir foreldra í 1. bekk, þar er skólinn kynntur, foreldrafélag, stoðþjónusta, áherslur í samskiptum og kennslu. Stjórnendur skólans eru á þessum fundi ásamt umsjónarkennara og umsjónarmanni stoðþjónustu. Á þessum fundi er boðið upp á súpu og áhersla er á notalega samveru og góð samskipti.

2.     Móttaka nýrra nemenda í 2.-10. bekk

Um leið og foreldri/forráðamaður skráir barn í skólann fá skólastjórnendur umsóknina til vinnslu og ákveða hvaða bekkjardeild nemandi á að fara. Nemandi og foreldri eru boðuð á fund umsjónarkennara og skólastjórnanda þar sem farið er yfir upplýsingar um nemandann og sérþarfir hans ef einhverjar eru og síðan er þeim er kynntur skólinn og starfsemi hans. Umsjónarkennari hefur einnig samband við fyrri skóla til að fá upplýsingar um stöðu nemandans.  Umsjónarkennari ber ábyrgð á því að koma nauðsynlegum upplýsingum varðandi nemandann til annarra kennara og starfsfólks. Ef nemandi byrjar nýr í byrjun skólaárs fer þessi fundur og kynning fram nokkrum dögum fyrir skólasetningu þar sem tekið er á móti öllum nýjum nemendum. Farið er yfir öll þau atriði sem varða skólagöngu nemandans s.s. starfsemi skólans, aðgang að Mentor, skólamáltíðir, bekkjarfélaga, stundaskrá, félagsstörf, heimasíðu skólans og annað sem kemur upp í umræðunni. Bekkjarfélögum er tilkynnt um komu nýs bekkjarfélaga áður en hann kemur og þau undirbúin fyrir móttöku hans ef nemandi hefur nám eftir að skóli hefst að hausti.

Þegar nemandi hefur verið í skólanum í nokkrar vikur boðar námsráðgjafi hann til viðtals til að ræða aðlögun og líðan nemandans.

3.     Móttaka erlendra nemenda

Í Grunnskólanum í Þorlákshöfn er leitað leiða til að koma til móts við þarfir nemenda af erlendum uppruna. Í viðtölum við foreldra og/eða nemendum er fenginn túlkur sem talar móðurmál nemandans sé þess þörf. Umsjónarkennari ber höfuðábyrgð á að starfsmenn og bekkjarfélagar viti af og búi sig undir komu nýja nemandans. Stuðningskennsla í íslensku er fyrir nemendur af erlendum uppruna þar sem áherslan er einkum á að efla orðaforða og skilning í íslensku. Einnig er lögð áhersla á við foreldra að nemendur í 1.-4. bekk séu í Frístund til að auka veru þeirra í íslensku málumhverfi og auka þannig möguleika þeirra til að tileinka sér íslensku. Lögð er áhersla á að virðing fyrir ólíkum uppruna nemenda í skólanum sé í hávegum höfð.  Einnig er lögð áhersla á við foreldra að nemendur viðhaldi tengslum við uppruna sinn, menninguna og tungumálið. Mikilvægt er að allir nemendur séu stoltir af bakgrunni sínum.

3. Móttökuáætlun nýrra starfsmanna

Mannauðurinn í skólanum er mikilvægur hlekkur í farsælu skólastarfi. Tekið er á móti nýjum starfsmönnum með formlegum hætti og eftir ákveðinni áætlun. Forkynning á skólanumer fræðsla um stofnun og starfið sem nýliðinn fær á því tímabili sem líður frá ráðningu og til þess tíma að störf hefjist. Margt getur fallið hér undir s.s. heimasíða, innra net og svo sending á skjölum til nýliðans eins og t.d. stefnuskjöl, vinnuferlar og fleira. Einnig  geta stjórnendur  haft beint persónulegt samband við viðkomandi og komið í leiðinni notadrjúgum upplýsingum á framfæri. Nýr starfsmaður fær starfsfóstra sem hefur það hlutverk að framfylgja móttökuáætlun. Hann getur verið skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, deildarstjóri stoðþjónustu, leiðsagnarkennari eða húsvörður. Móttökuáætlun má sjá í heild sinni með því að smella hér.