Eineltisáætlun

Skilgreining á einelti
Einelti er skilgreint sem síendurtekin eða óvelkomin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Í reglum Grunnskólans í Þorlákshöfn er skýrt tekið fram að; við eigum að sýna hvert öðru fyllstu kurteisi, tillitsemi og virðingu og koma fram af prúðmennsku. Við eigum aldrei að beita ofbeldi eða leggja í einelti og slíkt er ekki liðið í skólanum.

Í Grunnskólanum í Þorlákshöfn er starfandi eineltis- og samskiptateymi.

Hlutverk teymis; er að leita lausna þegar grunur um einelti kemur upp. Teymið hefur umsjón með vinnu eineltismála innan skólans og veitir starfsfólki, nemendum og foreldrum leiðsögn og stuðning við greiningu og úrlausn. Eineltis- og samskiptateymið vinnur eftir sérstöku ferli/áætlun sem hægt er að nálgast hér inni á heimasíðunni. Markmið með eineltisáætlun er að starfsfólk, börn/ungmenni og foreldrar verði meðvitaðri um einelti, þannig að þeir þekki einkennin, geti brugðist við þeim og viti hvert skal leita.

Eftirfarandi skipa eineltis- og samskiptateymið:
Unnur Ásbergsdóttir, formaður

Garðar Geirfinnsson

Anna Berglind Júlídóttir

Torfi H. Björnsson

Anna Sigríður Einarsdóttir

 

Ábyrgð heimila
Grunnur að góðum samskiptum er lagður á unga aldri og eru foreldrar bestu fyrirmyndir barna sinna. Foreldrar eru hvattir til að ræða reglulega um samskipti og líðan við börn sín. Ef þeir hafa áhyggjur af líðan barnanna er mikilvægt að hafa strax samband við skólann og einnig ef þeir hafa grun um einelti í bekknum eða skólanum. Gott samstarf og upplýsingaflæði milli heimila og skóla er grundvöllur þess að vel gangi að sporna við einelti.

Eineltisáætlun

Í lögum um Grunnskóla á Íslandi segir m.a.;

Í 30. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008:

 … Grunnskólar skulu hafa heildstæða stefnu um það hvernig fyrirbyggja eigi að líkamlegt, andlegt eða félagslegt ofbeldi eigi sér stað í skólastarfi. Skólar skulu einnig hafa áætlun um framkvæmd tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum, um hvernig brugðist er við tilvikum um einelti, annað ofbeldi og félagslega einangrun. Áætlun skal m.a. framfylgt með því að hver skóli setji sér skólareglur. Í skólareglum skal m.a. kveðið á um almenna umgengni, samskipti, stundvísi, ástundun náms og heilbrigðar lífsvenjur. Þá skal í skólareglum koma fram hvernig skólinn hyggst bregðast við brotum á þeim.

Í 7. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr.1040/2011 :

Aðgerðir skóla gegn einelti taka til skólans í heild, einstakra bekkjardeilda, námshópa og einstaklinga. Hver kennari ber ábyrgð á að framfylgja með virkum og ábyrgum hætti aðgerða-áætlun skólans gegn einelti og skólastjóri ber ábyrgð á að starfið sé samhæft.

Einelti er aldrei liðið í Grunnskólanum í Þorlákshöfn.

Með því að smella hér má sjá verkferla eineltismála sem upp koma

Með því að smella hér má fá upp eyðublað til að tilkynna einelti.