Valgreinar í 8. - 10. bekk

Valgreinar í 8. –10. bekk 2018-2019

Valgreinar eru hluti af skyldunámi nemenda í 8.- 10. bekk. Tilgangur með valfrelsi nemenda á unglingastigi er að hægt sé að aðlaga námið sem mest að þörfum einstaklingsins og gera hverjum og einum kleift að leggja eigin áherslur í námi (Aðalnámskrá grunnskóla).

Hver nemandi í 8. –10. bekk á að hafa 37 kennslustundir í sinni stundaskrá. Nemendur í 8. bekk geta valið 5 kennslustundir af þessum 37 en nemendur í 9. og 10. bekk geta valið 7 kennslustundir af 37.

Heimilt er að meta reglubundna þátttöku í félagslífi, íþróttum eða skipulögðu starfi utan skóla.  Einnig er heimilt að meta skipulagt nám utan grunnskóla s.s. nám við framhaldsskóla, listaskóla eða málaskóla. Nemendur geta fengið 2 kennslustundir metnar fyrir slíkt nám og þurfa því aðeins að velja 3-5 kennslustundir á viku. Foreldrar bera ábyrgð á þátttöku nemenda í slíku starfi.

 Valgreinar í boði skólaárið 2018-2019

 Dans

Í dansi verður lögð áhersla á sköpun og freestyle dans. Nemendur semja dansa saman og læra grunnspor í freestyle dansi og nútíma dansi. Hópurinn kemur fram á dansýningu skólans að vori.

Kennari: Anna Berglind, danskennari

Vinnustofuval

Valgrein þar sem nemendur geta fengið aðstoð í bóklegum greinum. Unnið upp það sem ekki næst að vinna í kennslustundum og unnin verkefni eins og t.d. ritgerðir og önnur heimaverkefni. Hægt er að velja þessa grein til 1 eða 2 kennslustunda. Eftir því sem nemandinn telur þörf á.

Kennarar: Sigþrúður Harðardóttir og Lára Hrund Bjargardóttir

Skrautskrift

Kennsla í snyrtilegri rithönd og skrautskrift. Unnið verður að ýmsum skreytingaverkefnum t.d. tækifæriskortum, nafnspjöldum og fl. Nemendum verður kennt að nota sniðpenna og ýmis áhöld til þess að skrifa og skreyta með.

Kennari: Sigþrúður Harðardóttir

Íþróttir og útivist

Lögð er áhersla á hreyfingu úti við. Farið verður í nokkrar lengri og styttri göngur. Til dæmis í Reykjadal, Geitafell og á Esjuna. Einnig farið í lengri göngu og e.t.v gist eina nótt. Að auki verður áhersla á sund, hlaup og hjólreiðar. Nemendur þurfa að eiga góða gönguskó og helst hjól. Þá verður nemendum kennt á hvaða búnaður og reglur eiga við í fjallgöngum, hjólaferðum o.s.frv. Kennt verður í tímabilum að hausti og vori. Reiknað er með að valgreinin verði kennd mest að hausti og vori. Þá verði kennt í lengri tíma í einu. Frí verði á móti t.d. á tímabilinu nóv—mars. Nemendur fá áætlun að hausti þar sem tímabilin verða kynnt frekar.

Kennarar: Lára Hrund Bjargardóttir og Hólmfríður Fjóla Smáradóttir

 Skólakór

Hefðbundin kóralög í bland við nýrri tónlist sungin. Nemendur fá tækifæri til að æfa söng í hljóðnema og raddaðan söng.

Kennarar: Gestur Áskelsson og Sigríður Kjartansdóttir

Jóga

Jóga- og öndunaræfingar, hugleiðsla og slökun geta m.a. dregið úr kvíða, bætt einbeitingu og róað hugann. Jóga eflir persónulega tengingu við okkur sjálf. Í valgreininni munu nemendur gera léttar jóga- og öndunaræfingar, prófa hugleiðslu og í lok hvers tíma er farið í slökun. Einnig verða gerð ýmis verkefni sem tengjast sjálfsmynd, samkennd og þakklæti. Sé jóga stundað reglulega getur það gefið okkur aukinn liðleika og styrk, betri einbeitingu, sterkari sjálfsmynd, gleði og ró. Hámarksfjöldi 10 nemendur.

Kennari: Berglind Ósk, sálfræðinemi og jógakennari

Forritun

Nemendur læra um undirstöðuatriði forritunar og vinna einföld forritunarverkefni. Í forrituninni verður notast við forritin Scratch, Touch develop, Minecraft o.fl. Unnin verða skipulögð og frjáls verkefni í Minecraft sem reyna á sköpun, rýmisgreind og útsjónarsemi.

Kennari: 

Leikskólaval 2 kennslustund

Nemendur fá að kynnast faglegu starfi á leikskóla, vinna verkefni með nemendum og kynnast hvað felst í starfi leikskólakennara. Lögð er áhersla á frjálsan leik með nemendum, lestur, málörvun og sköpun. Athugið að aðeins er hægt að bjóða 10 nemendum upp á þessa valgrein.

Kennari: Leikskólakennarar á Bergheimum

  8. bekkur velur á milli

___Textílmennt

___Smíði

 

Einungis í boði fyrir 9. og 10. bekk

Heimilisfræði

Lögð verður áhersla á að nemendur þjálfist í að matreiða og baka samkvæmt ráðleggingum Lýðheilsustöðvar og efli sjálfstæð vinnubrögð. Nemendur fá fræðslu um ýmsa þætti neytendamála, og heilbrigða lífshætti. Einnig verður lögð áhersla á að nemendur geti greint helstu þætti sem hafa áhrif á útgjöld við heimilishald og geti metið eigin neysluvenjur.

Kennarar: Emma Katrín Garðarsdóttir og Daðey Ingibjörg Hannesdóttir

Smíði/málmsmíði

Ýmis verkefni í trésmíði og málmsmíði unnin. Bæði unnið með skylduverkefni sem kenna ákveðin vinnubrögð og frjáls verkefni sem kalla á sköpun nemenda.

Kennarar: Torfi Hjörvar og Gestur Áskelsson

Textílmennt

Lögð áhersla á saum, prjón og önnur textílverkefni. Nemendur vinna ákveðin skylduverkefni sem kenna ákveðin vinnubrögð og frjáls verkefni sem kalla á sköpun nemenda. Einnig verður unnið með endurnýtingu á fatnaði og litun.

Kennari: Guðbjörg Bergsveinsdóttir

Myndmennt

Málun, leir, teiknun og fleiri leiðir til sköpunar sjónlista kynntar. Kennd vinnubrögð og tækni auk þess sem mikil áhersla er á sköpun nemenda.

Kennari: Anna Margrét Smáradóttir

Leiklist

Leiklistarval þar sem nemendur taka þátt í uppsetningu leiksýningar/söngleiks sem ákveðin er í samráði kennara og leikhópsins. Verkefnið felst í undirbúningi, æfingum og leiksýningu með öllum þeim verkefnum sem þarf að leysa fyrir eina leiksýningu (leikur, söngur, búningar, tónlist, kynning, lýsing o.fl.). Athugið að valgreinin er kennd í tímabilum en ekki endilega fasta tvo tíma á viku.

Kennari: Magnþóra Kristjánsdóttir