Dvergaheimar - gönguferð í móanum

Síðustu tvær vikur höfum við farið í gönguferð í móann við Bergin.  Börnin hafa notið þess að reyna á sig í ójöfnum í þúfum og möl og takmarkið er að komast að stórum moldarhaug þar sem gaman er að klifra og hoppa.  Við hauginn er myndarlegur bobbingur og hafa börnin eytt góðum tíma í  að rannsaka hann vel og vandlega og gefur hann börnunum margskonar hugmyndir að sjálfssprottnum leik.  Það var gaman að kíka í gegnum gatið og sjá hvað leynist í honum og svo fengu þau þá hugmynd að safna prikum og hræra í bobbingnum.

Með því að fara í móann, þá þurfum við aldrei að fara yfir götu og erum allan tímann í öruggri fjarlægð frá umferðinni.  Þá gefum við börnunum frelsi til að ganga á eigin forsendum og leyfum þeim svolítið að stýra ferðinni og sjá hvert forvitnin og áhuginn dregur okkur.  Sum börn vilja hlaupa, önnur fara hægar yfir og þá dreifir starfsfólkið sér á hópinn þannig að allir fá eitthvað úr ferðinni.