Foreldrafélag Grunnskólans gefur góðar gjafir

Foreldrafélag Grunnskólans hefur nú gefið skólanum fimm sett af Osmo kennslutækjum að virði 75.000 kr.  Osmo er margverðlaunað leikja- og kennslutæki fyrir Ipad.  Í grunnpakkanum er standur fyrir Ipadinn og lítill spegill sem settur er yfir myndavélina, hann nemur það sem gert er fyrir framan skjáinn hvort heldur sem er með penna, hreyfingu, púslukubbum, bók- eða tölustöfum. 

Það sem gerir Osmo leikina sérstaka er að í þeim er leikið með áþreifanlega hluti, notandinn handleikur púslukubba, tölu- og bókstafi, skriffæri og fleira til að hafa áhrif á það sem gerist á skjánum. Í leikjunum er m.a. hægt að púsla saman myndum úr formum, vinna með stafi, orð og tölur, þjálfa fínhreyfingar og rökhugsun, teikna, skapa og gera tilraunir.

OSMO er hannað fyrir börn á aldrinum frá 5-13 ára en bæði yngri og eldri einstaklingar geta haft gaman af að spreyta sig. Leikirnir þróa skilningarvitin og hreyfifærnina, auk þess sem þeir þjálfa rökhugsun, hljóðkerfisvitund og stærðfræði.

Við þökkum stjórn foreldrafélagsins kærlega fyrir þessa góðu gjöf sem mun án efa nýtast vel í kennslu.

Á meðfylgjandi mynd eru Hildur M. Jónsdóttir formaður foreldrafélagsins, Hallfríður Snorradóttir gjaldkeri foreldrafélagsins, Daníel Ingi Andrason nemandi í 2. bekk, Eva Karen Ragnarsdóttir nemandi í 3. Bekk og Ólína Þorleifsdóttir skólastjóri.