Fríríkið Þorpið

Grunnskólinn í Þorlákshöfn breytist í fríríkið Þorpið dagana 23.-25. maí. Þorpið er samfélag þar sem börn og ungmenni sjá um alla verðmætaframleiðslu, stjórna hagkerfinu og láta hjól atvinnulífsins snúast áfram. Þorpið á sinn eigin gjaldmiðil sem heitir Þollari.

Miðvikudaginn 25. maí kl. 11 opnar Þorpið fyrir gesti og gangandi. Þá geta öll sem vilja keypt sér gjaldmiðil Þorpsins, Þollara og gert kostakaup í verslun og þjónustu í Þorpinu.

Í Þorpinu kennir ýmissa grasa. Hægt verður að njóta leikhúsupplifunar, kaupa skartgripi, listaverk, plöntur, fara í leiktækjasal og nytjamarkað, spila minute to win it þrautir, gæða sér á gómsætum veitingum á kaffihúsinu eða kaupa bakkelsi úr bakaríinu til að taka með sér heim. Þetta er aðeins brot af því sem gestir og gangandi eiga von á.

Það verður banki á staðnum og þú færð 2000 Þollara fyrir 1000 isk. Allur ágóði Þorpsins rennur til Úkraínu í gegnum starf Rauða krossins.

Verið öll hjartanlega velkomin í Þorpið, miðvikudaginn 25. maí á milli 11-13. Athugið að vinsælustu vörurnar seljast hratt og hér gildir fyrstir kaupa fyrstir fá.