Glæsileg danssýning

Það eru ákveðin forréttindi að í Grunnskólanum í Þorlákshöfn sé markviss danskennsla sem fer fram í 1.-7. bekk og í vali í 8.-10. bekk. Afrakstur þeirrar kennslu er til að mynda glæsileg danssýning sem Anna Berglind danskennari skipuleggur árlega af mikilli fagmennsku og dugnaði.  Danssýningin er hugsuð fyrir foreldra, aðra aðstandendur og gesti. Hún var að þessu sinni haldin fimmtudaginn 3. maí og tókst afskaplega vel. Aðdáun vakti hversu börnin komu vel undirbúin og nutu þess að sýna dansana. Að þessu sinni voru það zumba, línudans og free-style dansar sem voru sýndir.