Grunnskólinn í Þorlákshöfn hlaut Grænfánann í fjórða sinn í dag, í blíðskapar veðri

,, Kæru nemendur og starfsfólk - til hamingju með nýja grænfánann. Við náðum því takmarki að endurnýja fánann og ættum að vera stolt af því sem heild. Hver og einn skiptir máli í þessu verkefni og núna verður bara næsta verkefni að fá hann aftur eftir tvö ár. Við erum búin að standa okkur vel í matarsóunarverkefninu en það er alltaf hægt að gera betur og á þessum næstu tveim árum ætlum við að gera það, eða allavegana þið, því ég verð hér ekki eftir tvö ár svo það er eins gott að þið standið ykkur, enginn pressa.
Það eru allir líka búnir að vera duglegir að flokka, hér í skólanum og vonandi líka heima hjá sér. Að mínu mati er grænfáninn ekki bara eitthvað sem bara skólinn vinnur að. Mér finnst að sveitarfélagið allt hafi unnið hann, það er nefnilega ekki bara grunnskólinn sem hefur verið duglegur að vinna með flokkunarstöðvar heldur líka íþróttahúsið, leikskólinn og ráðhúsið og svo er búðin farin að lána fjölnota innkaupapoka svo mér finnst að allt sveitarfélagið eigi heiður af þessu verkefni.
Við í umhverfisnefnd skólans erum nemendur frá 1. bekk til 10. bekkjar og svo nokkrir starfsmenn. Umhverfisnefndinni er stjórnað af Önnu Margréti og hefur hún gert það með prýði. Við í nefndinni erum búin að gera margt þetta skólaárið til að halda fánanum. Við skrifuðum t.d. upp hvað okkur finnst gott að borða og hvað okkur fyndist vont og hengdum það upp á vegg til að koma í veg fyrir meiri matarsóun. Svo skrifuðum við umhverfisorð skólans sem eru: hamingjan er okkar, flokkun rokkar!
Akkúrat núna eru bekkir skólans að skipta sér í hópa og skipta bænum á milli sín og tína rusl á þeim stöðum sem þau fengu og eftir því sem ég hef séð finnst mörgum það alveg ágætt. Ég held að þeim leiðist allavegana ekki því á miðvikudaginn þegar einhverjir bekkir voru að tína rusl heyrði ég marga krakka syngja HATRIÐ MUN SIGRA með ruslapokann á lofti og voru alveg í sínum heimi.
En allavega, ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég vil þakka öllu þeim sem hafa unnið að grænfánanum og öllum sem eru að gefa okkur grænfánann. Núna er bara að halda áfram að vera dugleg því við megum ekkert hægja á okkur. Eins og Anna Margrét segir þá skipta litlu hlutirnir máli. Við þurfum ekki að fá okkur rör á veitingarstöðum, allir þessir hlutir skipta máli. Við eigum bara eina jörð og bara það að svona lítið bæjarfélag sé að gera þessa hluti getur skipt meira máli en við höldum. Eins og slagorð skólans segir vinátta virðing og velgengni.´´

Þannig hljómuðu þau orð og er ekki laust við að tár hafi myndast á hvarmi nokkurra stoltra starfsmanna við Grunnskólann í Þorlákshöfn. En við höfum unnið að því síðustu tvö ár að fá Grænfánann endurnýjaðan. Matarsóunarverkefnið varð ofaná, enda algjörlega stórkostlegt verkefni. Mikil vinna hefur verið unnin og það er óhætt að segja að allir eru tilbúnir í þessa vinnu. Búið er að leggja grunninn á Leikskólanum Bergheimum og aðrir, sem ekki hafa verið þar við leik og störf, eru fljótir að fylgja með.

Í dag var svo komið að því að taka á móti viðurkenningu úr höndum Katrínar Magnúsdóttur, verkefnisstjóra Skóla á grænni grein á vegum Landverndar. Katrín mætti til Þorlákshafnar í blíðskapar veðri og þótti tímasetninginn henta vel þar sem dagurinn í dag og á mánudaginn eru helgaðir umhverfinu.

Það voru þær Ólína Þorleifsdóttir, skólastjóri og Katrín Magnúsdóttir, verkefnisstjóri sem ávörpuðu hópinn, yngri skólakórinn söng skólasönginn og Sigríður Fjóla Þórarinsdóttir, nemandi í 9. bekk grunnskólans og fulltrúi í umhverfisnefnd flutti ávarpið sem birtist hér efst. Að lokum var Grænfánanum flaggað í fjórða skiptið.

Til hamingju Grunnskólinn í Þorlákshöfn og eins og Sirrý Fjóla sagði svo fallega, til hamingju Sveitarfélagið Ölfus.