Haustferðir

Í síðustu viku fóru nemendur allra bekkjadeilda í haustferðir. Lagt var af stað snemma morguns í rútu frá Grunnskólanum í Þorlákshöfn.

Nemendur elsta stigs byrjuðu á að fara að Ljósafossvirkjun í Soginu við Úlfljótsvatn sem er með eldri virkjunum landsins, gangsett 1937. Í húsakynnum stöðvarinnar er gagnvirk orkuvísindasýning sem ber heitið Orka til framtíðar. Þemu sýningarinar er raforkan sjálf, hvaða áhrif hún hefur á okkur og samfélagið.
Þaðan var ekið Grafninginn og Nesjavallaleið og stoppað við Ölkelduháls og hádegisverður borðaður. Síðan var gengið niður Reykjadalinn með viðkomu í heitu laugunum.
Á leiðinn stýrði Garðar spurningakeppni tengdri náttúrunni af miklum myndugleik.

Nemendur miðstigs óku sem leið lá til Krýsuvíkur, borðuðu þar nesti og skoðuðu sig um á hverasvæðinu. Þaðan lá leiðin í Selvoginn. Strandarkirkja var skoðuðu og saga hennar sögð, farið í fjöruna og síðan voru eyðibýlin skoðuð.
Að lokum voru grillaðar pylsur og krakkarnir fengu tíma til að skoða sig um, klappa hestunum, fara í fótbolta og njóta verðurblíðunnar.

Nemendur 3. og 4. bekkjar fóru í Hveragerði og heimsóttu Kjörís. Þar fengu þeir fræðslu um hvernig ís er búinn til og að sjálfsögðu ís til að gæða sér á. Þaðan var farið í Lystigarðinn, hann skoðaður, nestið borðað og farið í leikinn „Þolló got Talent." Síðan var brunað í Ljósafossvirkjun.

Nemendur 1. og 2. bekkjar heimsóttu Kjörís og fóru þaðan í Ljósafossvirkjun. Krakkarnir vörðu drjúgum tíma í að skoða sýninguna enda er þetta „fjölbreytt og fræðandi sýning sem veitir orkuboltum á öllum aldri tækifæri til að safna saman rafeindum, dæla úr lónum, fanga vindinn og lýsa upp heiminn á 120 árum. Gestir geta leyst orku sína úr læðingi með því að nota eigin þyngd, styrk og afl." Eins og segir í kynningabréfi til foreldra frá umsjónarkennurum.

Það er ekki annað að heyra á nemendum og starfsfólki skólans að ferðirnar hafi tekist mjög vel. Nemendur skemmtu sér konunglega og komu margs vísari heim úr ferðunum um: Orkuvísindi, náttúru, sögu, nærumhverfið og ísgerð.

Ýtið hér til að sjá myndir úr ferðunum