Hugarfrelsi í 5., 6. og 7. bekk

Hugarfrelsi er kennt í 5. 6. og 7. bekk skólans og í smiðju/vali á unglingastigi. Í Hugarfrelsi er lögð áhersla á öndun, slökun, hugleiðslu og sjálfsstyrkingu. Aðferðirnar eru kenndar í gegnum leiki og fjölbreyttar æfingar sem henta hverju aldursstigi fyrir sig. Aðferðir Hugarfrelsis hafa hjálpað mörgum að viðhalda hugarró og góðri líðan. Þær draga úr kvíða og streitu, efla sjálfstraust og jákvæðni sem eru mikilvægir þættir í ástandinu sem nú ríkir í samfélaginu.

 Mikilvægt er að geta beitt einföldum aðferðum sem hjálpa við að takast á við áreitið sem fylgir snjalltækjum, hraðann í samfélaginu, vanlíðan, samanburð, fullkomnunaráráttu og kvíða svo börnin eigi auðveldara með að vera besta útgáfan af sér.

Aðferðir Hugarfrelsis getur barnið notað í daglegu lífi meðal annars til að:

  • Velja jákvæðni umfram neikvæðni
  • Orða tilfinningar sínar
  • Koma auga á styrkleika sína
  • Velja að vera jákvæður leiðtogi
  • Anda djúpt þegar tilfinningar ná yfirhöndinni
  • Slaka á og hugleiða

Tímarnir byggjast upp á fræðslu og stuttum verkefnum. Síðan koma börnin sér vel fyrir, kveikt er á tónlist og farið er í gegnum öndunar- og slökunaræfingar og endað á hugleiðslusögu. Í lok hvers tíma er dregið spjald með jákvæðri staðhæfingu. Á spjaldinu er leiðbeinandi setning sem barnið getur valið að fylgja þar til það mætir aftur viku síðar.

 

Öndun

Markvissar öndunaræfingar auka vellíðan og draga úr kvíða, streitu eða tilfinningasveiflum.

 

Slökun

Ávinningur af slökunaræfingum er aukin hvíld bæði fyrir líkama og huga, auk þess sem andleg og líkamleg vellíðan eykst.

 

Hugleiðsla

Hugleiðslusögur Hugarfrelsis byggja á núvitund og sjónsköpun. Ávinningur núvitundar og hugleiðslu á andlega heilsu er mikill en nefna má aukna einbeitingu og hugarró. 

 

Sjálfsstyrking

Sjálfsstyrkingaræfingar ýta undir jákvæða sjálfsmynd, auka sjálfstraust, jákvæðni og draga úr samanburði.

 

Allar þessar aðferðir efla einbeitingu og skila okkur glaðari einstaklingum út í lífið.

 

Námið í Hugarfrelsi er m.a. byggt á bókunum:

  • Hugarfrelsi – Aðferðir til að efla börn og unglinga
  • Hugarfrelsi – Kennsluleiðbeiningar
  • Veldu

 

Hugarfrelsi er einnig með hlaðvarp með slökunar og hugleiðsluæfingum og má nálgast það á helstu podcast-veitum. Ég hvet ykkur til að prufa heima því aðferðir Hugarfrelsis hafa jákvæð og fyrirbyggjandi áhrif bæði á börn og fullorðna.

 

Kærleikskveðja

Helga