Hugrakt og hæfileikaríkt ungt fólk í Skjálftanum 2025

Hæfileikakeppnin Skjálftinn 2025 fór fram um helgina við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu í Þorlákshöfn. Þetta var í fimmta sinn sem þessi öfluga menningarhátíð sunnlenskra ungmenna er haldin. Ungmenni úr 8.–10. bekk grunnskóla á Suðurlandi stigu á svið og fluttu fjölbreytt og áhrifarík sviðsverk með sterkum samfélagslegum boðskap.

Hátíðin einkenndist af samkennd, hugrekki, vináttu og samstöðu og þar kom skýrt fram hversu öflugt ungt fólk er á Suðurlandi.

Verðlaunahlutar Skjálftans 2025:

  • 1. sæti: Vallaskóli -  Litríkir skuggar

  • 2. sæti: Grunnskólinn í Hveragerði - Þori, get og vil

  • 3. sæti: Reykholtsskóli – Steríótýpur

Frá okkar skóla tók stór hópur nemenda þátt með áhrifaríku atriði um alvarleika eineltis. Þjálfarar hópsins voru Arna Dögg og Aðalheiður Anna. Við óskum þeim og öllum nemendunum innilega til hamingju með glæsilega frammistöðu og þá fjölmörgu persónulegu sigra sem unnust með þátttöku í verkefninu.

Hægt er að horfa á öll atriði Skjálftans 2025 á vef RÚV - Hæfileikaríkir krakkar í Skjálfta á Suðurlandi - RÚV.is

Skjálftinn er samfélagslegt verkefni með sjálfbærni að leiðarljósi. Styrktaraðili Skjálftans er SASS – Samband sunnlenskra sveitarfélaga og framkvæmdastjóri var Halldóra Rut Baldursdóttir.