Jólasamvera 1. bekkjar og leikskólanna Bergheima og Hraunheima

Á aðventunni hefur skapast falleg hefð fyrir því að elstu leikskólabörnin heimsæki nemendur í 1. bekk í Grunnskólanum og eiga þau saman skemmtilega jólastund. Skólastjóri les jólasögu og börnin eiga saman góða stund í leik og samveru.

Ólína, skólastjóri las frumsamda sögu um tölvusjúka jólasveina sem voru hættir við að færa börnum dót í skólann vegna þess að þeir vildu helst horfa á YouTube og spila PlayStation. Stúfur var ekki ánægður með þetta og sendi bréf til Ólínu sem fékk kennara í 1. bekk og á leikskólunum til að bjarga málunum. Sagan segir frá skemmtilegum björgunarleiðangri kennaranna sem að sjálfsögðu endaði með því að allt fór vel og börnin geta nú verið viss um að jólasveinarnir muni færa stilltum börnum glaðning í skóinn sinn fyrir jólin.

Myndirnar við söguna teiknaði hæfileikarík stúlka í 10. bekk, Gabríela Wiium. Þetta er í annað sinn sem hún skreytir jólasöguna með myndum sínum og fylgja þær með fréttinni. Ljóst er að þessi unga listakona á framtíðina fyrir sér.