Námsörðugleikar og sjálfsmynd

Þann 8. sept. fengum við góðan gest í skólann. Það var Finnur Andrésson trésmiður og fyrrum nemandi hér við skólann. Hann bauð nemendum í 7.-10. bekk upp á erindi sem ber yfirskriftina „Námserfiðleikar, ADHD og sjálfsmynd".

Finnur sagði nemendum frá veikleikum sínum í námi, hvernig hann brást við þeim og hvaða áhrif þeir höfðu á sjálfsmynd hans. Sem dæmi var Finnur til 25 ára aldurs að fela það fyrir umhverfinu að hann væri lesblindur. Hann spurði nemendur hverjum þeir teldu að hann hafi verið að fela vandann fyrir? Ekki stóð á svarinu: „Fyrir þér sjálfum".

Í dag hefur Finnur horfst í augu við vanda sinn og er hættur að skammast sín fyrir hann.

Hann hefur fundið sínar leiðir; hann fær t.d. aðra til að lesa upphátt fyrir sig mikilvæga pappíra. Þá hefur hann einnig fundið sína leið til að fá útrás fyrir þá miklu orku sem ADHD hefur í för með sér. Hann benti krökkunum á að það væri enginn góður í öllu, en allir væru góðir einhverju. „Ef okkur langar eitthvað í lífinu verðum við að leggja á okkur fram. Við getum fengið aðstoð en þurfum samt sjálf að vinna að markmiðum okkar." Einstaklega mikilvæg skilaboð frá Finni!

Erindið var fróðlegt og skemmtilegt og nemendur voru mjög áhugasamir.

Við þökkum Finni innilega fyrir þetta nauðsynlega erindi sem greinilega náði vel til þeirra sem hlýddu á.