Ólína Þorleifsdóttir ráðin skólastjóri Grunnskólans í Þorlákshöfn.

Gengið var frá ráðningu Ólínu Þorleifsdóttur í stöðu skólastjóra Grunnskólans í Þorlákshöfn í dag á fyrsta bæjarstjórnarfundi nýrrar bæjarstjórnar.

Ólína býr í Þorlákshöfn ásamt manni sínum og þremur dætrum. Hún er mikil fjölskyldumanneskja og hefur mikinn áhuga á að fylgja dætrunum eftir í þeirra áhugamálum.

Ólína býr yfir mikilli reynslu á sviði menntamála og starfaði hún sem kennari við grunnskólann frá 1998 til 2010, þá var hún ráðin sem aðstoðarskólastjóri við Kópavogsskóla. Þar vann hún til 2014 en þá kom hún aftur ,,heim“ og hóf störf hjá Skóla- og velferðarþjónustu Árnesinga. Þar var hún til ársins 2016 en þá tók hún við aðstoðarskólastjórastöðunni af Jóni Sigurmundssyni. 
Ólína hefur lokið B.Ed námi í kennslufræðum, M.ed í menntunarfræði með áherslu á stjórnun og diplómu í sérkennslufræðum.

Ólína tekur við góðu búi af forverum sínum, þeim Halldóri Sigurðssyni og Guðrúnu Jóhannsdóttur. Guðrún sem starfaði sem skólastjóri síðustu 3 ár sagði starfi sínu lausi í vor.

Bæjarstjórn Ölfuss og starfsmenn sveitarfélagsins Ölfuss óska Ólínu innilega til hamingju með nýja starfið og hlakka til áframhaldandi samstarfs við hana, við frekari uppbyggingu og þróun skólastarfs við Grunnskólann í Þorlákshöfn.