Skáld í skólum

Höfundamiðstöð RSÍ býður grunnskólum upp á bókmenntadagskrá undir nafninu Skáld í skólum þar sem höfundar fjalla um bókmenntir af ýmsu tagi. Við höfum fengið slíkar heimsóknir upp á síðkastið þar sem nemendur hafa hlítt á metnaðarfulla og fræðandi dagskrár höfunda á sal. Skáldin hafa talað um bækur og lestur, sköpun og skrif, ævintýri sögupersóna jafnt sem skapara þeirra og síðast en ekki síst til að smita nemendur af ólæknandi lestrar- og sköpunargleði. Rithöfundarnir Blær Guðmundsdóttir og Hilmar Örn Óskarsson hittu yngstu nemendur okkar í síðustu viku, Bergþóra Snæbjörnsdóttir og Bragi Páll Sigurðsson hittu unglingastigið fyrir hálfum mánuði og í morgun hittu Kristín Ragna Gunnarsdóttir og Sverrir Norland nemendur á miðstigi.