Skólaslit skólaársin 2019-2020

Skólaslit fóru fram við hátíðlega athöfn 3. júní. Skólaárið hefur verið viðburðaríkt. Blásið var til nemendaþings til þess að auka lýðræði nemenda í skólanum. Þingið var haldið á alþjóðadegi barna í nóvember. Fjölmargar góðar hugmyndir um skólastarfið komu þar fram og nú þegar eru nokkrar þeirra komnar í framkvæmd.

Við fengum til okkar góða gesti á skólaárinu m.a. frá Forvarnarfræðslu Sniglanna, listamenn frá í verkefninu List fyrir alla, við fengum rithöfunda frá verkefninu Skáld í skólum í heimsókn svo eitthvað sé nefnt. Foreldrafélagið blés til fundaraðar til þess að kynna verkefni um foreldrasáttmála í samvinnu við landsamtökin Heimili og skóla.

Í mars voru skólastarfi settar skorður og það endurskipulagt. Óhætt er að segja að  Kórónaveiran hafi sett strik í reikninginn hjá þjóðinni. Í þær sjö vikur sem mestu hömlurnar vegna samkomubanns stóðu yfir tókst okkur að halda úti daglegu skólastarfi fyrir nemendur en hefðbundin stundaskrá raskaðist verulega.

Við skólaslit í Ráðhúsinu brautskráðust 16 nemendur frá skólanum. Nemendur 8. og 9. bekkja tóku við vitnisburði ásamt útskriftarnemendum. Tveir kennarar láta af störfum við skólann eftir áralangt starf. Það eru Sigríður Guðnadóttir sem hefur kennt við skólann frá því árinu 1995 og Emma Katrín Garðarsdóttir sem hóf störf við skólann árið 1982. Þeim voru færðar þakkir fyrir vel unnin störf.