Þórsmerkurferð á vegum Kiwanisklúbbsins Ölvers í Þorlákshöfn

Fimmtudaginn 9. september lögðu nemendur í 8. og 9. bekk af stað í dagsferð í Þórsmörk. Ferðin er í boði Kiwanismanna en þeir greiða allan kostnað við ferðina með ágóða af jólakassaverkefni klúbbsins.

Tilgangur ferðarinnar er að styðja á jákvæðan hátt við unglinga í skólanum. Þetta er þriðja haustið sem Kiwanismenn bjóða nemendum í ævintýraferð af þessu tagi. Í fyrra var farið í Landmannalaugar. En fyrirhugað er að fara annaðhvort ár í Þórsmörk og hitt árið í Landmannalaugar. Þannig eiga allir nemendur sem útskrifast úr skólanum að hafa fengið tækifæri til að heimsækja þessar tvær náttúruperlu.

Farið var frá skólanum kl. 8.10 og komið heim um kvöldmat. Ferðin tókst vel enda skartaði náttúran sínu fegursta í Þórsmörk og veðrið yndislegt. Dýrindis hádegismatur var framreiddur af Kiwanismönnum sem og grillveisla í lok dags. Nemendur fóru í gönguferð þar sem leiðin lá úr Básum inn í Langadal. Sumir gengu á Valahnjúk en aðrir að Snorraríki.

Óhætt er að segja að ánægðir nemendur hafi snúið heim í lok dags. Kiwanismenn eiga þakkir skyldar fyrir höfðinglegt boð.