Umhverfisnefnd skólans

Umhverfisnefnd Grunnskólans í Þorlákshöfn vinnur að ákveðnum verkefnum á ári hverju til þess að viðhalda Grænfána merkingu grunnskólans og vekja starfsfólk, nemendur og aðstandendur þeirra til umhugsunar um ýmis málefni er snúa að umhverfismennt.
Í ár ætlum við að vinna með vatn. Það verður kynnt nánar síðar.
En við þurfum ávallt að viðhalda eldri verkefnum og fyrir nokkrum dögum fór nefndin í gengum óskilamuni sem safnast hafa upp í skólanum. Nemendur í nefndinni flokkuðu og skoðuðu og fóru með allan merktan fatnað og fatnað sem þeir þekktu til annarra nemenda. Það er skemmst frá því að segja að einungis brot af fatnaðinum var merktur. Það er því mikilvægt að allir staldri við og skoði aðeins fatnaðinn og finni það sem þeirra börn eiga.

Það er einnig vert að minna á fataslána, sem verður staðsett hjá óskilamunum, en þar er fatnaður sem hefur verið gefinn á slána af starfsfólki skólans. Hugmyndin er sú að starfsmenn, nemendur og aðstandendur geta tekið af henni fínar flíkur sem ekki nýtast fyrrum eigendum lengur en hægt er að veita framhaldslíf. Einhvers konar skiptikerfi þar sem hægt verður að koma með flík og taka aðra. Endilega kíkið á þetta og grípið það sem gæti nýst ykkur.