Uppskeruhátíð Grænfánaverkefnis

Í dag, fimmtudag 21. mars, var ákveðið að fagna því að umsókn um fjórða Grænfánann er farin til Landverndar og matarsóunarverkefnið okkar komið vel á veg og nemendur allir meðvitaðir um það. Eftir smá uppleið í kílóatölu (af mat sem er hent) þá höfum við í Umhverfisnefnd rætt við nemendur og eru núna allir meðvitaðir um að fá sér aðeins minna á diskinn sinn og fara frekar aftur. 

Nemendur tóku vel í það að einbeita sér að því að ná matarsóunartölunum niður aftur svo við gætum öll fagnað vel og innilega með góðum mat og köku í dag. Það tókst og var öllum boðið í pizzu, franskar og syndsamlega góða köku.

Eitt er víst að þetta eru allt verkefni sem eru komin til að vera og því mikilvægt að við hjálpumst að við að minna hvort annað á, bæði flokkun sorps og matarsóun.