- Skólinn
- Nemendur
- Foreldrar/forráðamenn
- Stoðþjónusta
- Myndir
- Matseðill
- Gagnlegt efni
Eins og undanfarin ár fóru nemendur í 8. og 9. bekk í útilífs- og ævintýraferð og að þessu sinni í Þórsmörk. Ferðin var í boði Kiwanismanna en þeir greiða allan kostnað með ágóða af jólakassaverkefni klúbbsins. Um er að ræða afar metnaðarfullt verkefni hjá þeim Kiwanismönnum sem við í skólanum erum virkilega þakklát fyrir. Almennt eiga ekki allir unglingar kost á að heimsækja náttúruperlur á borð við Þórsmörk eða Landmannalaugar og fá tækifæri til að upplifa þá stórbrotnu náttúru sem staðirnir búa yfir.
Lagt var af stað snemma morguns 28. september í blíðskaparveðri og keyrt sem leið lá í Þórsmörk. Þegar þangað var komið var boðið upp á kakó og samlokur. Því næst skiptist hópurinn í tvennt en annar hópurinn gekk svokallaðan Básahring með viðkomu í Strákagili en hinn hópurinn gekk á Réttarfell. Að göngu lokinni slógu þeir Kiwanismenn upp myndarlegri grillveislu sem unglingarnir gerðu góð skil. Veðrið var upp á sitt allra besta og Þórsmörk skartaði sínu fegursta.
Tilgangur ferðarinnar er að gefa nemendum tækifæri til að upplifa einstaka náttúru á eigin skinni en í Þórsmörk má m.a. sjá jökla, ár, fjöll og fjölbreyttan gróður. Þá gefur ferðin nemendum okkar tækifæri til að upplifa jákvæð og nærandi áhrif af hreyfingu úti í náttúrunni sem og efla þrautseigju og þol. Síðast en ekki síst felst ómetanlegt tækifæri til að skapa aukin tengsl milli nemenda og skapa jákvæðar sameiginlegar minningar.
Ferðir af þessu tagi eru því ómetanlegar enda sneru þreyttir og sælir nemendur og kennarar heim að loknum frábærum degi. Við færum Kiwanismönnum kærar þakkir fyrir.