Alviðra

AlviðraAlviðra er umhverfisfræðslusetur Landverndar.
Þangað sækja grunn- og leikskólabörn fræðslu og upplifun í náttúruna.
Einkunnarorð Alviðru eru: Fróðleikur, skemmtun, útivist.

Magnús Jóhannesson bóndi í Alviðru gaf Landvernd og Árnessýslu jarðirnar Alviðru í Ölfusi og Öndverðarnes II í Grímsnesi árið 1973 og árið 1981 var gerð skipulagsskrá yfir eignirnar. Alviðra var gerð að sjálfseignarstofnun undir nafninu Alviðra, landgræðslu- og náttúruverndarstofnun, enda eru þar tækifæri til margs konar fræðslu og náttúruskoðunar fyrir skóla og almenning. Þar er húsnæði fyrir allt að 30 manns.

Elstu heimildir sem þekktar eru um búsetu í Alviðru eru frá því um siðaskipti þegar jörðin sem áður var eign kirkjunnar varð konungseign.

Samkvæmt upplýsingum frá Búnaðarsambandi Suðurlands er jörðin Alviðra 651 hektari að stærð. Nokkur hluti jarðarinnar er ógróið land á Ingólfsfjalli.

Veiðiréttur í Sogi fyrir landi Öndverðarness og þó einkum Alviðru hafa verið og eru mikilvæg hlunnindi. Veiðiréttur er nú leigður til Stangveiðifélags Reykjavíkur og Stangveiðifélags Selfoss til fimm ára í senn.

Margt er að sjá í Alviðru og nágrenni. Þegar gengið er í hlíðar Ingólfsfjalls og þar skoðað sæbarið grjót varpar það ljósi á þá staðreynd að sjór stóð mun hærra í lok ísaldar en nú. Úr hlíðum Ingólfsfjalls er gott útsýni og sést m.a. yfir stórárnar þrjár, Sogið, Hvítá og Ölfusá, og ef gott skyggni er má sjá til Heklu, Tindfjalla og Eyjafjallajökuls. Á leiðinni má sjá menningarminjar sem vert er að staldra við og skoða.

Nánari upplýsingar um Alviðru má fá á vefsíðu Landverndar.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?