Lokaúttekt

Hvað er lokaúttekt?
Hún er staðfesting með úttekt byggingarfulltrúa á að byggingu mannvirkis sé lokið og það reist í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Þegar mannvirki er fulllokið og innan þriggja ára frá því að það var tekið í notkun og öryggisúttekt gerð skal gera lokaúttekt á því. Úttektinni er ætlað að ganga úr skugga um að mannvirkið hafi verið reist í samræmi við samþykkta aðal- og séruppdrætti og uppfylli ákvæði mannvirkjalaga og þeirra reglugerða sem framkvæmdina varðar. Hafi mannvirkið ekki verið tekið í notkun fyrir lokaúttekt er hún jafnframt öryggisúttekt. Uppfylli mannvirkið fyrirliggjandi kröfur gefur byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt.

Skv. lögum um mannvirki nr. 160/2010 fer Mannvirkjastofnun með aðgengismál og þar með ferlimál fatlaðra í byggingum. Stefna stjórnvalda er að tryggja aðgengi fyrir alla í sem flestum byggingum. Með aðgengi fyrir alla er átt við að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun mannvirkja á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda og það geti með öruggum hætti komist inn og út úr mannvirkjum jafnvel við óvenjulegar aðstæður eins og til dæmis í eldsvoða. Jafnframt séu sjónarmið algildrar hönnunar höfð að leiðarljósi við hönnun bygginga og umhverfis þeirra.
(Upplýsingar fengnar á vef Mannvirkjastofnunar.

Hér má finna ýmsar leiðbeiningar Mannvirkjastofnunar vegna byggingarreglugerðar og eldvarna í byggingum.

Hverjir geta óskað eftir lokaúttekt?
Byggingarstjóri fyrir hönd eiganda mannvirkis og eftir atvikum eigandi þess geta óskað eftir henni.

Framkvæmd úttektar
Byggingarfulltrúi í samráði við beiðenda ákveður úttektartíma. Viðstaddir úttektina auk byggingarfulltrúa skulu vera fulltrúar slökkviliðs og byggingarstjóri. Byggingarstjóri skal tilkynna iðnmeisturum og hönnuði mannvirkisins um lokaúttektina og gefa þeim kost á að vera viðstaddir. Byggingarstjóri skal jafnframt leggja fram frumrit eða afrit samþykktra uppdrátta sem nota skal við úttektina.

Vottorð um lokaúttekt
Fullnægi mannvirkið þeim kröfum sem gerðar eru lögum samkvæmt og byggt hefur verið í samræmi við samþykkta uppdrætti gefur byggingarfulltrúi út lokaúttektarvottorð sem hann afhendir byggingarstjóra. Niðurstöðu úttektar skráir byggingarfulltrúi í málakerfi sitt.

Hér má finna umsóknar- og eyðublöð skipulags- og byggingarsviðs

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?