Strandarkirkja og Selvogur

Strandarkirkja og Selvogur

Selvogur er lítil sveit og landkostir þar rýrir.  Selvogurinn var lengst af fremur einangrað byggðarlag. Rafmagn komst ekki í sveitina fyrr en eftir 1970 og eingöngu malarvegur lá þangað. Fyrr á öldum var byggðin í Selvogi miklu fjölmennari en nú og var útræði stundað þar mjög mikið á vetrum. Húsarústir, tættur og túngarðar gægjast upp úr jörðinni og gefa innsýn í líf fyrri alda en nú er þar föst búseta á þremur bæjum.

SelvogsvitiSelvogsviti
Selvogsviti var byggður árið 1919 og endurbyggður árið 1931. Ljóshæð yfir sjó er 20 m.

Árið 1919 var 15 metra há járngrind reist á Selvogstanga. Á hana var látið 3,3 metra hátt ljóshús og 200°díoptrísk1000 mm linsa og gas-ljóstæki. Inn á milli hornstoða grindarinnar var komið fyrir steinsteyptri gashylkjageymslu en efst undir svölum var skýli utan um stiga upp í ljóshúsið. Vitinn var sömu gerðar og Stokksnesviti sem reistur var árið 1922. En eftir aðeins rúm 10 ár var vitinn orðinn svo ryðbrunninn að nauðsynlegt reyndist að byggja nýjan vita.

Árið 1930 var byggður 15,8 m hár vitaturn úr steinsteypu. Ári síðar voru sett á hann ljóshús, linsa og gasljóstæki járngrindarvitans og hinn nýi Selvogsviti tekinn í notkun. Árið 1987 voru veggir ljóshúss endurnýjaðir. Vitinn var raflýstur ári síðar og settur á hann radarsvari." Nú er ljós látið loga á vitanum af öryggisástæðum en radíósendir efst á honum er þó það sem mestu máli skiptir nú orðið.

StrandarkirkjaStrandarkirkja

Við svonefnda Engilsvík stendur kirkja Selvogsbúa, Strandarkirkja. Þar er og viti. Prestsetrið var löngum í Vogsósum uns brauðið var lagt niður árið 1907. Strandarkirkja er þjóðfræg vegna almennra áheita.

Strandarkirkja stendur við skerjótta Suðurströndina, leiðarljós þeirra er um sjávarslóð fara. Kirkjan er eins og kunnugt er vinsæl til áheita og um tilurð kirkjunnar hafa myndast helgisagnir sem vitna um þann lífsháska sem sjómönnum var búinn úti fyrir þessari klettóttu, hafnlausu úthafsströnd.

Fyrsta helgisögnin er að Gissur hvíti á 10. og 11. öld hafi fyrst gert kirkju á Strönd og þá úr kirkjuviðnum sem Ólafur Noregskonungur sendi hann hingað með. Gissur ásamt Hjalta Skeggjasyni tengdasyni sínum átti ríkan hlut að kristnitökunni árið 1000. Þessi skoðun byggir eingöngu á kvæði Gríms Thomsens um kirkjuna þar sem segir m.a.

,,Gissur hvíti gjörði heit
guði hús að vanda
hvar sem lífs af laxareit
lands hann kenndi stranda"

Önnur sögn er að kirkjuna hafi reist Árni nokkur formaður þegar hann var að koma með timburfarm frá Noregi. Um þennann Árna yrkir séra Jón Vestmann er hann orti um Strandarkirkju árið 1843. Í kvæðinu er Árni Þorláksson biskup í Skáholti nefndur og sagður gefa honum heimild til kirkjubyggingar á Strönd. Árni var biskup 1269 til 1298 og ætti því Strandarkirkja samkvæmt þessari sögn að hafa verið reist í fyrsta skipti á síðari helmingi 13. aldar.
Í kirknatali Páls biskups Jónssonar í Skálholti (1195-1211) sem að stofni til er frá árinu 1200 er kirkjan á Strönd hins vegar nefnd.

Þriðja helgisögnin er á þessa leið:
,,Fyrir langa löngu gerði ungur bóndi úr uppsveitum Árnessýslu för sína til Noregs á sínu eigin skipi. Var ferð þessi farin til að sækja valinn við til húsagerðar. Segir nú ekki af ferðum bónda fyrr en hann hefur verið lengi á hafi úti á leið sinni til Íslands. Lendir hann þá í sjávarháska og hafvillu í dimmviðri og veit ekki lengur hvert skip hans stefnir. Í örvæntingu sinni heitir hann því þá að gefa allan húsagerðarvið sinn til kirkjubyggingar á þeim stað er hann næði landi heilu og höldnu. Að þessu heiti unnu birtist honum sýn í líki ljósengils framundan stefni skipsins og verður nú ljósengill þessi stefnumið er hann stýrir eftir.
Segir ekki frekar af siglingu þessari fyrr en skipið kennir grunns í sandvík milli sjávarklappa. Hvarf þá engillinn og birta tók af degi. Sáu þá skipsmenn að þeir höfðu verið leiddir eftir bugðóttu lendingarsundi milli boðaskerja á úthafsbrimströnd. Þar skammt fyrir ofan var hin fyrsta Strandarkirkja reist úr fórnarviðnum."

Sameiginlegt þessum frásögnum er að menn hafi verið á leið til Íslands og lent í hafvillum og sjávarháska uti fyrir þessari hafnlausu strönd og unnið Guði sínum það heit að reisa kirkju þar sem þeir næðu landi.

Núverandi kirkja er frá 1888. Hún var endurvígð eftir endurbætur 14. júlí 1968 og enn endurbætt og endurvígð 13. okt. 1996. Þjónustuhús var reist nálægt kirkjunni 1988. Í jarðhýsi er snyrtiaðstaða fyrir gesti og gangandi. Umhverfi kirkjunnar er allt til mikillar fyrirmyndar.

Vorið 1950 var rest var reistur minnisvarði um kraftaverkið í Engilsvík norðvestan við kirkjuna. Er það standmynd á stalli eftir Gunnfríði Jónsdóttur myndhögvara og nefnist Landsýn. Sýnir hún hvítklædda konu sem heldur á skínandi krossmarki og bendir sjómönnum í lífsháska inn í Engilsvík.

Heimild um Strandarkirkju: Rit Magnúsar Guðjónssonar biskupsritara um Strandarkirkju.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?