Leitarhraun

Raufarhólshellir í LeitarhrauniLeitarhraun

Leitahraun er hraunbreiða austur frá Reykjavík sem ásamt ýmsum yngri hraunum (Hólmsárhraunum) gengur einnig undir nafninu Elliðaárhraun einkum vestan til. Leitarhraun er runnið úr eldstöðvum suðaustan undir Bláfjöllum skammt fyrir sunnan Ólafsskarð. Heita þær Leiti og er hraunið við þær kennt. Það verður rakið óslitið frá Draugahlíðum niður í Elliðaárvog. Hefur það breiðst víða út svo sem um Sandskeið og norðvestur yfir Fóelluvötn; heita þar Mosar. Einnig hefur hraunið runnið til austurs og niður á láglendi í Ölfusi, Hraunsheiði og líklega í sjó í Þorlákshöfn. Í þessari álmu hraunsins er einn af stærstu hellum landsins Raufarhólshellir. Annars staðar í hrauninu eru nokkrir smáhellar svo sem hjá Vatnaöldum. Allvíða eru gervigígar í Leitarhrauni en merkastir eru Rauðhólar.

Suðurlandsvegur liggur á löngum kafla á Leitarhrauni frá Elliðaám að Draugahlíðum. Einnig liggur Þrengslavegur á hrauninu frá Þrengslum og niður í Ölfus. Frá Draugahlíðum að Þrengslum liggur vegurinn á Svínahraunsbruna en það eru tvö apalhraun sem komið hafa upp á sögulegum tíma í Eldborgum vestan Lambafells og liggja ofan á Leitarhrauni. Annað þessara hrauna hefur verið nefnt Kristnitökuhraun.

Leitarhraun er um 5000 ára gamalt.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?