Fæðingar- og foreldraorlof

Litlar fæturFæðingar- og foreldraorlof.

Starfsmaður skal tilkynna vinnuveitanda (yfirmanni) sínum í síðasta lagi með átta vikna fyrirvara um fyrirhugaða tilhögun fæðingarorlofs. 

Starfsmenn eiga rétt til fæðingar- og foreldraorlofs samkvæmt lögum nr.  144/2020 og ákvæðum kjarasamnings.   Tímalengd ársins 2021 er alls 12 mánuðir. Hvort foreldri um sig á rétt á 6 mánuðum og eru 6 vikur framseljanlegar.

Starfsmaðurinn fyllir sjálfur út eyðublaðið “Tilkynning um fæðingarorlof” og undirritar.  Með undirskrift sinni staðfestir yfirmaðurinn þá tilhögun.  Ekki þarf að setja ákveðna dagsetningu hvenær fæðingarorlof hefst á eyðublaðið heldur má setja að fæðingarorlof hefjist frá fæðingardegi barns.  Koma þarf fram lengd fæðingarorlofs og áætlaður fæðingardagur.  Yfirmaður kemur eintaki af þessari tilkynningu til launadeildar.

Foreldri skal sækja um greiðslur til Vinnumálastofnunar 6 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Vilji foreldri hefja töku fæðingarorlofs fyrir áætlaðan fæðingardag barns skal sækja um greiðslur 3 vikum fyrir fyrirhugaðan upphafsdag fæðingarorlofs.

Útreikningur á greiðslum byggir á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda.

Foreldri skal eiga rétt á foreldraorlofi í fjóra mánuði til að annast barn sitt.
Réttur til foreldraorlofs stofnast við fæðingu barns. Við frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur er miðað við þann tíma þegar barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef foreldri þarf að sækja barnið til annars lands getur foreldraorlof hafist við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist frumættleitt.
Réttur til foreldraorlofs fellur niður er barnið nær átta ára aldri. Hafi réttur til foreldraorlofs fallið niður ónýttur að hluta eða öllu leyti við átta ára aldur barns verður sá réttur virkur aftur komi til þess að barn greinist síðar með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun, en áður en það verður fullra 18 ára.
Hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt til foreldraorlofs sem er ekki framseljanlegur.
Foreldraorlofi fylgir ekki réttur til greiðslu launa úr Fæðingarorlofssjóði.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?