Loftgæði

Loftgæði

Í töflunni hér að neðan eru settar fram upplýsingar um viðbrögð við mismunandi styrk brennisteinsdíoxíðs (SO2). Til að framsetning sé sem einföldust eru settir fram litir sem lýsa áhrifum loftmengunar við mismunandi styrk. Hver litur gefur til kynna möguleg heilsufarsáhrif hjá bæði heilbrigðum einstaklingum en einnig viðkvæmum hópum, svo sem börnum og fólki með undirliggjandi lungna- eða hjartasjúkdóma. Litirnir í töflunni eiga við um litakóða inn á loftgæði.is en lýsingar og ráðleggingar í töflunni eiga eingöngu við um SO2, ekki önnur mengunarefni.

Ráðleggingarnar miða við að aðeins sé dvalið í 10-15 mínútur í loftmenguninni. Sé dvölin lengri má búast við meiri heilsufarsáhrifum. Tilgangur þessara leiðbeininga er m.a. að tryggja að dagleg starfsemi geti gengið sinn vanagang, eins og frekast er unnt, en lágmarka eins og mögulegt er áhrif SO2 á heilsu fólks.

Skammtímaáhrif SO2. Lýsingar á áhrifum miðast við 10-15 mín

*Öll börn. Fullorðnir með astma (sögu um ýl og/eða surg fyrir brjósti, eða greindan astma), berkjubólgu, lungnaþembu og hjarta- og æðasjúkdóma. Þessar leiðbeiningar gilda einnig um barnshafandi konur en þær eru ekki metnar í hættu umfram aðra.

Almennt um áhrif SO2 á heilsufar

Mest af SO2 sem berst í efri öndunarveg líkamans frásogast þar í gegnum slímhúðina. Þar umbreytist það í lifrinni og skolast út með þvagi. Mjög lítið safnast fyrir í líkamanum og skaða á innri líffærum hefur ekki verið lýst. Einnig framleiða bakteríur í nefi og koki ýmis efni sem binda SO2 og gera það óvirkt. Þegar mengun er yfir heilsuverndarmörkum er því mikilvægt að anda rólega í gegnum nefið og forðast áreynslu. Börn eiga ekki að sofa úti í vagni þegar SO2 mengun er viðvarandi eða á meðan mengunartoppur varir og allir eiga að forðast áreynslu utan dyra. Viðkvæmir hópar ráðfæri sig við heilsugæsluna varðandi frekari ráðgjöf.
Áhrif loftmengunar á heilsu eru háð þeim tíma sem fólk dvelur í menguninni. Ef dvalið er lengur en 10─15 mínútur í mengun má búast við meiri áhrifum á heilsu en taflan segir til um.

Langtímaáhrif SO2 mengunar

Rannsóknir benda til að langtímadvöl í SO2 menguðu andrúmslofti geti valdið þrálátum öndunarfæraeinkennum, svo sem hósta, nefrennsli og astma. Þá sýna margar rannsóknir að mengunin getur valdið vaxtarskerðingu hjá fóstrum og að börn fæðist fyrir tímann. Engin merki eru um að SO2 mengun geti valdið krabbameini og óljóst er hvort mengun geti valdið hækkuðum blóðþrýstingi og ófrjósemi.

Ráðstafanir til varnar SO2 mengun innandyra.

 

  1. Sléttfull teskeið (5gr.) af matarsóda er leyst upp í 1 lítra vatns.
  2. Bleytið klút t.d. viskastykki eða þunnt handklæði í þessari lausn.
  3. Vindið mesta vatnið úr þannig að ekki leki.
  4. Strengið klútinn með þvottaklemmum á þvottagrind eða sambærilegt.
  5. Stillið grindinni upp í því herbergi sem ætlunin er að hreinsa loftið í.
  6. Látið borðviftu blása á klútinn.
  7. Til að klúturinn haldi virkni sinni þarf hann að vera rakur og gott er að halda rakastiginu við með því að úða á hann vatni t.d. úr blómaúðabrúsa.
  8. Við langvarandi mengun þarf að skola klútinn undir rennandi vatni tvisvar á dag og setja hann aftur í matarsódalausnina.

 

Nauðsynleg útivera í mikilli mengun > 2600 µg/m3.

Ef fólk þarf nauðsynlega að fara á milli húsa þegar mengun er viðvarandi sem veldur óþægindum er gagnlegt að hafa blautan klút fyrir vitum en rakinn dregur í sig SO2 agnir. Klútur/rykgríma vætt í matarsódalausn, eins og lýst er hér að ofan, er enn betri vörn en klútur sem eingöngu er bleyttur í vatni. Athugið að meira viðnám er í blautum klút/blautri grímu sem gerir innöndun erfiðari. Rykgrímur duga lengur en klútur. Þetta ráð á aðeins við útivist í stuttan tíma (10-15 mín.) og á ekki við um atvinnutengda starfsemi, en við þetta gildi er öll vinna utan dyra stöðvuð nema viðeigandi varnir séu notaðar og er þá fylgt ráðgjöf Vinnueftirlitsins (dæmi: störf vísindamanna í nágrenni virkra eldstöðva).

Vinnuverndarmörk

Fari styrkur SO2 yfir mengunarmörkin 1.300 µg/m3 að meðaltali yfir 8 klst. tímabil skal stytta vinnutímann í hlutfalli við styrk mengunarinnar eða starfsmenn noti viðeigandi gasgrímur og gasmæla. Fari styrkur SO2 yfir mengunarmörkin 2.600 µg/m3 að meðaltali á 15 mín. tímabili skal vinnu hætt eða starfsmenn noti viðeigandi gasgrímu og beri gasmæli. Sjá nánar á vef Vinnueftirlitsins.

Sóttvarnalæknir, Umhverfisstofnun, Vinnueftirlitið og almannavarnardeild ríkislögreglustjóra.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?