Öldungaráð

Öldungaráð Sveitarfélagsins Ölfuss

Eftirtaldir fulltrúar skipa öldungaráðið.

Bettý Grímsdóttir [formaður] (D)
Sigurður Ósmann Jónsson (D) [varaformaður]
Sigrún Theodórsdóttir (B)
Fulltrúi frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands

varamenn:

Ásta Halldórsdóttir (D)
Jóhanna M. Ingimarsdóttir (D)
Hjörtur Bergmann Jónsson (B)

Félag eldri borgara í Ölfusi

Halldór Sigurðsson
Þóra Ragnarsdóttir
Ásta Júlía Jónsdóttir

varamenn: 

Ester Hjartardóttir
Sigríður Sveinsdóttir
Guðni Ágústsson

 

Samþykktir fyrir Öldungaráð Sveitarfélagsins Ölfuss

Umboð

1. gr.

Öldungaráð Sveitarfélagsins Ölfuss starfar í umboði bæjarstjórnar með þeim hætti sem nánar er kveðið á um í samþykkt þessari, samþykkt um stjórn Sveitarfélagsins Ölfuss nr. 876/2013 og eftir því sem lög mæla fyrir um.

Verksvið

2. gr.

Öldungaráðið skal vera bæjarstjórn, nefndum og ráðum Sveitarfélagsins Ölfuss til ráðgjafar um málefni og hagsmuni íbúa sveitarfélagsins sem eru 67 ára og eldri. Ráðið skal stuðla að hvers konar upplýsingagjöf og samstarfi Sveitarfélagsins Ölfuss við hagsmunasamtök hópsins, móta stefnu og gera tillögur til bæjarstjórnar sem varðar verksvið þess.

Hlutverk

3. gr.

Öldungaráðið er vettvangur samráðs íbúa sveitarfélagsins sem eru 67 ára og eldri, félagasamtaka þeirra, atvinnulífs og bæjaryfirvalda og er virkur þátttakandi í allri stefnumörkun málaflokksins. Öldungaráðið er m.a. ráðgefandi um framtíðar skipulag öldrunarþjónustu, uppbyggingu hjúkrunarheimila, þjónustu- og öryggisíbúða í sveitarfélaginu. 

Öldungaráðið er ekki síður ráðgefandi fyrir starfsemi  Sveitarfélagsins Ölfuss í málaflokknum og stuðlar m.a. að eflingu félagsauðs og kynningu á þjónustu stofnana sveitarfélagsins til íbúa þess sem eru 67 ára og eldri.

Í öldungaráði skal lögð áhersla á samvinnu og samnýtingu á sérfræðiþjónustu og annarri þjónustu sem varðar eldri borgara.  Samráðsferlið á að gefa ráðinu hugmynd um hver staða öldrunarþjónustu er hverju sinni í sveitarfélaginu.  Öldungaráð vinnur úr þeim upplýsingum og kemur þeim í réttan farveg til kynningar og úrlausnar.

Skipan

4. gr.

Öldungaráðið er skipað 3 fulltrúum og jafnmörgum til vara. Bæjarstjórn kýs einn fulltrúa og einn til vara, Félag eldri borgara tilnefnir einn fulltrúa og einn til vara og Höfn hollvinafélag tilnefnir einn fulltrúa og einn til vara. Bæjarstjórn kýs formann ráðsins en öldungaráðið sjálft kýs sér varaformann og skiptir að öðru leyti með sér verkum. Kjörtímabil ráðsins er hið sama og bæjarstjórnar.

Þá getur öldungaráðið tekið ákvörðun um áheyrnarfulltrúa hagsmunasamtaka með málfrelsi og tillögurétt.

Verkstjórn og verkaskipting

5. gr.

Formaður ráðsins er í forsvari fyrir það um stefnumótun og ákvarðanir þess eftir því sem við á og hefur, ásamt öðrum fulltrúum í ráðinu, eftirlit með framkvæmd mótaðrar stefnu í málaflokknum.

Boðun funda og fundarsköp

6. gr.

Öldungaráðið fundar eftir þörfum.  Öldungaráð skal funda amk. einu sinni á ári með bæjarstjórn á opnum fundi og skal miða við að slíkur fundur sé haldinn að hausti.  Á þeim fundi verði kynntar hugmyndir og tillögur að fjárhagsáætlun sem snúa að málefnum ráðsins.

Formaður öldungaráðsins boðar til funda, ákveður dagskrá í samráði við aðra fulltrúa ráðsins, forstöðumann Skóla- og velferðarþjónustu og bæjarstjóra eftir atvikum. Á dagskrá skulu m.a. tekin mál sem fulltrúar í ráðinu hafa óskað eftir að tekin verði þar fyrir enda séu þau á verksviði ráðsins. Fundir skulu boðaðir með a.m.k. tveggja sólarhringa fyrirvara og skal dagskrá fylgja fundarboði.

Rafræn boðun fundar og útsending fundargagna telst fullgild boðun.

Heimilt er að taka mál til meðferðar í ráðinu þótt ekki sé það tilgreint á útsendri dagskrá en skylt er þá að fresta afgreiðslu þess til næsta fundar sé þess óskað.

Um fundarsköp fer eftir samþykkt um stjórn Sveitarfélagsins Ölfuss eftir því sem við á.

Ráðið getur boðað til fundar einstaka starfsmenn Sveitarfélagsins Ölfuss, forstöðumann Skóla- og velferðarþjónustu og aðra þá sem hún telur þörf á hverju sinni.  Forstöðumaður skóla- og velferðarþjónustu og bæjarstjóri hafi seturétt á fundum ráðsins með málfrelsi og tillögurétt.

Fundaskipulag og ritun fundargerða

7. gr.

Ráðsfundur skal að jafnaði haldinn fyrir luktum dyrum og er þá óheimilt að greina opinberlega frá ummælum sem fram koma hjá einstökum fundarmönnum.

Öldungaráðið skal halda gerðabók og senda eftirrit fundargerða til bæjarstjórnar jafnóðum. Um ritun fundargerða fer eftir verklagsreglum sveitarfélagsins.

Málsmeðferð 

8. gr.

Við undirbúning mála og stjórnvaldsákvarðanir skal þess gætt að farið sé að stjórnsýslulögum og verklagsreglum um stjórnsýsluna..

Um hæfi kjörinna fulltrúa og starfsmanna vísast í samþykkt um stjórn Sveitarfélagsins Ölfuss nr. 876/2013.

Samþykkt í bæjarstjórn 24. nóvember 2016.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?