Um verkefnið

Hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities, sem hefur verið innleitt í hundruðum sveitarfélaga út um allan heim frá því 1996. Íslenska líkanið byggir jafnframt á efni frá umboðsmönnum barna í Noregi og Svíþjóð og UNICEF í Finnlandi.

Með innleiðingu Barnasáttmálans samþykkir sveitarfélag að nota Barnasáttmálann sem rauðan þráð í gegnum alla starfsemi sína. Segja má að starfsmenn og stjórnmálamenn sveitarfélagsins setji upp „barnaréttindagleraugu" og rýni og skoði verk- og ákvarðanaferla með hliðsjón af sáttmálanum. Sáttmálinn er þannig nýttur sem gæðastjórnunarverkfæri í stefnumótun og þjónustu með tilliti til barna.

Barnvænt sveitarfélag skuldbindur sig til þess að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að vinna markvisst eftir hugmyndafræði verkefnisins - sem byggir á eftirfarandi grunnþáttum:

  • Þekkingu á réttindum barna innan sveitarfélagsins.
  • Að haft sé að leiðarljósi það sem barninu er fyrir bestu.
  • Jafnræði - að horft sé til réttinda allra barna.
  • þátttaka barna sé markviss í starfi og ákvörðunum bæjarins.
  • barnvæn nálgun sé viðhöfð innan sveitarfélagsins.

 

Innleiðingarferlið

Innleiðingarferli Barnasáttmálans er ferli sem tekur tvö til þrjú ár og skiptist í átta skref, sem sveitarfélag stígur með það að markmiði að virða og uppfylla réttindi barna. Að þeim tíma liðnum, getur sveitarfélagið sótt um viðurkenningu frá UNICEF á Íslandi að undangenginni úttekt. Til að viðhalda viðurkenningunni þarf sveitarfélagið að halda innleiðingunni áfram, setja sér ný markmið og óska eftir nýju mati á tveggja ára fresti.

 

Samráð við börn og ungmenni

Einn mikilvægasti þátturinn í innleiðingu Barnasáttmálans í Sveitarfélaginu Ölfusi er kortlagning á stöðu og velferð barna í sveitarfélaginu. Kortlagningin byggir á mörgum þáttum en ekki síst því að leita eftir skoðunum og upplifunum barna á því hvernig hægt sé að gera bæinn að enn betri stað fyrir öll börn. Börn búa yfir mjög verðmætri þekkingu á því hvað sé vel gert og hvað sé hægt að gera betur – þessa þekkingu vill sveitarfélagið nýta í innleiðingarvinnunni.

Sveitarfélagið nýtir fyrirliggjandi gögn sem safnað er af viðurkenndum aðilum, s.s. Embætti Landlæknis, Rannsóknum og greiningu og Hagstofu Íslands. Þá er leitað til ungmennaráðs sveitarfélagsins, nýttar niðurstöður af ungmennaþingi og lagðar fyrir spurningakannanir fyrir börn í 5. – 10. bekk og einnig fyrir starfsmenn sveitarfélagsins.

Foreldrar eru hvattir til kynna sér Barnasáttmálann og barnvæn sveitarfélög Unicef og ræða við börnin:

www.barnasattmali.is

http://barnvaensveitarfelog.is

www.unicef.is

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?