Ingólfsfjall

Ingólfsfjall - Mats Vibe Lund photographyIngólfsfjall í Ölfusi er 551m, er hömrum girt á þrjá vegu og mjög hlíðabratt. Þegar sjávarstaða var hæst í ísaldarlok hefur það verið sæbrattur höfði sem brimið braut niður og skapaði þá hinar bröttu hlíðar. Það er tengt Grafningsfjöllum með Grafningshálsi. Ingólfsfjall er einkum gert úr móbergi með hraunlögum inn á milli einkum að neðan og í kolli. Ingólfsfjall hefur orðið til um miðja ísöld. Suður úr vesturhorni fjallsins skagar grár klettamúli Silfurberg sem er úr móbergi með ljósum holufyllingum sem aðallega eru geislasteinaútfellingar. Þar suður af er Kögunarhóll og liggur þjóðvegurinn á milli.

Ingólfsfjall er kennt við landnámsmanninn Ingólf Arnarson. Uppi á fjallinu er grágrýtishæð sem heitir Inghóll og segja munnmæli að þar sé Ingólfur heygður. Sagan segir, að hann opnist eina nótt sumar hvert og þá sé hægt að komast að dýrgripunum sem voru grafnir með honum. Landnáma segir frá þriðju vetursetu Ingólfs að Fjallstúni við sunnanvert fjallið, er hann var á vesturleið í leit að öndvegissúlunum. Þar stóð síðar stórbýlið Fjall sem fór í eyði á 18. öld. Minjar fyrri byggðar þar eru friðlýstar.

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?