Dýrahald

HvolpurÍ 11. grein reglugerðar um velferð gæludýra stendur:

Merking og skráning.

Umráðamanni hunda, katta og kanína er skylt að auðkenna öll dýr innan 12 vikna aldurs með einstaklingsörmerki skv. alþjóðlegum ISO-staðli. Samtímis skal örmerkjanúmerið skráð í miðlægan gagnagrunn sem er samþykktur eða rekinn af Matvælastofnun. Umráðamanni ber að tryggja að upplýsingarnar séu réttar á hverjum tíma. Umráðamaður ber allan kostnað af merkingu og skrán­ingu dýra sinna.

Hundar og kettir sem fara út skulu frá fjögurra mánaða aldri bera hálsól með merki þar sem fram koma eigendaupplýsingar svo sem nafn og símanúmer umráðamanns.

Hundar

Hundahald er bannað í Sveitarfélaginu Ölfusi að undanteknum þarfahundum á lögbýlum og sérþjálfuðum leiðsögu- eða hjálparhundum sem þeir einstaklingar þurfa á að halda sem eru blindir eða fatlaðir á annan máta Sveitarstjórn Ölfuss er heimilt að veita einstaklingum búsettum í sveitarfélaginu undanþágu til hundahalds að uppfylltum skilyrðum í samþykkt þessari. Óheimilt er að veita undanþágu til hundahalds í fjölbýlishúsum nema fylgt sé ákvæðum 33. gr. a - 33. gr. c í lögum nr. 26/1994, um fjöleignarhús, sbr. lög nr. 40/2011

Undanþága til hundahalds er háð eftirfarandi skilyrðum:
Að hundurinn gangi aldrei laus á almannafæri innan skipulags þéttbýlis eða samþykktum frístundabyggðum, heldur sé í fylgd með einhverjum sem hefur fullt vald yfir honum.
Að umráðamaður hunds hreinsi tryggilega og án tafar upp saur sem hundurinn skilur eftir sig á almannafæri í skipulögðu þéttbýli eða samþykktum frístundabyggðum. 
Að hundurinn fari ekki inn í skólahús, opinberar byggingar, matvöruverslanir eða aðra þá staði sem taldir eru upp í fylgiskjali 3 við reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti. Heimilt er þó að hleypa hjálparhundum inn á viðkomandi staði.

Umsókn um leyfi til hundahalds(íbúagátt)
Samþykkt um hundahald frá 2011

Hundagerði er staðsett fyrir norðan Ísnet í áttina að golfvellinum.    Kort
Hægt er að kaupa lífræna hundapoka á bæjarskrifstofum Ölfuss, 50 stk eru á 500 kr.

Kettir

Kattahald er bannað í þéttbýlisstöðunum (skilgreining á þéttbýli samkv. 1. kafla 1.3 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998) í Sveitarfélaginu Ölfusi.
Bæjarstjórn er heimilt að veita lögráða einstaklingum, sem búa í sveitarfélaginu undanþágu frá og leyfi til kattahalds. Leyfið er bundið við nafn og heimilisfang einstaklings og óheimilt er að framselja það. Leyfið er einnig bundið við þann kött sem sótt er um heimild fyrir hverju sinni. Samþykkt þessi hefur það að markmiði að stuðla að því að umráðamenn katta fari vel með ketti sína, sjái til þess að þeir lendi ekki á flækingi, valdi ekki nágrönnum óþægindum eða tjóni og til verndar fuglalífi í sveitarfélaginu. 

Samkvæmt 8. gr. í samþykkt um kattahald í Sveitarfélaginu Ölfusi er eigendum katta skylt að koma í veg fyrir að kettir þeirra séu á flækingi utan dyra frá kl. 24:00 að nóttu til kl. 07:00 að morgni. 

Umsókn um leyfi til kattahalds(íbúagátt)
Samþykkt um kattahald

Hænur

Sækja skal um leyfi fyrir hænur í þéttbýli (skilgreining á þéttbýli samkv. 1. kafla 1.3 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998) til Sveitarfélagsins Ölfus.

Skilyrði leyfisveitinga eru:
Að tilskilin leyfi byggingar- og skipulagsyfirvalda liggi fyrir nema að skilyrði í g-lið í 2.3.5. gr. í byggingareglugerð nr. 112/2012 sé uppfyllt.
Að fyrir liggi samþykki sameigenda ef um fjöleignarhús er að ræða. Sama á við ef um er að ræða jörð eða fasteign í óskiptri sameign. Sé umsækjandi leigjandi skal fylgja samþykki leigusala.
Ganga skal úr skugga um að hænsnahald hafi ekki verið sérstaklega bannað eða þinglýstar kvaðir séu á húseignum sem koma í veg fyrir að þar séu haldin hænsni.
Leyfilegt er að halda allt að sex hænsni á hverri lóð. Óheimilt með öllu er að halda hana.
Ekki er veitt leyfi hafi umsækjandi gerst brotlegur við lög um velferð dýra.

Lausaganga hænsna er með öllu óheimil og ber hænsnaeigandi fulla vörsluskyldu. Hænsnaeigandi er að öllu leyti ábyrgur fyrir hænsnum sínum og ber að koma í veg fyrir að hænsnahaldið valdi ónæði í umhverfinu, svo sem vegna hávaða, ólyktar og hvers konar óþrifnaðar. Hænsnaeiganda ber að sjá til þess að hænsnahaldið laði ekki að meindýr.

Umsókn um leyfi til hænsnahalds í þéttbýli

Sími dýraeftirlitsmanns er: 898-2807 

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?