Arnarbæli

Arnarbæli í ÖlfusiBæjahverfið sem Arnarbæli er hluti af fékk nafnið Arnarbælishverfi.  Arnarbælisforir eru mýrlendi á þessu frjósama landsvæði.  Mikill vatnsagi gerði bændum erfitt fyrir og tilraunir voru gerðar til að ræsa vatnið fram.  Geldneyti frá Arnarbæli voru gjarnan látin ganga á Hellisheiði á sumrin áður en afurðirnar voru seldar til Reykjavíkur.  Margir áttu stundum fótum fjör að launa á leiðinni yfir heiðina undan galsafengnum eða jafnvel mannýgum nautum fyrrum.

Einhver mesti höfðingi Sturlungaaldar, Þorvarður Þórarinsson af Svínfellingaætt, fluttist austan af landi að Arnarbæli 1289.  Hann bjó þar til dauðadags í 7 ár.  Margir álíta, að hann hafi notað þennan tíma til að rita Njálssögu.

Arnarbæliskirkja stóð til ársins 1909 og þar var löngum prestssetur.  Þetta ár var Reykjakirkja líka lögð niður og báðar sóknirnar lagðar til Kotstrandar.  Margir merkisprestar sátu staðinn, s.s. Jón Daðason, sem flutti frá Djúpi 1641 og bjó þar til dauðadags 1676.  Hann kenndi séra Eiríki Magnússyni, aðstoðarpresti og síðar sóknarpresti í Vogsósum, vísindi í 9 ár.  Séra Jón varð að verjast mörgum sendingum frá fyrrum sóknarbörnum fyrir vestan sem þekktust við hann líkt og séra Snorra í Húsafelli.

Annálar 20. apríl 1706 segja frá jarðskjálfta sem olli hruni margra bæja á Suðurlandi. Arnarbælisbærinn hrundi til grunna og presturinn Hannes Erlingsson komst út um sprunginn vegg eða þak hálfnakinn með ungabarn.  Teinæringur sem prestur gerði út frá Þorlákshöfn fórst um svipað leyti með 11 manna áhöfn, kvæntum hjáleigubændum úr Arnarbælishverfi.  Bæjarhúsin hrundu aftur til grunna í jarðskjálftunum 6. september 1896.

Forn og stór rúst á Þingholti í Arnarbælislandi er friðuð.

Heimild: Nat.is

 

X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?