Fundargerðir

Til bakaPrenta
Fjölskyldu- og fræðslunefnd - 33

Haldinn í Ráðhúsi Ölfuss,
04.06.2025 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Guðlaug Einarsdóttir aðalmaður,
Hrafnhildur Lilja Harðardóttir aðalmaður,
Bettý Grímsdóttir 1. varamaður,
Helena Helgadóttir leikskólastjóri,
Ólína Þorleifsdóttir skólastjóri,
Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir leikskólastjóri,
Svala Ósk Sævarsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Ragnheiður María Hannesdóttir áheyrnarfulltrúi,
Valur Rafn Halldórsson áheyrnarfulltrúi,
Ingibjörg Lilja Pálsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Jóhanna M Hjartardóttir sviðsstjóri,
Fundargerð ritaði: Jóhanna M. Hjartardóttir, sviðsstjóri
Guðlaug Einarsdóttir setti fund í fjarveru formanns og óskaði eftir athugasemdum við fundarboð. Engar bárust en talað var um nýjan hlekk á fundargátt Ölfuss.

Davíð Arnar boðaði forföll.


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2505063 - Leikskólinn Hraunheimar - staða mála
Leikskólastjóri fór yfir verkþætti er varðar nýbyggingu leikskólans Hraunheima.

Framkvæmdir ganga vel og eru á áætlun. Lögð hefur verið sérstök áhersla á norðurhluta hússins, þannig að stjórnendur geti komist sem fyrst inn til að hefja undirbúning. Búið er að flota öll gólf, grunna alla veggi og sprautumála helming þeirra. Einnig hefur verið sett upp styrking fyrir kaðla í salnum.

Samkvæmt verkáætlun kemur fyrsti gámur með innréttingum þann 10. júní. Frágangur utanhúss er hafinn og ætti að taka um það bil einn mánuð til viðbótar.
Hönnun á lóðinni er tilbúin og búið er að panta öll leiktæki. Gert er ráð fyrir að það taki 6 til 8 vikur fyrir tækin að berast til landsins. Uppsetning mun hefjast um leið og tækin koma og tekur um það bil 4 vikur. Lóðin hefur verið hreinsuð þannig að hægt verði að hefja undirvinnu sem allra fyrst.

Gert er ráð fyrir að um 50 börn hefji leikskóladvöl í haust.

Aldurssamsetning er fjölbreytt eins og staðan er núna verða:

- 12 börn í skólahóp (fædd 2020)
- 5 börn fædd 2021
- 15 börn fædd árið 2022
- 11 börn fædd árið 2023
- 4 börnum fæddum 2024 hefur verið boðið pláss

Nefndin þakkar ánægjulegar fréttir af nýrri leikskólabyggingu og -starfi í Hraunheimum.
2. 2311017 - Skýrsla skólastjóra
Mini menntabúðir hafa fest sig í sessi sem mikilvægur þáttur í lærdómssamfélagi skólans. Í apríl kynntu kennarar þrjú verkefni: bókmenntahringekju, útinámsverkefni og afleiðingaaðferð í bekkjarstjórnun.

Starfsfólk fór í fróðlega og skemmtilega námsferð til Vestmannaeyja 2. maí. Þar kynntum við okkur m.a. verkefnið Kveikjum neistann. Ferðin styrkti tengsl og samstarf og fyrirhugað er að fara í sameiginlega námsferð með kennurum í Vestmannaeyjum til Kanada vorið 2026 á námskeið í Uppeldi til ábyrgðar.

Stóra upplestrarkeppnin 7. bekkjar fór fram í Hveragerði og stóðu nemendur okkar sig afar vel og lentu í þremur efstu sætunum. Lokahátíð Litlu upplestrarkeppninnar 4. bekkjar var einnig haldin með foreldrum. Þessi tvö verkefni skapa dýrmæt tækifæri til þjálfunar í framsögn og framkomu.

Skólahreystikeppnin fór fram í byrjun maí og komst lið skólans í fyrsta sinn í úrslit sem sýnd voru í beinni á RÚV.

Leiklistarvalið frumsýndi Línu Langsokk í maí undir leikstjórn Örnu Daggar Sturludóttur. Sýningin heppnaðist afar vel með stuðningi hljómsveitar úr röðum fyrrum nemenda, starfsfólks og foreldra. Stefnt er að því að uppsetning á leikriti verði aftur að árlegum viðburði í skólastarfinu.

Árlega danssýningin var haldin í lok maí með þátttöku allra nemenda í 1.?7. bekk. Sýningin tókst afar vel undir stjórn Önnu Berglindar Júlídóttur danskennara.

Ráðningar fyrir næsta skólaár hafa gengið mjög vel og bárust margar góðar umsóknir um laus störf. Í maí og byrjun júní eru vorferðir, námsmat og fjölbreytt útiverkefni í fyrirrúmi í skólastarfinu.

Fimmtudaginn 5. júní eru síðan skólaslit og útskrift 10. bekkjar og skólaslit.

Nefndin þakkar kynningu á fjölbreyttu vorstarfi grunnskólans.
3. 2311012 - Skýrsla leikskólastjóra
Það hefur verið annasamt vor hjá elsta árgangi leikskólans:
- vorskóli 14.-16. maí í grunnskólanum.
- Útskriftarferð í Garðyrkjuskólann á Reykjum þar sem að þau skoða og fá fræðslu um ræktunina þar.
- Heimsókn í hesthúsin til Harðar Jóns og Dóru Siggu og fengu þar höfðinglegar móttökur. Færum við þeim hjónum miklar þakkir fyrir en þau tóku líka á móti þeim í fyrra.
- Úskrift þann 28. maí.

Vorhátíð foreldrafélagssins var haldin 23. maí á skólatíma. Brunaverðir mættu með bíl sem var hægt að máta sig í. Einnig voru fiskar til sýnis og að lokum kom Íþróttaálfurinn í heimsókn.

Leikskólinn Bergheimar lenti í úrtaki hjá Samgöngustofu um umferðaröryggi barna í bíl. Fólk frá Slysavarnarfélaginu sér um að taka þessa könnun.

Nefndin þakkar kynningu á fjölbreyttu leikskólastarfi.
Mál til kynningar
4. 2505073 - Foreldrakönnun - Bergheimar 2025
Leikskólastjóri kynnti niðurstöður foreldrakönnunar Hjallastefnunnar 2025. Könnunin kom ágætlega út. Umbótaáætlun er í vinnslu varðandi þá þætti sem betur mættu fara.
Nefndin þakkar kynninguna og er ánægjulegt að niðurstöður gefa jákvæða mynd og vaxandi ánægju foreldra af leikskólastarfi Bergheima frá síðustu könnun.
5. 2505064 - Skólaþjónusta - staða mála á vettvangi
Sviðsstjóri fór yfir málefni sem voru efst á baugi á vorfundi Grunns, félags fræðslustjóra og stjórnenda á skólaskrifstofum.
Nefndin þakkar kynninguna.
6. 2505061 - Bara tala - stafrænn íslenskukennari
Bara tala er stafrænn íslenskukennari sem byggir á gervigreind og íslenskri máltækni. Hjá Bara tala er lögð áherlsa á talmál og nemendum gefst tækifæri til að læra og æfa sig í framsögn á íslenskri tungu. Lausnin er seld beint til fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnanna.

Appið, Bara tala, gefur fyrirtækjum tækifæri til að þjálfa starfsfólk sitt í íslensku, með sérstaka áherslu á orðaforða og setningar sem nýtast í starfi.

Nefndin þakkar kynninguna og hefur áhuga á að skoða næstu skref og bjóða starfsmönnum í Ölfusi upp á þjálfun og notkun á appinu Bara tala. Sviðsstjóra er falið að skoða framhaldið.
7. 2505065 - Farsældarfréttir BOFS
Fréttir frá BOFS
- nýtt fyrirkomulag á skráningu mála í samþættingu þjónustu hjá tengiliðum og málstjórum farsældar tók gildi 1. janúar á þessu ári.

- Kynning á verkefnastjórum farsældarráða.

Nefndin þakkar kynninguna.
8. 2505016 - Sumarnámskeið 2025
Sviðstjóri kynnti fjölbreytt sumarnámskeið fyrir börn og unglinga sem hafa verið birt á heimasíðu Ölfuss.
Nefndin þakkar kynninguna og er mikil ánægja með fjölbreytt framboð af íþrótta- , frístunda- og menningarnámskeiðum í sumar. Stjórnendur í skólunum ætla að senda upplýsingar um sumarnámskeiðin til foreldra.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:30 

Til bakaPrenta
X Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?